Öryggi og útkoma mæðra og barna

 

Ljósmæðrum ber að standa vörð um hið lífeðlislega ferli fæðingarinnar samhliða því að tryggja öryggi móður og barns. Félagsleg og ljósmóðurfræðileg nálgun að heilbrigði gerir ráð fyrir að öryggi sé ekki einungis skilgreint eftir líkamlegum þáttum heldur einnig skuli huga að andlegum og félagslegum þörfum kvenna. Örugg útkoma fæðingar felur því í sér líkamlega heilsu móður og barns, en ekki síður sátt og ánægju með reynsluna og þjónustuna. 

Embætti Landlæknis gefur út leiðbeiningar um val á fæðingarstað og er farið eftir þeim leiðbeiningum í hvívetna þegar konum er ráðlagt hvort Fæðingarheimili Reykjavíkur sé hentugur fæðingarstaður fyrir þær. Í fæðingunni sjálfri eru ávallt tvær ljósmæður til staðar sem hafa það hlutverk að meta framgang fæðingarinnar og að hún gangi eðlilega fyrir sig. Ljósmæðurnar styðja við foreldra í fæðingunni, tryggja að móður og barni líði vel og meta þörf fyrir flutningi á hærra þjónustustig ef aðstæður krefjast þess. 

Fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu eru ljósmæðurnar með fjölskyldunni til að tryggja að öllum heilsist áfram vel ásamt því að aðstoða móður og barn við að koma brjóstagjöfinni af stað. Fæði konan á Fæðingarheimilinu fer fjölskyldan heim að lokinni stuttri sængurlegu á Fæðingarheimilinu eftir fæðingu. Ljósmæðurnar koma svo heim til fjölskyldunnar innan 6–8 klukkustunda í fyrstu vitjun. Vitjanirnar eru einu sinni til tvisvar á dag í sjö til tíu daga eftir þörfum fjölskyldunnar. Með þessu móti tryggjum við samfellda þjónustu þar sem ljósmæðurnar sinna fjölskyldunni á meðgöngu, í fæðingu og einnig eftir fæðinguna. Samfelld þjónusta tryggir öryggi kvenna og barna þar sem myndast hefur traust milli verðandi foreldra og ljósmæðra. Ljósmæðurnar hafa fengið tækifæri til að heyra óskir verðandi foreldra, þekkja vel sögu þeirra og geta því brugðist við þeim aðstæðum sem upp koma í samvinnu við foreldra. Þetta eykur öryggi eins og hefur verið sýnt fram á í fjölda mörgum rannsóknum. 

Það kemur fyrir að breyta þurfi um plan. Þetta getur falið í sér samtal við lækni eða ljósmóður á meðgöngu eða jafnvel flutning á annan fæðingarstað í fæðingu. Slíkt er alltaf unnið í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og Landspítala.

Rannsóknir hafa sýnt betri útkomu heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu sem stefna að því að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum í samanburði við þær sem ætluðu sér að fæða á hátæknisjúkrahúsi. Þær eru ólíklegri til að þurfa hríðaörvun, áhaldafæðingu, keisarafæðingu, mænurótardeyfingu, hljóta alvarlega spangarrifu, spangarskurð eða að blæða eftir fæðingu. Einnig hafa rannsóknir sýnt jafngóða útkomu barna hjá hraustum konum í eðlilegri meðgöngu sem fæðast á ljósmæðrastýrðum einingum og hjá þeim sem fæða á hátæknisjúkrahúsi. Þetta er byggt á alþjóðlegum rannsóknum sem sýna að samfelld ljósmæðrastýrð þjónusta í barneignarferlinu gefur betri útkomu fyrir móður og barn og er grunnurinn að þeim leiðbeiningum embættis landlæknis um val á fæðingarstað sem við fylgjum hér á landi.