Fæðingarúrvinnsla

Fæðing barns er stór stund og eðlilegt að nýir foreldrar hafi þörf fyrir að spjalla um fæðinguna og tímann eftir fæðingu. Þetta á oft sérstaklega við þegar plönin hafa breyst eða fæðingin ekki gengið eins og fólk hafði séð fyrir sér áður. Þegar svo er, þá vakna oft margar spurningar um af hverju ákveðnir atburðir áttu sér stað og er flestum mikilvægt að fá svör við þeim spurningum.

Við bjóðum þér að hitta ljósmóður og ræða um upplifun þína af fæðingu, sængurlegu og brjóstagjöf. Markmið þessarar viðtalsþjónustu er að veita þér stuðning við að vinna úr erfiðri fæðingarreynslu og stuðla að jákvæðri reynslu foreldra af næstu meðgöngu og fæðingu. Þrátt fyrir að flestar konur upplifi fæðingar sínar sem jákvæða reynslu, þá eiga sumar konur erfitt með að komast yfir neikvæða upplifun sína. Neikvæð upplifun getur haft áhrif á líðan móður, tengslamyndun við barn og samskipti við maka. Það er því mikilvægt að leita sér hjálpar og samtal við ljósmóður um fæðinguna getur verið mjög heilandi.

Viðtal við ljósmóður um fæðinguna tekur um klukkustund og er algerlega á þínum forsendum. Viðtalið er opnað með spurningu um hvað þú vilt ræða og stýrir þú svo ferðinni í viðtalinu. Tímasetning viðtalsins er líka á þínum forsendum - kannski viltu spjalla um fæðingu nokkrum vikum eftir að hún átti sér stað - en kannski eru liðin mörg ár. Oft koma erfiðar tilfinningar aftur upp á yfirborðið þegar kona á von á sínu öðru barni - og þá getur verið gott að ræða við fagaðila um upplifun af síðustu fæðingu. Það er mjög algengt að konur bóki fæðingarúrvinnsluviðtal þegar þær eiga von á næsta barni.

Oft er minning um atburðarrásina óljós og með því að fara yfir fæðingarsöguna er um leið verið að fylla inn í eyður en skýr mynd af atburðarrásinni getur hjálpað til við úrvinnslu tilfinninga tengdum fæðingunni. Oft dugar eitt viðtal en þér er boðin endurkoma ef ástæða þykir til. Einnig getum við vísað þér til annarra fagaðila ef þurfa þykir - t.d. viðtal við sálfræðing eða fæðingalækni.

Fæðingarúrvinnslu viðtal er frítt fyrir skjólstæðinga okkar sem hafa verið hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur í meðgönguvernd eða fæðingu. Það eru þó allir velkomnir í fæðingarúrvinnsluviðtal og kostar það þá 9.900 kr.

Ef þið hafið fætt barnið ykkar á Fæðingarheimili Reykjavíkur getið þið sent okkur tölvupóst til að fá fæðingarskýrsluna ykkar.

Panta má fæðingarskýrslu frá Landspítala hér!