Ljósmæðurnar á fæðingarheimilinu sinna bæði kennslu og rannsóknum við Háskóla Íslands og hafa birt niðurstöður fjölmargra rannsókna í alþjóðlegum vísindatímaritum. Hér höfum við tekið saman nokkrar af þeim rannsóknum sem hafa birst á undanförnum árum og segjum frá þeim í stuttu máli, en einnig má lesa frekar um rannsóknirnar með því að smella á linkana.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort erlendar konur á Íslandi væru í aukinni hættu á svæfingu fyrir bráðakeisaraskurð samanborið við íslenskar konur.

Rannsóknin birtist í Læknablaðinu í apríl 2024 og voru helstu niðurstöðurnar þær að erlendar konur voru í aukinni hættu á því að lenda í neyðarkeisaraskurði (OR 1,45, 95% ÖB 1,08-1,94) en hann er nær alltaf gerður í svæfingu. Erlendar konur voru þó ekki í aukinni hættu á svæfingu fyrir bráðakeisaraskurð. Hugsanlega útskýringar eru tungumálaörðugleikar og að mögulega sé stuðningi og upplýsingagjöf ábótavant hjá þessum hópi kvenna.


Markmið rannsóknarinnar var að meta útkomur fyrirbura íslenskra mæðra og mæðra af erlendum uppruna á Íslandi á árunum 1997-2018.

Helstu niðurstöðurnar voru að fyrirburafæðingum fjölgaði marktækt á rannsóknartímabilinu (3,9% 1998-2001 á móti 4,5% 2012-2018, p<0,005) og voru þær algengari meðal mæðra af erlendum uppruna, sérstaklega frá löndum með lægst HDI (OR 1,49 (CI 1,21-1,81) p<0,001). Fyrirburar mæðra frá löndum með lægst HDI greindust sjaldnar með glærhimnusjúkdóm miðað við fyrirbura íslenskra mæðra (4,5% á móti 11,4%, p=0,035) á meðan fyrirburar mæðra frá löndum með miðlungshátt HDI voru oftar smáir miðað við meðgöngulengd miðað við fyrirbura íslenskra mæðra (11,4% á móti 6,9%, p=0,021). Rannsóknin birtist í Læknablaðinu árið 2024.


Íslensk rannsókn sem birtist í Ljósmæðrablaðinu árið 2023 og fjallar um þætti sem tengjast því hvort konur séu með barn sitt eingöngu á brjósti. Mjög fáar íslenskar rannsóknir eru til um brjóstagjöf og er því ánægjulegt að sjá þessar niðurstöður.

Um 70% kvenna voru með barn sitt eingöngu á brjósti um mánuði eftir fæðingu. Ýmsir bakgrunns og fæðingartengdar breytur virðast hafa áhrif á það hvort konur eru með barn sitt eingöngu á brjósti. Rannsóknin var unnin sem meistaraverkefni í ljósmóðurfræði undir leiðsögn Emmu Marie Swift.


Þessi íslenska rannsókn birtist í Læknablaðinu árið 2023 og fjallar um tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum hjá konum af erlendum uppruna samanborið við íslenskar konur hér á landi á árunum 1997-2018.

Helstu niðurstöður voru þær að marktækur munur var á tíðni fyrirburafæðinga hjá íslenskum konum (4,4%) og kvenna með erlent ríkisfang (5,6%). Konur með erlent ríkisfang greindust oftar með þvagfærasýkingar, sykursýki, vaxtarskerðingu og fyrirmálsrifnun himna, en sjaldnar með meðgöngueitrun, offitu, fylgjugalla, geðræn vandamál og aldur <18 ára. Rannsóknin var unnin sem meistaraverkefni í ljósmóðurfræði undir leiðsögn Emblu Ýrar Guðmundsdóttur.


Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að sterkustu áhættuþættirnir fyrir blæðingu voru bráðakeisaraskurður (OR 2,68; CI 2,22-3,22) og áhaldafæðing (OR 2,18; CI 1,80-2,64) en fæðing þungbura, fæðing fyrsta barns og LÞS ≥30 voru einnig sjálfstæðir áhættuþættir. Rannsóknin birtist í Læknablaðinu árið 2023.


Þessi rannsókn er hluti af doktorsverkefni Edythe Mangindin og lýsir upplifun kvenna af virðingu í barneignarþjónustu á Íslandi. Rannsóknin birtist í blaðinu Midwifery árið 2023.

Rannsóknin skoðaði hvort það væri munur á upplifun íslenkra kvenna og kvenna af erlendum uppruna og sýndu niðurstöður marktækan mun þar á. Verkefnið var unnið við Háskóla Íslands undir leiðsögn Emmu Marie Swift.


Þessi rannsókn var hluti af alþjóðlegu samstarfi sem skoðaði áhrif COVID-19 á heilsu og líðan nýbura. Rannsóknin birtist í erlenda blaðinu NATURE - human behavior árið 2023 og var Emma Marie Swift ábyrgðarmaður rannsóknarinnar á Íslandi.


Þegar Hreiðrinu var lokað á Landspítala árið 2014 var farið í viðamiklar aðgerðir til að passa að tíðni eðlilegra fæðinga myndi ekki fara lækkandi eins og aðrar rannsóknir hafa sýnt að geti gerst þegar deildum með eðlilegum fæðingum og áhættufæðingum eru sameinaðar. Þessi rannsókn skoðaði hvort þessar aðgerðir hefðu borið árangur og það er gleðilegt að segja að niðurstöðurnar benda til þess að svo hafi verið!

Þessi rannsókn var meistaraverkefni í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands undir leiðsögn Berglindar Hálfdánsdóttur í samvinnu við Emmu M Swift og birtist í blaðinu Birth árið 2023.


Þesi grein sem birtist í Acta Paediatrica árið var samstarfsverkefni þónokkuð margra landa og hafði að markmið að taka saman allar þær helstu rannsóknir sem hafa verið gerðar um húð-við-húð meðferð nýfæddra barna. Rannsóknin leiddi í ljós að það eru sterk rök fyrir því að öll börn eigi að fá tækifæri til að vera húð við húð hjá foreldrum sínum strax eftir fæðingu.


Þessi íslenska rannsókn sem birtist í Ljósmæðrablaðinu árið 2022 lýsti fæðingum yfir 10 ára tímabil og sérstaklega fæðingum sem voru án allra eftirmála. Fæðing án eftirmála var skilgreind sem fæðing um leggöng án áhaldafæðingar, hvorki spangarklipping né alvarleg spangarrifa, ekki mikil blæðing eftir fæðingu og lifandi fætt barn með 5 mínútna Apgar ≥ 7 sem ekki þurfti innlögn á Vökudeild.

Helstu niðurstöður voru þær að eftirmálalausum fæðingum fækkaði úr 62,7% árið 2009 í 59,0% árið 2018. Helsta breytingin sem skýrir þessa fækkun á tímabilinu var aukin blæðingartíðni. Þeir bakgrunnsþættir sem höfðu sterkustu tengslin við eftirmálalausa fæðingu voru að hafa fætt barn áður, að hafa íslenskt ríkisfang og að vera yngri en 40 ára. Rannsóknin var unnin sem meistaraverkefni í ljósmóðurfræði undir leiðsögn Emmu M Swift.


Tíðni gangsetninga hefur hækkað verulega á undanförnum árum, frá 12.5% á árunum 1997–2001 í 23.9% á árunum 2014–2018. Helstu ástæður fyrir framköllun fæðingar eru meðgöngusykursýki, háþrýstingur, meðgöngulengd, áhyggjur af heilsu móður og vegna aldurs móður. Í um 9% tilvika var engin ástæða skráð fyrir framköllun fæðingar.


Markmið rannsóknarinnar var að skoða notkun á verkjameðferð í fæðingu yfir tímabilið 2007-2018, og þá sérstaklega að skoða hvort það væri munur á notkun verkjameðferða annars vegar hjá íslenskum og hins vegar hjá konum af erlendum uppruna sem búsettar eru hér á landi. Niðurstöður sýndu að konur af erlendum uppruna voru líklegri til að nota enga verkjameðferð í fæðingu samanborið við íslenskar konur. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að konur af erlendum uppruna voru ólíklegri til að nýta sér óhefðbundnar verkjameðferðir eins og nálastungu, TENS, sturtu/bað og ilmolíur samanborið við íslenskar konur. Þetta hafði þó ekki áhrif á aukna notkun verkjameðferða með lyfjum, eins og glaðlofts og utanbastdeyfingu.


Á tímabilinu fæddu 91,0% kvenna í láréttri fæðingarstellingu. Algengasta stellingin var hálfsitjandi staða (58,7%) og næstalgengust var liggjandi á baki (12,9%). Konur sem fæddu á fæðingarstöðum flokkuðum A og B fæddu í 91,6% tilvika í láréttum stellingum og konur sem voru með utanbastsdeyfingu voru oftar í hálfsitjandi stellingu (65,8%), samanborið við þær konur sem fæddu án deyfingar (54,3%, p <0.001). Rannsóknin var unnin sem meistaraverkefni í ljósmóðurfræði undir leiðsögn Emblu Ýrar Guðmundsdóttur.


Rannsóknin sýndi að yfir rannsóknartímabilið varð aukning á fjölda bráðavitjana og vitjana brjóstagjafaráðgjafa. Niðurstöður sýna einnig að breyting varð á hlutfallslegum fjölda kvenna í hverjum heilsufarsflokki - en færri voru í heilsufarsflokki A eftir því sem leið á tímabilið. Auknar líkur voru á því að konur í heilsufarsflokkum B og C þyrftu á bráðavitjun eða vitjun brjóstagjafaráðgjafa að halda.


Rannsóknin sýndi færri valkeisara þegar samkomutakmarkanir voru sem mestar árið 2020 á Íslandi.

Það voru líka færri fyrirburafæðingar í fyrsta samkomubanninu árið 2020 og svo færri sjálfkrafa fyrirburafæðingar rétt eftir samkomubann.


Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að útkomur mæðra og barna hafa batnað á síðustu 20 árum á Íslandi. Á sama tímabili hafa gangsetningar aukist verulega á Íslandi, en betri útkomur virtust ekki skýrast af auknum fjölda gangsetninga.


Rannsóknin sýndi að það er marktækur munur á útkomum fæðingar hjá íslenskum og erlendum konum á Íslandi. Til dæmis var líklegra að inngrip á borð við spangarskurð og sogklukku/tangir væru notuð í fæðingu hjá erlendum konum. Niðurstöður þessarar fyrstu rannsóknar í doktorsnámi Emblu benda til að frekari rannsókna sé þörf á því hvort barneignarþjónusta á Íslandi sé að mæta þörfum erlendra kvenna.


Rannsóknin var sú fyrsta til að segja frá nýrri tegund meðgönguvendar - sem byggði á því að blanda saman meðgönguvernd eins og við þekkjum hana á Íslandi og hópmeðgönguvernd. Niðurstöðurnar byggja á íhlutandi rannsókn sem framkvæmd var á Íslandi á árunum 2017-2018. Niðurstöðurnar sýndu að blanda af einstaklings og hópmeðgönguvernd var áhrifarík til þess að auka fræðslu og stuðning og minnka fæðingarótta.


iPOP rannsóknarteymið samanstendur af 121 rannsakendum í 37 löndum. Í teyminu eru fæðingarlæknar, ljósmæður, nýburalæknar, faraldsfræðingar, umhverfisfræðingar, lýðheilsufræðingar og stjórnmálamenn.

Markmið rannsóknarinnar er að lýsa og greina þau áhrif sem heimsfaraldur hefur haft á útkomur mæðra og barna, og þá sér í lagi fyrirburafæðingar.


Rannsóknin var samstarfsverkefni milli ljósmæðra í Hollandi og á Íslandi og skoðaði hvernig ljósmæðranemar finna sér fyrirmyndir í starfi og nýta þessar fyrirmyndir til að þróa með sér hæfni, viðhorf og eigin ímynd sem ljósmæður.


Í þessari rannsókn voru tekin viðtöl við mæður og feður sem tóku þátt íhlutandi rannsókn um hópmeðgönguvernd. Þátttakendur voru ánægðir með upplifun sína af hópmeðgönguvernd og virtist fyrirkomulagið uppfylla vel þarfir þeirra hvað varðar fræðslu og samtal um meðgöngu, fæðingu og foreldrahlutverkið. Rannsóknin benti til þess að hópmeðgönguvernd gæti verið ákjósanlegur valkostur í meðgönguvernd hér á landi.


Rannsóknin fjallar um nýtt mælitæki til að meta fæðingarótta hjá ungu fólki áður en það á von á barni.


Rannsóknin fjallar um hvernig notkun á inngripum í fæðingar hefur þróast yfir 20 ára tímabil á Íslandi.

Niðurstöður sýndu að framköllun fæðingar og mænurótardeyfing hefur aukist verulega á tímabilinu, en tíðni keisaraskurða var nær óbreytt. Aukning í framköllun fæðingar var mest meðal kvenna sem voru greindar með meðgöngusykursýki eða háþrýsting.


Rannsóknin tók saman íhlutanir sem hafa reynst áhrifaríkar til að minnka ótta eða kvíða fyrir fæðingu. Íhlutanir á borð við fæðingarfræðslu, stuðning ljósmóður og jóga voru sérstaklea áhrifaríkar til að minnka kvíða eða ótta meðal barnshafandi kvenna.


Í þessari rannsókn voru skoðuð viðhorf næstu kynslóðar barnshafandi kvenna til barneignarferlisins. Þátttakendur voru ungar konur sem voru hvorki barnshafandi né höfðu eignast barn áður. Rannsóknin sýndi að fæðingarótti og sjálfsöryggi höfðu mikil áhrif á val kvenna um hvernig fæðingu þær myndu helst óska sér. Sem dæmi, þá voru konur með lítinn fæðingarótta mest líklegar til að vilja náttúrulega fæðingu án inngripa.


Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fræðsla í meðgönguvernd skiptir verulega miklu máli þegar konur undirbúa sig fyrir fæðingu. En rannsóknin bendir líka á ákveðna þætti sem mætti bæta til að mæta þörfum kvenna í meðgönguvernd.