Meðgönguvernd, fæðing og heimaþjónusta

Á Fæðingarheimili Reykjavíkur eru tvær bjartar og fallegar fæðingarstofur. Hvor stofa er með sér baðherbergi, fæðingarlaug, dýnum á gólfi, jógabolta, rólu og rúmi þannig að þú getir verið í fjölbreyttum stellingum og valið hvernig þér finnst best að fæða barnið þitt. Við bjóðum upp á ýmsa verkjastillingu án lyfja - svo sem heita og kalda bakstra, nudd og slökun en bjóðum einnig upp á glaðloft til verkjastillingar.

Þú getur gengið beint úr fæðingarstofunni út í stóran garð þar sem hægt er að fara í göngutúr eða anda að sér fersku lofti. Hér má sjá myndband af aðstöðunni hjá okkur!

Hvernig skrái ég mig?

Ef þið hafið áhuga á því að fæða barnið ykkar á Fæðingarheimili Reykjavíkur þá bjóðum við ykkur að koma á opnu húsin sem haldin eru reglulega. Þar fáið þið upplýsingar um þjónustuna, getið skoðað fæðingarstofurnar og aðstöðuna á fæðingarheimilinu - og einnig spjallað við ljósmæðurnar sem verða á staðnum.

Ef þið kjósið að fæða barnið ykkar á fæðingarheimilinu þá sendið þið okkur tölvupóst eftir opna húsið og staðfestið þannig plássið ykkar. Þið getið svo bókað ykkur í mæðravernd við 34 vikna meðgöngu.

Þið getið skráð ykkur á opna húsið með því að smella á skráningarhnappinn á forsíðunni.

Næstu opnu hús eru:

  • 13. maí kl. 18.45

  • 2. september kl. 18.45

Við bjóðum einnig upp á einstaklingsviðtöl í staðinn fyrir opið hús. Ef þú heldur að það henti þér betur að ræða við ljósmóður í einrúmi um val á fæðingastað, þá getur þú bókað viðtal á skráningarhnappnum á forsíðunni.

Fæðing á Fæðingarheimili Reykjavíkur hentar þér ef:

  • þú vilt fá persónulega þjónustu frá ljósmæðrum sem þekkja þig og þínar óskir

  • þú ert hraust og meðgangan hefur verið án áhættuþátta

  • fæðing hefst þegar meðgöngulengd er milli 37-42 vikur

  • þú gengur með eitt barn sem er í höfuðstöðu

Konum sem stefna að því að fæða á Fæðingarheimilinu stendur til boða að vera einnig hjá okkur í meðgönguvernd. Meðgönguverndin hefst við 34 vikna meðgöngu og tekur þá við af meðgönguvernd sem áður hefur farið fram hjá ljósmóður í heilsugæslu. 

Fyrirkomulag við fæðingar á Fæðingarheimilinu gengur þannig fyrir sig að verðandi foreldrar hafa samband við ljósmóður Fæðingarheimilis Reykjavíkur sem fyrst á meðgöngunni til að komast að í meðgönguvernd hjá Fæðingarheimilinu í lok meðgöngunnar. Sendið okkur póst hér til að bóka ykkur á opið hús og til að fá frekari upplýsingar um þjónustuna. Ljósmæðurnar munu hjálpa ykkur að meta hvort Fæðingarheimili Reykjavíkur er hentugur fæðingarstaður fyrir ykkur. Við hvetjum ykkur einnig til að ræða val á fæðingarstað við ykkar ljósmóður í mæðravernd á heilsugæslustöð.

Meðgönguvernd frá 34.viku meðgöngu

Við gefum okkur rúman tíma í meðgönguvernd. Velja má um einstaklingstíma með ljósmóður og eru þessir tímar um 45 mínútur fyrir hverja konu/par eða hópmeðgönguvernd þar sem hópur verðandi foreldra hittist í einn og hálfan tíma með tveimur ljósmæðrum. Lesa má meira um meðgönguverndina hér!

Í meðgönguvernd er rætt um líðan og heilsufar, veitt viðeigandi fræðsla og væntingar til fæðingarinnar ræddar. Í hverri skoðun er blóðþrýstingur mældur og athugað hvort prótein sé í þvagi. Hlustað er eftir fósturhjartslætti og stærð legsins mæld frá lífbeini að legbotni. Frá 36 vikna meðgöngu er lega barnsins metin. Þarfir beggja foreldra eru metnar í hverri skoðun og við leggjum mikla áherslu á fræðslu og ráðgjöf. Má þá nefna fræðslu um líðan, mataræði, hreyfingu, þá þjónustu sem stendur verðandi foreldrum til boða, val á fæðingarstað, undirbúning fyrir fæðinguna, bjargráð í fæðingu, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira. Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir eftir þörfum í samstarfi við Fósturgreiningardeild Landspítalans.  Í þeim fjórum til fimm vitjunum á meðgöngunni vinnur ljósmóðirin markvisst að því að kynnast verðandi foreldrum og komast að þörfum þeirra, til að geta veitt þeim þann stuðning sem þau þurfa og styðja við þau í fæðingunni.

Heimaþjónusta í sængurlegu

Við bjóðum einnig upp á heimaþjónustu í sængurlegu fyrstu 10 dagana eftir fæðingu. Með þessu fæst samfella í þjónustu þar sem verðandi foreldrar kynnast ljósmæðrum sínum á meðgöngu, svo í fæðingu og eftir fæðingu - mynda traust samband og ljósmæður veita einstaklingsbundna og persónulega þjónustu sem hentar hverri fjölskyldu fyrir sig. 

Við bjóðum þeim fjölskyldum sem hafa verið í meðgönguvernd eða fæðingu hjá okkur að bóka einnig tíma um 6-8 vikum eftir fæðingu til að ræða um upplifun af fæðingu, sængurlegu og brjóstagjöf. Fjölskyldur sem hafa verið hjá okkur í meðgönguvernd, fæðingu eða heimaþjónustu er boðið í foreldrahópa sem hittast reglulega með börnin sín á fæðingarheimilinu.

Við bjóðum öllum verðandi foreldrum sem hafa áhuga á því að fæða barn sitt á fæðingarheimilinu að bóka hjá okkur viðtal þar sem farið verður vandlega yfir hvort fæðingarheimilið sé góður valkostur fyrir ykkur. Við mælum einnig með að þú ræðir um val á fæðingarstað við þína ljósmóður í meðgönguvernd en ef þú ert með spurningar þá er velkomið að senda okkur póst!

“Nú er komin rúmur mánuður síðan við eignuðumst stelpuna okkar hjá ykkur og mig langaði til að senda ykkur smá kveðju og mínar innilegustu þakkir fyrir ykkar frábæra starf. Ég er svo þakklát ykkur fyrir góðan stuðning á lokametrunum á meðgöngunni, fyrir að gera mér kleift að eiga draumafæðingu og hjálpa okkur fyrstu dagana að aðlagast nýja hlutverkinu sem foreldrar. Við fengum að njóta þjónustu frá ykkur sem við erum svo þakklát fyrir”

Umsögn móður sem eignaðist fyrsta barnið sitt á Fæðingarheimili Reykjavíkur árið 2023

“Innilegar þakkir fyrir frábæra persónulega þjónustu og dásamlegt viðmót. Það var frábær upplifun að eignast strákinn okkar hjá ykkur og sérstaklega dýrmætt að fá að heimsækja fæðingarheimilið í meðgönguvernd með eldri börnunum og leyfa þeim þannig að taka þátt. Þeim fannst það æðislegt sem skapaði mjög jákvæða upplifun í tengslum við komu nýja systkinisins”

Umsögn frá móður sem eignaðist sitt þriðja barn á Fæðingarheimili Reykjavíkur vorið 2023