Meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur

Boðið er upp á meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur á vikum 34, 36, 38, 40 og 41. Meðgönguvernd hjá okkur er í boði fyrir þær fjölskyldur sem hyggjast fæða barnið sitt á fæðingarheimilinu. Lesa má meira um fæðingu á fæðingarheimilinu hér.

Flestir verðandi foreldrar byrja í meðgönguvernd á heilsugæslustöð í sínu hverfi og færa sig svo yfir á fæðingarheimilið eftir 31. viku. Meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands og kostar ykkur því ekki neitt!

Við bjóðum upp á tvo möguleika í meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur á vikum 34-40. Þið getið annað hvort valið að koma og hitta ljósmóður í einrúmi eins og hefðbundið er á heilsugæslustöðvum eða þið getið valið að taka þátt í hópmeðgönguvernd.

Þið getið bókað ykkur í meðgönguvernd hér!

Í hópmeðgönguvernd hittið þið tvær ljósmæður í hóp með öðrum verðandi foreldrum sem eiga von á barni á svipuðum tíma og þið - og ætla sér líka að fæða barnið sitt á fæðingarheimilinu. Hópurinn hittist í einn og hálfan tíma í senn og fara fram umræður, fræðsla og stuðningur. Neðar á síðunni má sjá umræðuefnin í hverjum hóp.

Hver kona/par fara út úr hópnum í smá stund til að hitta ljósmóður í einrúmi til að gera mælingar og þar gefst líka tækifæri fyrir spjall sem fólk vill frekar eiga í einrúmi með ljósmóður.

Hópmeðgönguvernd hentar bæði þeim sem eiga von á sínu fyrsta barni og þeim sem hafa átt barn áður. 

Í hvert skipti sem þið komið í meðgönguvernd getið þið valið hvort þið viljið koma í einrúmi eða í hóp. 

Athugið! Meðgönguvernd á viku 41 er alltaf í einrúmi með ljósmóður. Þá bjóðum við upp á belgjalosun, slökun, rebozo og nálastungu og þrýstipunktanudd. Við förum einnig yfir góðar stellingar og æfingar sem geta ýtt undir að fæðing fari eðilega af stað.

Umræðuefni í hópmeðgönguvernd

Fyrsti tími

  • Hreyfingar fósturs í móðurkviði

  • Óþægindi í lok meðgöngu og bjargráð

  • Hreyfing, svefn og hvíld á meðgöngu

  • Hvað gerist á fyrsta, öðru og þriðja stigi fæðingar?

  • Hvernig veit ég að fæðing er hafin?

  • Hvenær er best að hringja í ljósmóður?

  • Hvenær er best að koma á fæðingarstað?

Annar tími

  • Fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu: húð við húð, brjóstagjöf, hvíld og tengslamyndun

  • Vigtun og mælingar, K-vítamín

  • Fylgjufæðingin

  • Brjóstagjöf - hvað þarf ég að vita og hvernig get ég best undirbúið mig?

  • Heimaþjónusta ljósmæðra og þjónusta brjóstagjafaráðgjafa

  • Ungbarnavernd

  • Líðan eftir fæðingu: Sængurkvennagrátur og fæðingarþunglyndi

Þriðji tími

  • Fæðing á Fæðingarheimili Reykjavíkur - hverju er gott að pakka og hafa með í fæðingu?

  • Fæðingarplan

  • Bjargráð í fæðingu og verkjameðferðir, djúpslökun

  • Flutningur á annað þjónustustig í fæðingu

  • Gangsetning - belgjalosun, nálastunga, þrýstipunktanudd, djúpslökun, rebozo, stellingar

  • Keisaraskurður, áhaldafæðingar og önnur inngrip í fæðingu

Fjórði tími

  • Fyrstu dagarnir eftir fæðingu 

  • Hvernig getum við undirbúið okkur sem best? Heimsóknir, stuðningur, heimaþjónusta

  • Foreldrahlutverkið

  • Svefn og næring (móðir og barn)

  • Félagslegt stuðningsnet

  • Kynlíf og parasambandið 

Hópmeðgönguvernd er fyrirkomulag sem boðið er upp á í ýmsum löndum í kringum okkur og hefur verið mjög vinsæll kostur meðal verðandi foreldra. Fyrirkomulagið var prófað árið 2018 á Íslandi og hafa verið skrifaðar tvær greinar um hópmeðgönguverndina á Íslandi.

Verðandi foreldrar voru almennt mjög ánægðir með að taka þátt í hópmeðgönguvernd, höfðu fleiri tækifæri til þess að fá fræðslu og stuðning - og auk þess gefast tækifæri til að kynnast öðrum verðandi foreldrum sem eru í sömu sporum og þið.

Þið getið smellt á myndirnar hér fyrir neðan af ritrýndu greinunum sem hafa verið birtar um hópmeðgönguvernd á Íslandi - og hafa sýnt verulega góða reynslu af fyrirkomulaginu hér á landi.

Hvað er annars gert í meðgönguvernd?

Í meðgönguvernd er rætt um líðan og heilsufar, veitt viðeigandi fræðsla og væntingar til fæðingarinnar ræddar. Í hverri skoðun er blóðþrýstingur mældur og athugað hvort prótein sé í þvagi. Hlustað er eftir fósturhjartslætti og stærð legsins mæld frá lífbeini að legbotni. Frá 36 vikna meðgöngu er lega barnsins metin. Þarfir beggja foreldra eru metnar í hverri skoðun og við leggjum mikla áherslu á fræðslu og ráðgjöf. Má þá nefna fræðslu um líðan, mataræði, hreyfingu, þá þjónustu sem stendur verðandi foreldrum til boða, val á fæðingarstað, undirbúning fyrir fæðinguna, bjargráð í fæðingu, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira. Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir eftir þörfum í samstarfi við Fósturgreiningardeild Landspítalans.  Í þeim fjórum til fimm vitjunum á meðgöngunni vinnur ljósmóðirin markvisst að því að kynnast verðandi foreldrum og komast að þörfum þeirra, til að geta veitt þeim þann stuðning sem þau þurfa og styðja við þau í fæðingunni.