Fæðingarheimili Reykjavíkur 1 árs

Fyrsta barnið fæddist 30. september 2022 og næsta sólarhringinn fæddust tvö börn til viðbótar. Þessi börn fagna nú sínum fyrsta afmælisdegi og óskum við þeim og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Fyrsta árið fæddust 61 barn á Fæðingarheimili Reykjavíkur

Frá þessum fjöruga sólarhring hafa svo 58 börn bæst í hópinn og eru börnin því orðin 61. Kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en fjöldi stúlkubarna eru 33 og drengirnir 28. Flestar mæðurnar voru íslenskar að uppruna en þó voru 18% þeirra sem fæddu hjá okkur með erlendan bakgrunn sem endurspeglar samfélagið okkar á Íslandi vel.

Margar af þeim fjölskyldum sem hafa leitað til okkar eiga von á sínu fyrsta barni og er helmingur þeirra barna sem fæddust á þessu fyrsta ári fyrsta barn foreldra sinna. Þau fæddust líka oftar í vatni en á landi (>60%) og í nærri öllum tilfellum var móðirin í uppréttri stöðu. Um 9 af hverjum 10 konum nýtti sér vatnið eitthvað til verkjastillingar og um helmingur kvenna nýtti sér nudd, ilmolíur, nálastungu og tónlist. Allar fengu þær samfellda þjónustu á meðgöngu og í fæðingu.

Í tilefni þess að ár er liðið frá opnun Fæðingarheimilisins fengum við ljósmyndara í heimsókn sem tók þessar dásamlegu myndir af fjölskyldunum sem hafa verið með okkur.