LJÓSMÓÐIR

Edythe L. Mangindin, RN, RM, MSc, IBCLC

Edythe L. Mangindin hefur reynslu af ljósmóðurstörfum á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans og sinnir nú doktorsnámi samhliða þeim störfum. Hún starfar einnig sem stundakennari við Háskóla Íslands, situr í stjórn félags brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi og hefur auk þess setið í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N.) og í stjórn Ljósmæðrafélagsins.

Edythe hefur lagt sérstaka áherslu á umönnun kvenna af erlendum uppruna og hefur sér í lagi áhuga á sjálfræði kvenna við ákvarðanatöku, upplýst val kvenna og menningarnæma umönnun. Þessi áhugi Edythe endurspeglast í allri umönnun hennar við fjölskyldur í barneignarferlinu. 

Edythe sinnir ljósmóðurstörfum á Fæðingarheimili Reykjavíkur og er einnig brjóstagjafaráðgjafi og sinnir sérhæfðri brjóstagjafaráðgjöf fyrir skjólstæðinga Fæðingarheimilis Reykjavíkur.

„Árið 2009 flutti ég til Íslands frá Bandaríkjunum. Ég ákvað að yfirgefa starfið mitt, íbúðina, vinkonur og fjölskyldu fyrir ást og ævintýri. Stuttu eftir flutninginn varð ég ólétt af fyrsta barninu mínu í þessu nýja landi. Þetta var ofsalega fallegt tímabil ævi minnar en samt rosalega krefjandi. Ég þekkti engan nema manninn minn og fjölskyldu hans. Ég kunni ekki íslensku. Ég var langt í burtu frá fjölskyldu minni. Ég var útlendingur. Ég var eins og fiskur á þurru landi.

Hins vegar var ég í landi þar sem meðganga er talin náttúrulegt og eðlilegt ferli. Konur eru hvattar til að eiga börn án inngripa, ef mögulegt er. Ég fór reglulega til ljósmóður sem var mjög fagleg, hlý og hvetjandi. Ég var mjög dugleg að fara í meðgöngujóga til að undirbúa mig líkamlega og andlega fyrir fæðinguna. Einnig las ég allar bækurnar eftir Ina May Gaskin ljósmóður. Við hjónin fórum á foreldranámskeið sem var haldið á ensku. Ég var tilbúin fyrir fæðinguna. Ég man eftir öllu sem gerðist. Mér leið vel allan tímann í fæðingu og sú reynsla að fæða barn á þennan hátt, meðvituð, yfirveguð og laus við hræðslu gaf mér svo ótrúlega mikið. Mér fannst ég hafa öðlast trú á sjálfa mig aftur og sjálfsálit mitt gjörbreyttist til hins betra og ég fann mig knúna til að deila reynslu minni og löngun til að hjálpa öðrum konum að upplifa hið sama. Sérstaklega konum af erlendum uppruna. Þessi lífsreynsla vakti áhugann minn á ljósmóðurfræði. Ég fékk andagift.“

— Edythe L. Mangindin