LJÓSMÓÐIR

Embla Ýr Guðmundsdóttir, RN, RM, PhD

Embla Ýr Guðmundsdóttir hefur rúmlega 15 ára reynslu af ljósmæðrastörfum, þar af um 11 ára reynslu af fæðingarhjálp á stærsta fæðingarstað landsins, Landspítala og er sérfræðingur í fæðingarhjálp.  Í starfi sínu á fæðingarvakt Landspítalans hefur hún komið að ýmsum sérverkefnum, haft umsjón með verknámi ljósmæðra- og læknanema, auk þess að stýra og innleiða nýjungar í meðferð fjölskyldna á deildinni með því markmiði að auka færni ljósmæðra í samskiptum við fjölskyldur. 

Embla er lektor við námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands og hefur þar umsjón með kennslu og leiðbeiningu ljósmæðranema. Rannsóknir hennar snúa að barneignarþjónustu við erlendar konur á Íslandi, undirbúningi fyrir fæðingu og ljósmóðurnám. Hún lauk doktorsnámi í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands árið 2023.

Embla hefur víðtæka reynslu af ljósmæðrastörfum. Samhliða starfi sínu sem ljósmóðir á fæðingarvakt Landspítala hefur Embla unnið í hlutastarfi í meðgönguvernd á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins, auk þess að vinna við heimaþjónustu. Hún hefur lokið námskeiði í nálastungum, er með kennsluréttindi í Hypnobirthing og hefur lokið diplómanámi í kennslufræði á háskólastigi hjá Háskóla Íslands. Hún hefur kennt fæðingarundirbúningsnámskeið á íslensku og ensku á vegum Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í fjölda ára. 

Embla sinnir ljósmóðurstörfum á Fæðingarheimili Reykjavíkur en er einnig stjórnarformaður Fæðingarheimilisins.

 „Ég veit ekki alveg hvernig eða hvenær ég ákvað að verða ljósmóðir ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég fór reglulega á bókasafn með móður minni og systur og alltaf gat ég fundið nýja bók um barneignarferlið, hvernig börnin verða til, fólkið í blokkinni og ég veit ekki hvað og hvað. Svo fórum við reglulega í sund og þá gat ég ekki hætt að dást að fallegu óléttu konunum í sturtu. Mér fannst bara allt við barneignarferlið hafa mikið aðdráttarafl og ég ætlaði einhvern veginn alltaf að verða ljósmóðir og svo varð úr að ég fór í hjúkrunarfræði til þess að geta farið í ljósmóðurnám og orðið ljósmóðir. Á námsárum mínum samhliða hjúkrunarnáminu vann ég sem aðstoðarkona á fæðingarvakt Landspítalans og ég gleymi ekki þegar ég aðstoðaði fyrst ljósmóður í fæðingu. Ég bókstaflega sveif heim til mín og gat ekki beðið eftir því að fara aftur í vinnuna.

Í dag er ég einfaldlega mjög þakklát. Ég trúi því varla að vinnan mín snúist um að styðja við konur til að þær geti upplifað stærstu stundir lífs síns, verið svo undursamlega næmar og fallegar við sig og barnið sitt og á sama tíma svo sterkar og stórar. “

— Embla Ýr Guðmundsdóttir