IMG_2030.jpg

Fæðingarheimili Reykjavíkur

- þá og nú

Persónuleg þjónusta við barnshafandi konur er ekki ný af nálinni. Hún hefur þó breyst í gegnum aldirnar og tekið margskonar mynd. Um miðja síðustu öld var framúrstefnulegt og vinsælt fæðingarheimili rekið á Eiríksgötu í Reykjavík. Til að heiðra minningu þess og þeirra ljósmæðra og frumkvöðla sem þar störfuðu ákváðum við að nefna okkar fæðingarheimili sama nafni.

Fæðingarheimili Reykjavíkur var starfrækt í borginni á árunum 1960 til 1992. Reykjavíkurborg kom að rekstrinum auk fjármuna frá ríkinu. Gamla fæðingarheimilið tók til starfa 18.ágúst 1960 og fæddust fyrstu börnin þar degi síðar eða 19.ágúst. Þegar mest lét fæddust að meðaltali um 1.100- 1.300 börn árlega á heimilinu. Gamla Fæðingarheimilið kynnti nýjar hugmyndir með áherslu á að fæðing væri náttúrulegur atburður sem ætti að eiga sér stað við sem þægilegastar og heimilislegar aðstæður. Á Fæðingarheimilinu fengu feður að vera viðstaddir fæðingar barna sinna sem þá þótti mikið nýmæli, systkini nýburanna voru velkomin í heimsókn á gamla Fæðingarheimilið og boðið var upp á námskeið fyrir verðandi mæður og þeim m.a. kennd öndun og slökun. Konum var einnig boðið að fá börn sín í fangið um leið og þau fæddust, en áður tíðkaðist að þau væru þvegin og klædd áður en þau voru lögð í fang móður sinna. Þessari kjarkmiklu og kærleiksríku sýn hyggjast ljósmæður nýja Fæðingarheimilis Reykjavíkur halda áfram á lofti. 

Um miðjan áttunda áratuginn hafði borgin hug á að draga sig úr rekstri gamla fæðingarheimilisins og árið 1980 stóð til að hún seldi ríkinu heimilið. Ekkert varð af sölunni og starfsemi heimilisins dróst saman og að lokum var Fæðingarheimilið lagt niður árið 1995. Á starfstíma þess fæddust þar um 22 þúsund börn. Starfsemi gamla Fæðingarheimilis Reykjavíkur hélt áfram með öðru sniði á Landspítalanum, MFS og síðar sem Hreiðrið, en hefur nú verið lagt niður. 

Mikil ánægja var meðal kvenna og fjölskyldna þeirra með Fæðingarheimili Reykjavíkur og enn þann dag í dag tala konur hlýlega til starfseminnar og þeirrar alúðar sem gætti þar í öllu starfi. Við hyggjumst taka við keflinu og gera Fæðingarheimili Reykjavíkur aftur að þeim mikilvæga stað sem það átti í huga og hjörtum barnshafandi kvenna og nýrra foreldra.

Þess má geta að Elínborg Jónsdóttir, fyrrverandi yfirljósmóðir gamla Fæðingarheimilis Reykjavíkur verður einn helsti ráðgjafi stofnenda nýstofnaðs heimilis. Henni fylgir gífurleg reynsla og þekking á rekstri og skipulagi í þjónustu Fæðingarheimilisins.