Fyrir hverja er Fæðingarheimili Reykjavíkur?
Fæðing á Fæðingarheimili Reykjavíkur hentar þér ef:
þú ert hraust og meðgangan hefur verið án áhættuþátta
fæðing hefst þegar meðgöngulengd er milli 37-42 vikur
þú gengur með eitt barn sem er í höfuðstöðu
þú vilt fá persónulega þjónustu frá ljósmæðrum sem þekkja þig og þínar óskir
Við bjóðum konum sem vilja fæða barn sitt á Fæðingarheimilinu að þiggja meðgönguvernd hjá ljósmæðrum Fæðingarheimilisins frá 34. viku. Einnig bjóðum við upp á heimaþjónustu í sængurlegu fyrstu 10 dagana eftir fæðingu. Með þessu fæst samfella í þjónustu þar sem verðandi foreldrar kynnast ljósmæðrum sínum, mynda traust samband og ljósmæður veita einstaklingsbundna og persónulega þjónustu sem hentar hverri fjölskyldu fyrir sig.
Við bjóðum öllum verðandi foreldrum sem hafa áhuga á því að fæða barn sitt á Fæðingarheimilinu að bóka hjá okkur viðtal þar sem farið verður vandlega yfir hvort Fæðingarheimilið sé góður valkostur fyrir ykkur. Endilega sendið okkur línu hér ef þið viljið fá frekari upplýsingar.
Alhliða þjónusta fyrir konur - einn staður fyrir allar þínar þarfir
Við bjóðum allar konur og stuðningsaðila þeirra velkomna í eftirfarandi þjónustu sem ljósmæður Fæðingarheimilisins veita:
ráðgjöf fyrir meðgöngu til að stuðla að heilbrigðu barneignarferli
námskeið og ráðgjöf um fæðingu, brjóstagjöf og foreldrahlutverkið
heimaþjónustu í sængurlegu í 10 daga eftir fæðingu
brjóstagjafaráðgjöf á fyrstu 14 dögum eftir fæðingu
getnaðarvarnarráðgjöf og ávísun/uppsetning getnaðarvarna
ráðgjöf um breytingaskeiðið
ýmiskonar stuðningur sem stuðlar að heilbrigðu líferni svo sem sjúkraþjálfun og jóga
fræðslukvöld og foreldramorgnar
Um 15% fæðandi kvenna á Íslandi eru af erlendu bergi brotnar og sinnir Fæðingarheimili Reykjavíkur sérstaklega þörfum þessa hóps. Öll þjónusta er því í boði á íslensku og ensku, og pólsku eftir kostum. Að auki er boðið upp á sérstök fræðslunámskeið fyrir erlendar konur um heilbrigðiskerfið á Íslandi og möguleika til að mynda samfélag við aðrar konur í sömu stöðu.