LJÓSMÓÐIR

Hafdís Hanna Birgisdóttir, RN, RM 

Hafdís Hanna útskrifaðist sem ljósmóðir árið 2005 og hefur lengst af starfað við fæðingarhjálp á fæðingarvakt Landspítalans en einnig bjó hún og starfaði í Svíþjóð í 12 ár og vann á fæðingardeildum í Halmstad, Malmö og Helsingborg.

Síðastliðin fjögur ár hefur hún starfað á Göngudeild mæðraverndar og sinnt þar konum í áhættumeðgöngu. Hafdís hefur undanfarin ár einnig sinnt samtalsmeðferðum fyrir konur með erfiða fæðingarreynslu í Ljáðu mér eyra.

Hafdís hefur sótt ýmis námskeið tengt meðgöngu og fæðingu m.a. nálastungunámskeið og leiðbeinandanámskeiði í aðferðinni Birth without fear og hefur leiðbeint foreldrum með hjálp þeirrar aðferðar að takast á við fæðingarferlið í öryggi og trausti. Henni er umhugað að styðja og valdefla verðandi foreldra á meðgöngu til að konan og stuðningsaðili hennar eigi góða fæðingarupplifun sem styrki þau síðan í foreldrahlutverkinu.

“Ég eignaðist tvö börn áður en ég varð ljósmóðir og sú reynsla hafði mikil áhrif á mig á ýmsan hátt m.a fékk ég brennandi áhuga á fæðingarferlinu og vissi að ég vildi ekki vinna við neitt annað og fór ég því í ljómsmæðranámið strax eftir fæðingarorlofið mitt. Ég var svo heppin að vera í samfelldri þjónustu ljósmæðra á þeim tíma í MFS kerfinu og eiga börnin mín í Hreiðrinu þar sem áhersla var lögð á lífeðlisfræðilega fæðingu í notalegu umhverfi með ljósmæðrum sem þekktu mig og studdu svo fallega og sem trúðu á mig og mína innri getu til að fæða börnin mín. Þessi reynsla var mjög valdeflandi fyrir mig og mér er mjög umhugað að gera mitt besta við að styðja fjölskyldur til að þau fái góða fæðingarupplifun hvernig svo sem fæðingunni vindur fram því fæðingar eru alls konar og jafn ólíkar börnunum sem fæðast.

Góð fæðingarupplifun snýst um að hafa vissa stjórn, að óskir séu virtar og upplifa öryggi og traust í ferlinu.  Í þessi tæpu 20 ár sem ég hef verið ljósmóðir styrkist ég sífellt í vissu minni hversu ótrúlegan kraft og styrk við konur búum yfir þegar kemur að fæðingum barna okkar, sérstaklega þegar við treystum líkamanum og ferlinu öllu. Fæðingarferlinu ber að sýna mikla virðingu því það er ótrúlega kraftmikið líkamlegt og andlegt ferðalag sem hefur áhrif á okkur til framtíðar. “

-Hafdís Hanna