Heimaþjónusta í sængurlegu

Ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur sinna heimaþjónustu fyrir fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu fyrstu 10 dagana eftir fæðingu.

Þjónustan er í boði fyrir allar fjölskyldur - hvar sem þær fæða barn sitt og er fjölskyldum að kostnaðarlausu.

Fjölskyldur sem þiggja heimaþjónustu frá okkur hafa forgang í brjóstaráðgjöf hjá okkur, ef þörf er á.

Ef þú fæðir barn þitt annars staðar en á Fæðingarheimili Reykjavíkur þá getur þú beðið ljósmóður á þínum fæðingarstað um að hringja í okkur og bóka heimaþjónustu. Þú getur einnig haft samband á meðgöngu og sett nafnið þitt á listann. Við hlökkum til að heyra frá þér!

Við mælum með námskeiðinu okkar um fyrstu dagana eftir fæðingu. Þar getur þú undirbúið þig fyrir þennan tíma á jákvæðan en raunhæfan hátt.

Hér má lesa um hvað felst í heimaþjónustu eftir fæðingu!

Fyrstu dagana eftir fæðingu kemur ljósmóðir á heimili ykkar til að veita ykkur fræðslu og stuðning, aðstoða með brjóstagjöf og fylgjast með líðan móður og barns. Fræðslan er heilsueflandi, hvetur til sjálfsöryggis í foreldrahlutverki og eykur innsæi foreldra á einkennum hugsanlegra frávika og/eða vandamála. Heimavitjanir ljósmóður eru alltaf einstaklingsmiðaðar og því mismargar og fara eftir þörfum móður og barns hverju sinni. 

Ljósmóðir í heimaþjónustu ber virðingu fyrir viðhorfum kvenna og fjölskyldna þeirra, óskum, trú og gildismati. Ávallt er tekið mið af mismunandi menningar bakgrunni og sérstökum aðstæðum móðurinnar og fjölskyldunnar hverju sinni, svo sem þörf fyrir túlkaþjónustu eða öðrum sérhæfðum stuðningi. 

Ljósmóðir í heimaþjónustu gefur ykkur góð ráð varðandi umönnun barnsins og upplýsingar um hvert þið getið leitað ef þörf er á frekari meðferð eða eftirfylgni. Hún styður ykkur einnig í aðlögun ykkar að foreldrahlutverkinu.

Heimaþjónusta ljósmæðra eftir fæðingu er foreldrum að kostnaðarlausu og fá ljósmæður alfarið greitt frá Sjúkratryggingum Íslands. Ljósmæður Fæðingarheimilisins fara eftir faglegum leiðbeiningum fyrir heimaþjónustu ljósmæðra frá árinu 2014 gefnum út af Embætti landlæknis.