Hvernig varð það til - og af hverju?

Fæðingarheimili sem er nútímalegt og mætir öllum þörfum fæðandi kvenna

Í nokkurn tíma létum við okkur dreyma um fæðingarheimili þar sem konur og fjölskyldur þeirra fá persónulega, samfellda þjónustu frá ljósmóður sem styrkir þær og eflir. Fæðingarheimili sem er nútímalegt og mætir öllum þörfum fæðandi kvenna varðandi öryggi en leggur að auki áherslu á góð og styrkjandi samskipti í barneignarferlinu til að styðja við þá sýn okkar og markmið að þetta tímabil eigi að vera stórkostlega gefandi og magnað. Tímabilið þar sem fjölskyldan upplifir þann stuðning sem hún þarf á að halda, hjarta hennar stækkar og hún getur allt. En okkar draumur var einnig að konur myndu upplifa þessa samfelldu þjónustu og stuðning fyrir og eftir þungun. Að þær fái tækifæri til að fá umönnun og fræðslu frá ljósmóður fyrir þungun, þegar þær þurfa á ráðgjöf um getnaðarvarnir að halda eða jafnvel við tíðahvörf. Það gleður okkur óendanlega að nú er draumurinn um Fæðingarheimili Reykjavíkur að verða að veruleika.

Þegar við kynntumst Edythe og Stefaníu þá áttuðum við okkur fljótt á því að þær deildu hugsjón okkar og hugmyndum um hvernig við viljum sinna konum og fjölskyldum þeirra - og úr varð teymi fjögurra ljósmæðra! Síðustu mánuði höfum við unnið að því að móta hugmyndafræði okkar og sýn, finna frábæra samstarfsaðila og fjármagna fæðingarheimilið. Við erum sammála um að markmið okkar sé að Fæðingarheimilið verði einstakt samfélag fyrir konur og fjölskyldur þeirra þar sem við veitum fyrsta flokks þjónustu, góða fræðslu og stuðning sem er sniðin að þörfum hverrar og einnar konu. 

Það skipti okkur miklu máli að finna fæðingarheimilinu góðan stað og við erum himinlifandi yfir því að hefja framkvæmdir á Hlíðarenda á næstu vikum. Fæðingarheimilið verður hlýlegt og lifandi. Andrúmsloftið kærleiksríkt sem hvetur til samveru verðandi og nýrra foreldra. 

Við hlökkum til að taka á móti ykkur á fæðingarheimilinu okkar,

Embla og Emma