Skráning.

 

Fæðingarheimili Reykjavíkur notar rafrænt sjúkraskrárkerfi sem kallast Saga við skráningu á heilbrigðisupplýsingum. Saga er eitt útbreiddasta sjúkraskrárkerfið á landinu og er notað á öllum helstu heilbrigðisstofnunum og heilsugæslum landsins, fjölda einkarekinna stöðva og á hjúkrunarheimilum. Saga er framleitt og viðhaldið af TM Software í nánu samstarfi við embætti landlæknis. 

Rafræn sjúkraskrá gegnir því lykilhlutverki í daglegu starfi heilbrigðisstarfsmanna. Samkvæmt lögum (nr. 55/2009) ber heilbrigðisstarfsmanni sem fær sjúkling til meðferðar skylda til að færa sjúkraskrá og skulu þær vera á rafrænu formi að því marki sem unnt er hverju sinni. Fæðingarheimilið sér mikinn hag í því að styðjast við Sögu í allri skráningu á þeim sem nýta sér okkar þjónustu og samræmist það skráningarkerfi okkar hugmyndafræði um samfellu í þjónustu. Þannig verða sjúkraskrárupplýsingar tiltækar á réttum stað, á réttum tíma. 

Samkvæmt Embætti landlæknis stuðlar áreiðanleg skráning og aðgengilegar upplýsingar að öruggari meðferð og betri gæðum heilbrigðisþjónustu. Sjúkraskráin getur því verið samtengd ólíkum heilbrigðisstofnunum og eru þannig mikilvægar upplýsingar um einstaklinginn samnýttar á milli stofnana. Þannig er stuðlað að aukinni samfellu í meðferð og eftirfylgni kvenna á hinum ýmsu þjónustu stigum innan heilbrigðiskerfisins. Strangar kröfur eru gerðar varðandi upplýsingaöryggi og aðgangsstýringar að rafrænni sjúkraskrá.