Fæðingarheimili Reykjavíkur er fyrsta flokks fæðingarheimili

Bjart, lifandi og hlýtt heimili miðsvæðis í Reykjavík, með umhyggjusaman, fræðandi og persónulegan karakter. Einfalt og stílhreint umhverfi, heimilislegt andrúmsloft og fagmennska skapa stað sem veitir fjölskyldum öryggi, vellíðan og innblástur fyrir bjarta framtíð. Þar geta konur nálgast fjölbreyttari þjónustu en nú er í boði, því til viðbótar við barneignarþjónustu veita ljósmæður Fæðingarheimilisins ráðgjöf fyrir þungun og ráðgjöf um getnaðarvarnir.

Fæðingarheimilið býður upp á samfellda þjónustu á meðgöngu, í fæðingu á Fæðingarheimilinu og heimaþjónustu í sængurlegu. Þekkt er að samfelld þjónusta auki gæði þjónustunnar, öryggi og vellíðan nýrra fjölskyldna og starfsánægju ljósmæðra. Þrátt fyrir þetta eiga konur á barneignaraldri ekki marga möguleika á slíkri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Fæðingarheimili Reykjavíkur eykur möguleika kvenna á samfelldri þjónustu sem er einstaklingsbundin, fagleg og heildræn.

Mikil nýbreytni er einnig að sömu ljósmæður munu veita ráðgjöf fyrir þungun, ráðgjöf um getnaðarvarnir og ráðgjöf um breytingaskeið kvenna. Konur geta þannig leitað til ljósmóður sem þær þekkja fyrir flestar spurningar og þarfir sínar fyrir þungun, á meðan þær eru barnshafandi og svo áfram eftir að barnið er fætt.

Fæðingarheimili Reykjavíkur er heilsueflandi vinnustaður og vinnum við eftir markmiðum embættis landlæknis til þess að efla heilsu og líðan starfsfólksins. Við vinnum markvisst að því að bæta vinnuskipulag og vinnuumhverfi og hvetja til virkar þátttöku. Með þessu viljum við hlúa að heilsu starfsfólksins okkar og hafa jákvæð áhrif á þau sem hjá okkur starfa, á fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild.