Barneignarþjónusta.

 

Meðgönguvernd.

Konum sem stefna að því að fæða á Fæðingarheimilinu stendur til boða að vera einnig hjá okkur í meðgönguvernd. Meðgönguverndin hefst við 34 vikna meðgöngu og tekur þá við af meðgönguvernd sem áður hefur farið fram hjá ljósmóður í heilsugæslu. 

Við gefum okkur rúman tíma í meðgönguvernd og bókum alltaf um 40-60 mínútur fyrir hverja konu/par. Í meðgönguvernd er rætt um líðan og heilsufar, væntingar til fæðingarinnar og fleira. Í hverri skoðun er blóðþrýstingur mældur og athugað hvort prótein sé í þvagi. Hlustað er eftir fósturhjartslætti og stærð legsins mæld frá lífbeini að legbotni. Við 36 vikna meðgöngu er lega barnsins metin. 

Þarfir beggja foreldra eru metnar í hverri skoðun og við leggjum mikla áherslu á fræðslu og ráðgjöf. Má þá nefna fræðslu um líðan, mataræði, hreyfingu, þá þjónustu sem stendur verðandi foreldrum til boða, val á fæðingarstað, undirbúning fyrir fæðinguna, bjargráð í fæðingu, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira. Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir eftir þörfum í samstarfi við Fósturgreiningardeild Landspítalans. 

Við ráðleggjum þér að hafa samband hér sem fyrst eftir að þú tekur þá ákvörðun um að stefna að fæðingu á Fæðingarheimili Reykjavíkur eða ef þú ert að velta fyrir þér þeim möguleika. 

Nánari upplýsingar um tímabókun koma á næstunni.

Fæðingarþjónusta.

Þær konur sem nýta sér fæðingarþjónustu Fæðingarheimilis Reykjavíkur er hópur sem samanstendur fyrst og fremst af hraustum konum í eðlilegu barneignarferli, án áhættuþátta. Þetta er meirihluti barnshafandi kvenna. 

Stuðst verður við leiðbeiningar Embættis landlæknis frá árinu 2007 um val á fæðingarstað, þar sem vel er skilgreint hvernig leiðbeina skuli konum um val á fæðingarstað og allar ábendingar og frábendingar eru tíundaðar. 

Fyrirkomulag við fæðingar á Fæðingarheimilinu gengur þannig fyrir sig að verðandi foreldrar hafa samband við ljósmóður Fæðingarheimilis Reykjavíkur sem fyrst á meðgöngunni til að komast að í meðgönguvernd hjá Fæðingarheimilinu í lok meðgöngunnar. Í þeim fjórum til fimm vitjunum á meðgöngunni vinnur ljósmóðirin markvisst að því að kynnast verðandi foreldrum og komast að þörfum þeirra, til að geta veitt þeim þann stuðning sem þau þurfa og styðja við þau í fæðingunni. Í fæðingunni sjálfri eru tvær ljósmæður viðstaddar og um fjórum til átta tímum eftir fæðingu á Fæðingarheimilinu fer fjölskyldan heim. Ljósmóðir kemur svo heim í vitjun til þeirra í heimaþjónustu samdægurs en með þeim hætti næst samfella í ljósmæðraþjónustunni á öllu barneignarferlinu sem styður við góða og faglega umönnun fjölskyldunnar. 

Ef upp koma frávik í fæðingunni, eins og ef fæðing dregst á langinn eða þörf er á frekari verkjameðferð, flyst konan í samráði við ljósmæðurnar, á fæðingardeild með hærra þjónustustig á borð við Fæðingarvakt Landspítalans eða Kvennadeild Akraness. Rannsóknir hafa sýnt að yfirleitt er farið á annan fæðingarstað í rólegheitum og flestir fara í eigin bíl. Eftir fæðingu sinna ljósmæður Fæðingarheimilisins ykkur áfram í heimaþjónustu. Þannig stuðlum við að samfelldri þjónustu. 

Fæðingarþjónusta Fæðingarheimilisins er gjaldfrjáls og fá ljósmæður greitt frá Sjúkratryggingum Íslands. Sjá upplýsingar um verð á þjónustu hér.

Hér getur þú bókað tíma í viðtal á meðgöngu eða sent okkur tölvupóst til að ræða hvort fæðing á Fæðingarheimilinu henti þér. 

Heimaþjónusta.

Heimaþjónusta eftir fæðingu er í boði fyrir allar konur fyrstu 10 dagana eftir fæðingu, hvort sem þær fæða á Fæðingarheimilinu eða annars staðar. Hafið samband hér til að fá frekari upplýsingar um þjónustuna. 

Fyrstu dagana eftir fæðingu kemur ljósmóðir á heimili ykkar til að veita ykkur fræðslu og stuðning, aðstoða með brjóstagjöf og fylgjast með líðan móður og barns. Fræðslan er heilsueflandi, hvetur til sjálfsöryggis í foreldrahlutverki og eykur innsæi foreldra á einkennum hugsanlegra frávika og/eða vandamála. Heimavitjanir ljósmóður eru alltaf einstaklingsmiðaðar og því mismargar og fara eftir þörfum móður og barns hverju sinni. 

Ljósmóðir í heimaþjónustu ber virðingu fyrir viðhorfum kvenna og fjölskyldna þeirra, óskum, trú og gildismati. Ávallt er tekið mið af mismunandi menningar bakgrunni og sérstökum aðstæðum móðurinnar og fjölskyldunnar hverju sinni, svo sem þörf fyrir túlkaþjónustu eða öðrum sérhæfðum stuðningi. 

Ljósmóðir í heimaþjónustu gefur ykkur góð ráð varðandi umönnun barnsins og upplýsingar um hvert þið getið leitað ef þörf er á frekari meðferð eða eftirfylgni. Hún styður ykkur einnig í aðlögun ykkar að foreldrahlutverkinu.

Heimaþjónusta ljósmæðra eftir fæðingu er foreldrum að kostnaðarlausu og fá ljósmæður alfarið greitt frá Sjúkratryggingum Íslands. Ljósmæður Fæðingarheimilisins fara eftir faglegum leiðbeiningum fyrir heimaþjónustu ljósmæðra frá árinu 2014 gefnum út af Embætti landlæknis.

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item14900/Heimathjonusta-ljosmaedra


 

Við veitum fyrsta flokks þjónustu fyrir þig og fjölskyldu þína