Grindarverkir á meðgöngu

Mjaðmagrindin þín gengur í gegnum ótrúlegar breytingar á meðgöngu. Hún getur verið  hreyfanleg og gefið eftir til þess að auðvelda barninu að koma í heiminn og í þinn hlýja faðm. Stundum geta þó þessar stórkostlegu líkamlegu breytingar orðið til vandræða og er þá almennt talað um grindarverki. Grindarverkir geta komið fram á hvaða þriðjungi sem er en algengast er að þeir komi fyrst fram á 16.-24. viku meðgöngu. Slæmir verkir í mjaðmagrindinni hafa neikvæð áhrif á barnshafandi konur og skerða lífsgæði þeirra en grindarverkir eru oft vangreint vandamál, og jafnvel misgreint sem mjóbaksverkir. Mjóbaksverkir eru afar algengt vandamál vegna þeirra breytinga sem verða á líkama konunnar á meðgöngu en grindarverkir hafa aðra líffræðilega skilgreiningu og er almennt talið alvarlegra ástand og því fylgi verri sársauki. Oft eru grindarverkir ranglega kallaðir grindargliðnun. 

Orsök grindarverkja

Í mjaðmagrindinni eru aðeins þrír liðir: tveir spjaldliðir sitthvoru megin við spjaldhrygginn og einn liður í lífbeini. Grindarverkir geta átt upptök sín í einum, tveimur eða öllum þessum þremur liðum. Grindarverkir eru í raun eðlilegur fylgikvilli meðgöngu en eru mismiklir milli barnshafandi kvenna og geta þannig valdið mis miklum sársauka og skerðingu á lífsgæðum. Grípa þarf inn í með viðeigandi meðferðum fari grindarverkir að hafa áhrif á daglegt líf konunnar. 

Ekki er vitað með vissu hvað nákvæmlega veldur grindarverkjum en talið er að líklega sé um að ræða samspil hækkunar á hormóninu relaxín og lífaflfræðilegra þátta þegar breytingar verða á þyngdarpunkti á meðgöngu. Á heilbrigðri meðgöngu verður aukning á hormóninu relaxín sem hefur áhrif á mjúkvefi líkamans. Liðir og liðbönd teygjast og mýkjast en það veldur aukinni hreyfingu í grindinni og grindarmálin stækka. Allt þetta gerir barninu mögulegt að færast niður fæðingarveginn og í fangið til þín.  

Þegar þyngdarpunktur í líkama konunnar breytist á meðgöngu og færist framar vegna stækkandi legs og barns, þá verður aukinn og ósamhverfur þrýstingur á bandvefi og liðbönd í liðum grindarinnar. Þetta getur orsakað ójafnvægi og spennu í vöðvum í mjaðmagrindinni sem veldur sárum verkjum og jafnvel tognun.

Einkenni grindarverkja

Mjaðmagrindarverkir eru ólíkir og missárir eftir konum og fara eftir eðli orsaka og alvarleika. Þeir geta m.a. komið fram vegna ójafnvægis í grind, tognunar á liðböndum eða vöðvum í grindinni, misgengis á mjaðmagrindarbeinum, vöðvaspennu og bólgu í vöðvum. Verkirnir geta birst sitt hvorum megin eða beggjavegna við spjaldhrygginn og/eða yfir lífbeininu. Þeir geta leitt upp í lendarhryggsvæðið, út í mjaðmirnar, niður í nára og innanverð eða aftanverð lærin. Verkirnir aukast við ósamhverfar hreyfingar, koma í hviðum og geta verið breytilegir milli daga og jafnvel yfir sólarhringinn. Þessir verkir hafa neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu barnshafandi kvenna og leiða til mismikillar hreyfiskerðingar. Ákveðnar hreyfingar og líkamsstellingar sem valda ósamhverfu álagi á mjaðmagrindina, eins og að ganga upp og niður stiga eða við snúning á líkamanum þegar farið er inn og út úr bíl, valda auknum sársauka. Að dvelja lengi í sömu líkamsstöðunni, hvort sem það er að liggja, standa eða sitja, getur einnig valdið auknum sársauka. Það hefur m.a. áhrif á nætursvefn þegar konan þarf stöðugt að vakna til að snúa sér í rúminu. Algengt er að barnshafandi konur eigi erfitt með gang og talað er um að þær kjagi. Í sumum tilfellum, eða allt að 15% þurfa þær að nota hækjur og í allra alvarlegustu tilfellunum enda þær í hjólastól. Grindarverkir eru helsta ástæða þess að barnshafandi konur hætta fyrr í vinnu á meðgöngu. Einnig eru konur með grindarverki líklegri til að þurfa fleiri veikindadaga en konur með mjóbaksverki.

Helstu áhættuþættir fyrir grindarverkjum

Konur með sögu um mjóbaksverki fyrir meðgöngu og/eða áverka eða skekkju á mjaðmagrind eru helst í aukinni áhættu fyrir grindarverkjum á meðgöngu. Aðrir þættir geta einnig aukið líkurnar, eins og hár líkamsþyngdarstuðull, hærri aldur, fjöldi meðganga, líkamlega erfitt starf, lengdarmismunur ganglima og óheilbrigt líferni eins og reykingar.

Greining

Engin ein sérstök greiningaraðferð er viðurkennd fyrir að vera áreiðanlegust til að greina grindarverki. Þegar greina á mjaðmagrindaverki er því æskilegt að taka tillit til fyrri sögu konunnar, en það er greinilegt að orsök grindarverkja er fyrir tilstilli margvíslegra þátta og spila áhættuþættir þar inn í. Geiningarferlið getur því oft verið afar flókið ferli ekki síst vegna þess hve ólík einkenni geta verið á milli kvenna. Einnig getur þungunin sjálf gert greininguna erfiða vegna þeirra fjölmörgu líkamsbreytinga hjá konunni á meðgöngu.

Mikilvægt er að að útiloka aðra kvilla fyrst, líkt og þvagfærasýkingar eða aðrar sýkingar sem geta lýst sér með svipuðum einkennum. Til þess að greina grindarverki þarfnast tilvísun til læknis og/eða sjúkraþjálfara. Taka þarf ítarlega verkjasögu hjá konunni og framkvæma nákvæmt líkamsmat ásamt því að notast við greiningarpróf sem meta hreyfanleika, verki og stöðugleika grindar. Þegar verkurinn er metinn þarf að greina hvers eðlis hann er, hvort hann aukist við hreyfingar, þá við hvaða hreyfingar, hvort hann aukist í hvíld, sé stöðugur eða komi í hviðum.

Meðferð

Til eru margar leiðir, fyrir utan lyfjameðferðir, til að draga úr verkjum í mjaðmagrind, líkt og hita- og kuldameðferð, nálastungumeðferð, leiðrétting á líkamsstöðu, rétt líkamsbeiting, þjálfun með sérhæfðum æfingum ofl. Ráðleggingar byggðar á gagnreyndri þekkingu leggja helst áherslu á tilvísun til sjúkraþjálfara með sérþekkingu á grindarverkjum á meðgöngu ásamt verkjalyfjum. Þrátt fyrir að mælt sé með hreyfingu á meðgöngu þá hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) einnig greint frá ógagnsemi hreyfinga fyrir konur með grindarverki þar sem hún getur aukið enn frekar á verki. Þó hefur NICE ráðlagt þunguðum konum með grindarverki að stunda léttar hreyfingar í vatni. Rannsóknir hafa sýnt fram á miðlungs gagnsemi nálastungumeðferða og stuðningsbelta  sem verkjastillingu fyrir konur með grindarverki. Stuðningsbelti eru notuð í stuttan tíma í senn yfir sólarhringinn til að styðja við og létta álagið á grindina ásamt því að bæta líkamsstöðu en þörfin fyrir slík stuðningsbelti eru metin af lækni og fær þá viðkomandi kona tilvísun um kaup á hjálpartæki. Bæði WHO og NICE benda á þörf fyrir frekari rannsóknir á grindarverkjum á meðgöngu.

Hlutverk ljósmóðurinnar

Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk taki barnshafandi konur alvarlega þegar þær leita sér aðstoðar vegna mjaðmagrindaverkja og að ekki sé gert lítið úr upplifun þeirra. Konur upplifa stundum hjálparleysi, reiði og aukinn kvíða fyrir fæðingunni sjálfri þegar þær upplifa verki í grind á meðgöngu. 

Ljósmóðir í meðgönguvernd útilokar jafnan aðra mögulega kvilla og ástæður fyrir mjaðmagrindarverkjum, líkt og samdráttarverki, fall eða þvagfærasýkingu. Eftir að hafa fengið staðfestingu hjá lækni eða sjúkraþjálfara að um grindarverki sé að ræða veitir ljósmóðir í mæðravernd konunni fræðslu, leiðbeiningar og kennir henni æskilegar líkamsbeitingar sem minnka álag á grindina. Ef um slæma verki er að ræða getur verið æskilegt að veita viðeigandi verkjalyfjameðferð í samráði við lækni og hvetja verðandi móður að biðja um og þiggja alla þá hjálp sem býðst. 

Samantekt og góð ráð

Ekki er vitað fyrir vissu hver er orsök mjaðmagrindarverkja á meðgöngu en talið er að um sé að ræða samspil hormónatengdra og lífaflfræðilegra þátta. Ýmsir áhættuþættir eru fyrir mjaðmagrindarverkjum og má m.a. nefna aldur, fjölda meðganga, slæm líkamsstaða, áverki eða skekkja á grind, hár líkamsþyngdarstuðull og saga um mjóbaksverki. Verkir ganga oftast að fullu til baka fljótlega eftir fæðingu. Mikilvægt er að leiðrétta líkamsstöðu, nota réttar vinnustöður og líkamsbeitingu auk þjálfunar með sérhæfðum æfingum. 

Líkamsstaða

  • Standa með jafnan þunga í báðar fætur

  • Draga axlir aftur

  • Rétta vel úr líkamanum

  • Hugsa um halla mjaðmagrindar

  • Ekki læsa hnjánum

  • Sitja með jafnan þunga á setbeinum/ekki krossleggja fætur

  • Halla sér vel fram þegar stendur upp og hafa annan fót fyrir framan hinn

  • Sofa með kodda á milli fóta og ökkla

Hreyfing

  • Öll hreyfing er góð ef hún er innan sársauka marka, byrja rólega og auka álag eftir getu

  • Þjálfun í vatni getur reynst vel (meðgöngusund)

  • Grindarbotnsþjálfun getur verið gagnleg

  • Meðgönguleikfimi hjá fagfólki

  • Ganga er mjög góð hreyfing en gott er að taka lítil skref við gang og ganga gleiðspora

  • Fara frekar í marga stutta göngutúra en einn langan

  • Nota mannbrodda í hálku

  • Vera í góðum skóm með fjaðrandi sóla 

  • Taka eitt þrep í einu með sama fót á undan við stigagang og nota lyftu ef hægt er

  • Nota handrið til stuðnings við stigagang

  • Setjast inn í bíl með sitjandann fyrst, lyfta svo fótum samsíða upp í bílinn

  • Gott er að nota plastpoka eða snúningslak í bíl og í rúmi

Fæðingarstaða

Reyna að fyrirbyggja álag á mjaðmagrindarliði í fæðingu og velja stellingu sem eykur hreyfanleika spjaldbeins. Þær stöður sem eru ákjósanlegar eru t.d.:

  • Allar stöður í baði

  • Hliðarlega

  • Á fjórum fótum

Unnið af Björk Jómundsdóttir, hjúkrunarfræðingi og nema í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands

Unnið í samstarfi við ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur

 
Previous
Previous

Heimaþjónusta eftir fæðingu

Next
Next

Fósturhreyfingar