Heimaþjónusta eftir fæðingu

Þegar nýir foreldrar fara heim með barnið sitt í fyrsta sinn er að mörgu að huga. Nú hefst hið dásamlega tímabil þegar foreldrar kynnast nýja barninu sínu - en á sama tíma er móðir að jafna sig eftir fæðingu og foreldrar að átta sig á nýjum hlutverkum. Það er líka að ýmsu að huga varðandi brjóstagjöf og umönnun barnsins - fyrir utan svo allar spurningarnar sem nýir foreldrar velta fyrir sér. Sem betur fer býðst nýju fjölskyldunni góðan stuðning á þessum fyrstu dögum - annað hvort í sængurlegu á fæðingarstað eða í heimahúsi. Um 90% kvenna þiggja heimaþjónustu ljósmóður heima fyrstu 10 dagana í sængurlegu, en þær konur sem liggja lengur en 3 daga sængurlegu á fæðingarstað eða eiga barn á sem liggur inni á vökudeild, fá þjónustu fyrst um sinn á fæðingarstað og síðar frá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslu. 

Sængurlega eftir fæðingu hefur breyst heilmikið á síðustu árum. Flestir hafa líklega heyrt um sængurleguna eins og hún var fyrir nokkrum áratugum þegar konur lágu í nokkra daga á fæðingarstað, fengu þar umönnun ljósmæðra og aðstoð við að sinna barninu fyrst eftir fæðingu.

Í dag fara jafnan konur heim eftir nokkurra klukkustunda sængurlegu og eru flestar konur komnar heim með barnið sitt innan 24-48 klukkustunda frá fæðingu. Áður en konur fara heim af sínum fæðingarstað hefur starfsfólk fæðingarstaðar samband við þá ljósmóður sem sinnir heimaþjónustunni og fá þær símanúmer hjá viðkomandi ljósmóður og geta þá haft beint samband við hana til að finna hentugan tíma fyrir fyrstu vitjunina. 

Samfelld þjónusta

Eitt af því sem mörgum finnst þægilegt við að fá ljósmóður í heimaþjónustu er að þá er ein manneskja - eða teymi nokkura ljósmæðra sem vinna náið saman - að sinna fjölskyldunni. Sami fagaðili veitir ykkur fræðslu og stuðning á þessum fyrstu dögum - og þá verður þjónustan markvissari. Milli ykkar myndast traust og þannig hægt að ræða bæði viðkvæm málefni og allar spurningar milli himins og jarðar.

Að velja sér ljósmóður í heimaþjónustu

Fjölskyldan hefur val um hvaða ljósmóðir sinnir þeim í heimaþjónustu og má finna lista yfir þær ljósmæður hér. Margar þeirra sinna hvort tveggja meðgönguvernd og heimaþjónustu eða fæðingarhjálp og heimaþjónustu - það er því um að gera að spyrja ykkar ljósmóður í meðgönguvernd, eða þá ljósmóður sem tók á móti barninu ykkar eða sinnti ykkur í sængurlegu hvort hún gæti hugsanlega sinnt ykkur einnig í heimaþjónustu. Þannig er hægt að ná meiri samfellu með þeirri ljósmóður sem þið hafið myndað tengsl við.  Ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur sinna heimaþjónustu fyrir fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem þær hafa fætt barnið sitt á Fæðingarheimilinu eða annars staðar. 

Hvað gerist í heimaþjónustu?

Þegar foreldrar koma heim með barnið sitt eftir fæðingu vakna margar spurningar. Það er því mörgum léttir að vita að ljósmóðir mun koma í heimsókn nær daglega fyrstu tíu dagana eftir fæðingu. Hún getur svarað þessum spurningum, veitt ykkur fræðslu um ýmislegt sem tengist barninu en einnig varðandi líkamlega og andlega líðan móður. Hún er líka til stuðnings nýjum föður/móður sem eru að feta sig í nýju hlutverki.

Í fyrstu heimavitjun er yfirleitt meginverkefnið að aðstoða við brjóstagjöf. Þá er spurningum svarað, og móður hjálpað að leggja barnið rétt á brjóst. Ef það eru einhver vandamál svo sem sárar geirvörtur, þá getur hún gefið ráð varðandi stöðu barnsins eða hvernig barnið tekur brjóstið.

Einnig færðu upplýsingar um hversu oft er mælt með að leggja barnið á brjóst og hversu lengi í einu. Hér gildir þumalfingursreglan um að barnið farið að minnsta kosti 8-12 sinnum á brjóst á sólarhring en oft fara þau mun oftar á brjóst fyrstu 2-3 dagana. Það er líklegt að þau séu að minnsta kosti um 15 mínútur á hvoru brjósti í hvert sinn. 

Í þessari fyrstu vitjun munuð þið líka ræða um fæðinguna. Hvernig þú upplifðir fæðinguna og hvort þú sért með einhverjar spurningar sem var ósvarað. Kannski viltu frekari upplýsingar um einhver inngrip sem voru gerð og hugsanlega var eitthvað sem kom þér á óvart sem getur verið gott að spjalla um. Kannski var fæðingin jákvæð reynsla og þú svífur um á bleiku skýi en kannski fór fæðingin ekki eins og þú hafðir helst óskað. Í báðum tilfellum verður þín ljósmóðir til staðar til að hlusta. 

Strax frá fyrstu vitjun fer heilmikill tími í að aðstoða þig við brjóstagjöfina. Stundum gengur þetta strax eins og í sögu en það er þó algengara að konur séu með ýmsar spurningar og vilji fá aðstoð við að leggja barnið rétt á brjóst, sérstaklega með fyrsta barn.  

Á þriðja degi er mælt með að vigta barnið. Það er eðlilegt að barn léttist um 5-7% eftir fæðingu en ef barnið er að léttast meira mun ljósmóðirin meta hvort barnið sé að fá nægilega næringu. Barn sem er almennt hraust og hefur fæðst eftir 37-42 vikna meðgöngulengd þarf yfirleitt ekki neitt annað en brjóstamjólk þessa fyrstu daga eftir fæðingu.

Á þriðja degi stendur ykkur til boða að þiggja blóðprufu fyrir barnið ykkar þar sem skimað er fyrir alvarlegum, meðfæddum sjúkdómum svo sem vanstarfsemi skjaldkirtils, fenýlketónúríu og ýmsum arfgengum efnaskiptasjúkdómum. Skimunin er í boði á þessum tíma þar sem greining snemma leiðir til árangursríkari meðferðar. Þessa blóðprufu má gera heima og flestar ljósmæður taka blóðprufu úr fæti barnsins. Mælt er með að barnið sé á brjósti á meðan, þannig líður því best og er í öruggum faðmi móður sinnar á meðan stungið er. Farið er með blóðprufuna á rannsóknarstofu LSH og fást niðurstöður innan viku. Einungis er haft samband ef þarf að endurtaka blóðprufu eða niðurstöður gefa til kynna frekari rannsóknir. Engar fréttir eru góðar fréttir!

Ef móðir hefur farið í keisaraskurð eru heftin tekin á fimmta degi eftir fæðingu. Þetta er einnig gert í heimahúsi. Það er algerlega sársaukalaust að taka heftin og yfirleitt finna konur í raun fyrir nokkrum létti þegar heftin eru farin. Ljósmóðirin mun veita fræðslu um hvernig eigi að hugsa um sárið og annað sem getur verið hjálplegt að vita á fyrstu vikunum eftir keisaraskurð. 

Líðan móður og barns er metin í hverri einustu vitjun. Ljósmóðir mælir blóðþrýsting, metur leg og blæðingu, gefur þér ábendingar með hvernig þú getur dregið úr verkjum og almennt aukið vellíðan þína. Ljósmóðir þín metur einnig líðan barnsins þíns, bæði með því að vigta það en einnig með því að fylgjast með atferli þess og húðlit (til að meta gulu). 

Á þessum fyrstu tíu dögum heimsækir ljósmóðir þig 5-8 sinnum og hún kynnist fjölskyldunni vel. Fjöldi vitjana fer eftir því hvort móðir hafi verið að eignast sitt fyrsta barn eða ekki, heilsufari móður og barns og svo er það mat ljósmóður hversu margar vitjanir henta hverri fjölskyldu. Stundum þarf færri vitjanir og stundum fleiri. Það gefst tími til að svara spurningum um allt milli himins og jarðar eins og t.d. um heimsóknir, bleyjuskipti, uppeldi, snuð, mataræði, kynlíf eftir fæðingu og fyrsta göngutúrinn með barnið.

Áður en ljósmóðirin kveður ykkur þá býðst ykkur að þiggja aðstoð við að baða barnið í fyrsta sinn. Þetta er oft gert um viku eftir fæðingu barns og er dásamlega skemmtileg stund. 

Hver greiðir fyrir heimaþjónustuna? 

Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þjónustu ljósmæðra í sængurlegu og því er þjónustan ykkur að kostnaðarlausu.

Previous
Previous

Breytingaskeið kvenna

Next
Next

Grindarverkir á meðgöngu