Breytingaskeið kvenna

Breytingaskeiðið

Breytingaskeið kvenna er lífeðlisfræðilegt ferli sem allar konur fara í gegnum. Þegar eggjum fækkar í eggjastokkum og frjósemi minnkar fara kynhormónarnir að flökta. Hormónaflöktið veldur hinum þekktu einkennum breytingaskeiðisins sem geta verið bæði líkamleg og andleg.

Áhrif hormóna og einkenni

Hormónakerfið er samtengt öðrum líffærakerfum eins og heila- og taugakerfi, ónæmiskerfi, stoðkerfi og hjarta- og æðakerfi. Þess vegna geta sveiflur í kynhormónum á breytingskeiði haft víðtæk áhrif á líkamann og valdið ótal einkennum. Fyrstu einkennin eru oft breytingar á blæðingum. Blæðingar verða ýmist minni eða meiri og tíðahringurinn styttri eða lengri. Önnur algeng einkenni eru hita- og svitaköst, svefntruflanir og breytingar á skapi og andlegri líðan. Fjölmörg önnur einkenni geta gert vart við sig eins og breytt kynlöngun, þreyta, heilaþoka, hjartsláttartruflanir og þyngdaraukning.

Breytingaskeiðið er í raun aðlögunarferli þar sem líkaminn endurstillir sig og aðlagar sig að breyttu hormónamagni. Þetta er viðkvæmur tími fyrir heilsu og líðan kvenna og kjörið tækifæri til að endurskoða venjur sínar og efla heilsuna.

Flestar konur byrja á breytingaskeiði milli fertugs og fimmtugs, oft í kringum 45 ára aldurinn. Það sem kemur sumum á óvart er að einkennin byrja oftast þegar konur eru enn á blæðingum og lítið farnar að hugsa út í breytingaskeiðið. Breytingaskeiðið er mjög mislangt hjá konum og getur varað allt frá 1-2 árum upp í 10-20 ár. Hjá flestum konum varir það um 5-7 ár. Einkennin eru oft mest þegar líður að tíðahvörfum, en það er sá tími þegar kona hefur ekki haft blæðingar í eitt ár samfellt. Meðalaldur fyrir tíðahvörfin eru 51 ár. Eftir tíðahvörf kemst meira jafnvægi á kynhormónana og þá dregur yfirleitt úr einkennum. Mikilvægt er að muna að breytingaskeiðið er tímabundið ástand sem líður hjá.

Hvað er til ráða?

Það finnast sem betur fer fjölmörg ráð til að draga úr einkennum breytingaskeiðsins og bæta líðan. Mörgum konum nægir að gera breytingar á lífsstíl sínum. Sem dæmi má nefna:

  • Rétt næring sem styður við ólík líkamskerfi getur dregið úr einkennum.

  • Regluleg og hæfileg hreyfing bætir bæði líkamlega og andlega líðan.

  • Svefntruflanir eru algengar á breytingaskeiði og hafa oft mikil áhrif á líðan og heilsu. Því er forgangsatriðið að bæta svefnvenjur og svefngæði.

  • Breytingaskeiðið gerir konur viðkvæmari fyrir streitu og streituþröskuldurinn lækkar. Því er mikilvægt að finna leiðir til streituminnkunar og hlúa vel að sér.

  • Gott er að vera vel meðvitaður um áhrif innri og ytri þátta á einkenni og líðan. Margar konur lýsa því til að mynda að streita, áfengi, koffín og sykur geti framkallað hitakóf og hafi neikvæð áhrif á svefninn.  

Náttúrulyf eða óhefðbundnar leiðir

Sumar konur velja að nota náttúrulyf eða óhefðbundnar leiðir til að fara í gegnum breytingaskeiðið og draga úr einkennum. Þekktustu náttúrulyfin eru jurtaestgrógen (ísóflavónar) sem finna má í sojaafurðum, en einnig finnast jurtaestrógen í hörfræjum og rauðsmára. Erlendis hefur Slöngujurt (black cohosh) lengi verið notuð við einkennum breytingaskeiðs sem og Jóhannesarjurt (St John‘s Worth) en hvorug jurtin er leyfð hérlendis. Maca rótin er einnig talsvert notuð ásamt fjölmörgum öðrum náttúrulyfjum. Gott er að ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsmann áður en byrjað er að nota jurtir því þær geta haft aukaverkanir og milliverkanir við ýmis lyf. Sjá hér upplýsingar um ráðgjöfina sem Steinunn ljósmóðir veitir hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur.

Undir óhefðbundnar leiðir telst til dæmis hugræn atferlismeðferð (HAM) sem hefur sýnt góða verkun gegn hitakófum, kvíða, depurð og svefnvandamálum. Einnig hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif dáleiðslu og nálastungu á hita- og svitakóf.

Hormónameðferð

Stundum duga ofangreindar leiðir ekki til að draga úr einkennum og bæta líðan. Í öðrum tilvikum geta einkennin verið svo slæm að jafnvel litlar lífsstílsbreytingar geta virst óyfirstíganlegar. Í slíkum tilvikum getur hormónameðferð verið hjálpleg. Margar konur óttast hormónameðferð enda hafa fjölmiðlar verið duglegir að draga fram áhættu þeirra síðustu áratugi. Í dag er hormónameðferð ekki einungis talin minna skaðleg en áður var haldið, heldur getur hún haft heilsubætandi áhrif fyrir framtíðarheilsu og vinnur til að mynda gegn beinþynningu. Það skiptir þó máli hvernig hormónameðferð er valin. Í dag þykir öruggast að nota hormón sem líkjast hormónum líkamans (bioidentical hormones). Þá er notað estrógen um húð í formi gels eða plásturs. Svokallað mikroniserað prógesterón er einnig notað hjá konum með leg, annaðhvort sem hylki til inntöku eða í leggöng, en einnig má nota hormónalykkju. Stundum þufa konur einnig testósterón, sem er í  gelformi og notað um húð. Þessi hormónameðferð eykur ekki líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og hætta á brjóstakrabbameini er ekki aukin fyrstu 5 árin. Þó er konum með sögu eða ættarsögu um brjóstakrabbamein ekki ráðlagt að nota hormóna. Gott er að ræða við lækni í slíkum tilvikum.

Hver kona er einstök

Hver kona fer í gegnum breytingaskeiðið á sinn einstaka hátt, sumar létt á meðan aðrar eru undirlagðar einkennum. Það er því engin ein uppskrift sem hentar öllum. Mikilvægt er að konur fái heildræna og einstaklingsmiðaða ráðgjöf og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru. Þannig getur hver kona fengið stuðning til að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um þá leið sem hún velur sér hverju sinni.

Höfundur: Steinunn Zophoníasdóttir, ljósmóðir

Previous
Previous

Glaðloft sem verkjastilling í fæðingu

Next
Next

Heimaþjónusta eftir fæðingu