Glaðloft sem verkjastilling í fæðingu

Hvað er glaðloft?

Nituroxíð eða glaðloft er blandað til helminga við súrefni og er gjarnan notað sem verkjameðferð í fæðingum um allan heim. Við bjóðum upp á glaðloft til verkjastillingar á Fæðingarheimili Reykjavíkur.

Það virkar þannig að þegar þú andar því að þér, þá minnkar sársaukaskynjun þín og það dregur úr streitu og auðveldar þér að slaka vel á í hríðunum. Þannig virkar það líka verkjastillandi. Til að það virki sem best í hríðunum þá er mælt með að anda því að sér í 30 sekúndur áður en hríðin byrjar.

Helstu ókostir glaðlofts eru ógleði og uppköst, tilfinning um þurrk í munni og svimatilfinning. Það eru þó litlar líkur á þessum fylgikvillum en þeir koma fram í 3-5% tilfella. Meginkostur glaðlofts er sá að þú stjórnar magninu sem þú andar að þér og það er fljótt að fara úr blóðrásinni og því fara líka áhrif þess úr líkamanum fljótt.

Þar sem glaðloft veitir verkjastillingu og dregur úr kvíða án neikvæðra áhrifa á móður og barn, þá hefur það verið vinsælt hjá konum sem stefna að fæðingu án inngripa en þurfa ef til vill aukna verkjastillingu í fæðingu.

 

Hvernig virkar glaðloft í fæðingunni?

Glaðloftið virkar þannig að það eykur endorfín, dópamín og önnur náttúruleg opíóð í heilanum og á sama tíma minnkar losun á kortisól.

Þegar þú andar að þér glaðloftinu þá vinnur líkaminn um 1% af gasinu og í útöndunarloftinu fer um 99% gassins úr líkamanum. Það hleðst ekki upp í líkamanum og það fer ekki í gegnum fylgjuna. Glaðloftið hefur ekki áhrif á náttúrulegt, lífeðlislegt ferli fæðingarinnar, það hefur ekki áhrif á framleiðslu og losun líkamans á oxytocini (ástarhormónið sem m.a. hefur áhrif á hríðarnar) eða endorfíni (náttúruleg verkjastilling líkamans) og hefur ekki áhrif á brjóstagjöf. Það hefur ekki áhrif á virkni nýburans strax eftir fæðingu og truflar því ekki tengslamyndun fyrstu klukkustundirnar eftir fæðinguna.

 

Aukin upplifun af stjórn í fæðingunni          

Magn glaðlofts er algjörlega stjórnað af þér sjálfri. Þú andar inn og út um grímuna/maskann og þú heldur grímunni/maskanum að þér. Sumum finnst það auka á jákvæða upplifun að hafa þessa stjórn á verkjastillingunni.

Þú getur hreyft þig að vild þegar þú andar að þér glaðloftinu og þú getur notað það með öðrum verkjameðferðum eins og nuddi, baði, nálastungum, vatnsbólum, TENS tæki og svo framvegis.

Þú getur hætt notkun glaðlofts á hvaða tímapunkti sem er og fer það út úr líkamanum innan nokkurra mínútna.

 

Er glaðloft öruggt?

Af öllum lyfjum til verkjastillingar sem í boði eru í fæðingum hér á landi, þá er glaðloftið öruggast fyrir móður og barn.

Aukaverkanir sem geta komið upp eru svimi, þreyta, ofskynjanir, minnistruflanir, höfuðverkur, gleðitilfinning, djúpslökun, hitatilfinning og dofatilfinning. Allar konur upplifa fæðinguna sína á ólíkan hátt og það á líka við um virkni og aukaverkanir kvenna. Á meðal kvenna sem upplifa aukaverkanir glaðlofts í fæðingu eru þær algengustu ógleði, svimi og uppköst.

 

Góð ráð við notkun glaðlofts:

  • Það er gott að setja maskann þétt yfir nef og munn.

  • Þú heldur sjálf á maskanum og stjórnar flæðinu á glaðloftinu.

  • Það er gott að byrja að anda að sér gasinu 30 sekúndum áður en samdrátturinn byrjar - af því full áhrif koma fram um 50 sekúndum eftir að þú fyrst andar að þér gasinu. Ef þú andar stöðugt að þér glaðloftinu, á milli samdrátta og yfir samdrætti, þá geturðu frekar upplifað svimatilfinningu og ógleðistilfinningu.

  • Það gæti tekið þig nokkra samdrætti til að ná góðu taki á að nota gasið.

  • Þegar þú tekur maskann af, þá fer glaðloftið úr líkamanum innan nokkurra mínútna.


Er glaðloft í boði á Fæðingarheimili Reykjavíkur?

Já, glaðloft er eitt af því sem við bjóðum ykkur á Fæðingarheimili Reykjavíkur sem verkjastillingu í fæðingu.


Heimilidir:

https://www.ochsnerjournal.org/content/20/4/419.full

Sanders RD, Weimann J, Maze M. Biologic effects of nitrous oxide: a mechanistic and toxicologic review. Anesthesiology. 2008; 109(4): 707-722.

Emmanouil DE, Quock RM. Advances in understanding the actions of nitrous oxide. Anesth Prog. 2007; 54(1): 9-18.

Rosen MA. Nitrous oxide for relief of labor pain: a systematic review. Am J Obstet Gynecol. 2002; 186: S110-S126.

Quock RM, Vaughn LK. Do inhalation general anesthetic drugs induce the neuronal release of endogenous opioid peptides? Life Sci. 2005; 77(21): 2603-2610.

Gillman MA, Katzeff IE. Antistress hormonal responses of analgesic nitrous oxide. Int J Neurosci. 1989; 49(3-4): 199-202.

Collado V, Nicolas E, Faulks D, Hennequin M. A review of the safety of 50% nitrous oxide/oxygen in conscious sedation. Expert Opin Drug Saf. 2007; 6(5): 559-571.

Previous
Previous

Notkun vatns í fæðingu

Next
Next

Breytingaskeið kvenna