Notkun vatns í fæðingu

Vatn getur verið frábær verkjastilling í fæðingu. Í vatninu er auðveldara fyrir þig að hreyfa þig og skipta um stellingar og vatnið getur líka hjálpað þér að ná dýpri slökun í fæðingunni. Konur tala oft um að þær nái betri stjórn á aðstæðum í vatninu og að vatnið hafi jafnvel veitt þeim meira öryggi.

Hvenær er best að nýta sér vatnið?

Þú getur nýtt vatn hvenær sem er í fæðingu. Mörgum konum finnst gott að vera í sturtu í byrjandi fæðingu og fara svo seinna ofan í fæðingarlaugina. Ef þú átt bað heima hjá þér þá er tilvalið að nýta sér það líka.

Fæðingarlaugin ætti að vera nógu stór til þess að þú getir breytt auðveldlega um stellingar. Konum finnst oft gott að vera á fjórum fótum í lauginni, liggja á hlið eða sitja. Maki þinn eða stuðningsaðili getur verið með þér ofan í lauginni eða setið við hliðina á lauginni. Með vatninu má nýta ýmis önnur bjargráð eins og kaldan þvottapoka á enni, nudda mjaðmir og mjóbak, hlusta á tónlist, fá nálastungu, vatnsbólur og nota glaðloft.

Ljósmóðirin mun hlusta reglulega á fósturhjartslátt barnsins. Þetta er hægt að gera í vatninu og þú þarft því ekkert að koma upp úr til þess.


Hverjir eru kostir þess að nota vatn í fæðingu?

Það er auðveldara að hreyfa sig í vatninu og skipta um stellingar. Þetta er mikilvægt því þegar þú hreyfir þig þá hjálpar það barninu líka að finna bestu stöðuna í grindinni. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að fæðing í vatni getur verið auðveldari og tekið styttri tíma en fæðing sem er ekki í vatni.

Konur sem nýta sér vatn sem verkjastillingu þurfa oft ekki aðra deyfingu svo sem mænurótardeyfingu. Vatnið getur líka minnkað líkurnar á því að þér verði ráðlagt að örva fæðinguna með lyfjum og minnkar líkurnar á keisarafæðingu eða fæðingu með sogklukku/töngum. Vatnsfæðing eykur líka líkurnar á því að spöngin sé heil eftir fæðingu.

Rannsóknir hafa sýnt að það eru minni líkur á blæðingu eða sýkingu hjá konum sem fæða barnið sitt í vatni. Börn sem fæðast í vatni virðast líka vera með betri útkomur en börn sem fæðast ekki í vatni, þótt ekki sé vitað nákvæmlega hverjar skýringarnar eru á því. Það er hugsanlegt að þetta skýrist af því að ef það eru einhverjar áhyggjur af móður eða barni þá myndi ljósmóðir biðja konuna um að koma upp úr vatninu – og því er líklegt að þegar barn fæðist í vatni þá hafa ekki verið neinar frábendingar, áhyggjur eða sérstök áhætta sem fylgir fæðingunni og því eru þessar fæðingar líka líklegri til að ganga vel.


Kostir þess að nýta sér vatn í fæðingu

  • Minni upplifun af sársauka í fæðingu

  • Minni líkur á því að þú þurfir að nota verkjalyf í fæðingunni

  • Minni líkur á því að þú þurfir að nota lyf til að örva fæðinguna

  • Fæðingin gæti tekið styttri tíma

  • Það eru meiri líkur á því að barnið fæðist um leggöng en með keisaraskurði

  • Minni líkur á spangarrifum

  • Minni líkur á því að spöngin sé klippt

  • Meiri líkur á því að þú upplifir fæðinguna á jákvæðan hátt

Eru einhverjir ókostir?

Til þess að vatnið virki vel þá þarf að huga vel að hitastigi þess. Best er að vatnið sé við 36-38 gráður. Þá líður verðandi móður vel og hún nær góðri slökun. Ef vatnið er of kalt eða of heitt þá getur það jafnvel haft þau áhrif að það hægist á fæðingunni. Þegar þú notar fæðingarlaug/baðkar þá er gott að fara upp úr lauginni á 2-3 tíma fresti, og er þá sniðugt að nýta tækifærið til að fara á klósettið. Mikilvægt er að muna að drekka vel í fæðingu – og þetta er sérstaklega mikilvægt þegar þú ert ofan í fæðingarlauginni. Gott er því að hafa vatn, djús eða gatorate við höndina og taka öðru hvoru sopa. Þetta er frábært hlutverk fyrir stuðningsaðila þinn að sjá um – bæði að fylla á vatnsbrúsann og rétta þér hann öðru hvoru.

Í ákveðnum aðstæðum er ekki mælt með því að nota vatn í fæðingum – og þetta getur verið gott að ræða við þína ljósmóður í meðgönguvernd. Það er til dæmis ekki mælt með vatnsfæðingu ef barnið fæðist fyrir 37 vikna meðgöngu og einnig er ekki notast við vatn í fæðingu ef þú hefur fengið epidural deyfingu eða ef stutt er síðan þú fékkst morfín.

Það eru nokkur atriði sem þarf að fylgjast með þegar fæðing fer fram í vatni. Eitt af því eru aðeins hærri líkur á að naflastrengurinn slitni ef barnið kemur mjög hratt í heiminn. Þótt líkurnar séu aðeins auknar þá er samt mjög ólíklegt að þetta gerist og þess vegna fylgjast ljósmæðurnar alltaf vel með þessu. Þær passa líka að barnið komi hægt og rólega upp úr vatninu og beint í fangið til foreldra sinna. Ef naflastrengurinn slitnar, þá er sett klemma á strenginn um leið til að minnka líkur á blæðingu frá barninu.

Nýfædd börn eru með viðbragð sem kemur í veg fyrir að þau taki fyrsta andardráttinn áður en þau koma upp í andrúmsloftið. Það er því ekki fyrr en þau koma upp úr vatninu sem þau byrja að anda og hreinsa lungun sín af vatni. Börn eru jafnlengi að hreinsa lungun sín í vatnsfæðingu og eftir fæðingu á landi. Ef ljósmæðurnar telja að barnið muni vera líklegra til að þurfa aðstoð við að hreinsa lungun eftir fæðingu þá munu þær ráðleggja þér að koma upp úr fæðingarlauginni áður en barnið fæðist. Þetta getur t.d. gerst ef barnið sýnir streitumerki svo sem við hjartsláttarhlustun eða ef legvatnið er grænt.

Örveruflóra nýbura hefur verið fólki hugleikin undanfarin ár. Það virðist ekki vera að vatnsfæðingar hafi áhrif á örveruflóru nýbura en það þarf þó fleiri rannsóknir til að skoða þetta betur.


Er öruggt að fæða barn í vatni?

Margar rannsóknir hafa skoðað hvort það sé öruggt að fæða barn í vatni og þær eru allar sammála um að það fylgi vatnsfæðingu engir ókostir fyrir hrausta konu sem er að eignast fullburða barn.

Stundum hefur verið talað um að börn sem fæðist í vatni séu örlítið lengur að taka við sér eftir fæðingu en þau eru þó ekki líklegri til að eiga í öndunarerfiðleikum eða þurfa á öndunaraðstoð að halda samanborið við börn sem eru ekki fædd í vatni.

Barn sem fæðist í vatni fer beint í fang móður sinnar. Þar er barnið húð við húð eins og mælt er með fyrir öll börn. Passa þarf að barninu verði ekki kalt og því mun ljósmóðir leggja handklæði yfir barnið, passa að vatnið sé við rétt hitastig og að það sé hlýtt í herberginu þegar barnið fæðist. Barnið getur tekið brjóst um leið og það er tilbúið til þess.  


Er notkun vatns  í fæðingu og/eða vatnsfæðing í boði á Fæðingarheimili Reykjavíkur?

Já, við erum með tvær fæðingarstofur á Fæðingarheimili Reykjavíkur og þær eru báðar með fæðingarlaug sem stendur ykkur til boða í fæðingunni ykkar. Það er mjög algengt að konur nýti sér vatnið sem verkjastillingu í fæðingu og hafa næstum allar konur sem hafa verið í fæðingu hjá okkur gert það á einhverjum tímapunkti í fæðingu. Um 60% barna sem eru fædd á Fæðingarheimili Reykjavíkur eru fædd í vatni.


Heimildir:

Burns E, Feeley C, Hall PJ, Vanderlaan J. Systematic review and meta-analysis to examine intrapartum interventions, and maternal and neonatal outcomes following immersion in water during labour and waterbirth. BMJ open. 2022 Jun 1;12(7):e056517.

Edwards S, Angarita AM, Talasila S, Berghella V. Waterbirth: a systematic review and meta-analysis. American Journal of Perinatology. 2023 Feb 15.

Harper B. Birth, bath, and beyond: The science and safety of water immersion during labor and birth. The Journal of Perinatal Education. 2014 Jan 1;23(3):124-34.

 

Next
Next

Glaðloft sem verkjastilling í fæðingu