Samdrættir á meðgöngu

Það er eðlilegt að finna fyrir vægum samdráttum á meðgöngu og algengt að þú finnir sérstaklega fyrir þeim þegar líða fer á annan og þriðja þriðjung meðgöngunnar. Þessir samdrættir eru stundum kallaðir Braxton Hicks samdrættir. 


Braxton Hicks samdrættir á meðgöngu hafa þann tilgang að undirbúa legvöðvann fyrir fæðinguna með því að styrkja hann og örva blóðflæði til hans og barnsins þíns. Þeir eru óreglulegir, vara í stuttan tíma og er gjarnan líkt við væga túrverki eða samdrátt á tilteknu svæði kviðs sem kemur og fer. Konur sem hafa fætt barn áður eru líklegri til þess að fá aukna samdrætti á meðgöngu samanborið við konur sem ganga með sitt fyrsta barn. Þær eru líka líklegri til þess að finna fyrir samdráttum fyrr á meðgöngunni. 


Samdrættir koma í kjölfar flókins samspils hormóna og annarra þátta. Það hormón sem hefur mest áhrif á samdrætti í leginu er oxytocin, en einnig koma prostaglandin og progesteron við sögu. Margar konur finna fyrir meiri virkni í leginu á nóttunni en á daginn og skýrist það einmitt af þessu samspili hormóna. Líklega skýrast auknir samdrættir á nóttunni auknu melatónín magni á nóttunni. Melatónín er mikilvægt hormón í líkamanum sem hefur það hlutverk að stuðla að betri svefni - og melatónín og oxytocin vinna vel saman. 

Legið byrjar að dragast saman af og til á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar en smám saman fara samdrættir að aukast í styrk og lengd eftir því sem líður á meðgönguna. Á seinni hluta meðgöngunnar þegar samdrættir fara að aukast er eðlilegt að þú finnir fyrir tíu til fimmtán samdráttum á dag eða allt að fjóra samdrætti á hverri klukkustund. 


Stundum er erfitt að átta sig á því hvort samdrættir eru Braxton Hicks samdrættir eða hvort fæðing sé hugsanlega að hefjast. Þetta á sérstaklega við undir lok meðgöngunnar. 


Þá er gott að muna að: 

  • Braxton Hicks samdrættir eru alltaf óreglulegir og þeim ættu ekki að fylgja miklir verkir 

  • Braxton Hicks samdrættir aukast ekki í styrk heldur minnka frekar og hverfa svo alveg í einhverja stund 

  • Braxton Hicks samdrættir eru algengari framan á kvið á meðan samdrættir í fæðingu byrja oft í bakinu og færast þaðan framan á kviðinn


Vissar aðstæður geta aukið hjá þér Braxton Hicks samdrætti og má þar nefna: 

  • Ef þú hefur verið mikið á ferðinni

  • Ef þvagblaðran þín er full

  • Ef þú hefur drukkið lítinn vökva 

  • Eftir kynlíf 

Líkt og áður kom fram þá eru vægir samdrættir eðlilegur partur af meðgöngunni og algengt að finna fyrir þeim en stundum geta samdættir aukist og valdið ama. Þá getur verið gagnlegt að: 

  • Prufa að breyta um líkamsstellingu

  • Leggjast niður og slaka á ef þú hefur verið mjög virk

  • Fara í göngutúr ef þú hefur verið mikið sitjandi

  • Fara í bað, iðka slökun eins og t.d. að lesa bók eða hlusta á tónlist

  • Drekka meiri vökva

Ef þessi ráð minnka ekki samdrætti og þeir fara að aukast eða styrkjast eða þú hefur áhyggjur af samdráttunum, ráðleggjum við þér að hafa samband við þína ljósmóður. Þá gæti þurft að skoða hvort þú gætir verið með þvagfærasýkingu eða sýkingu í leggöngum en það getur ýtt undir aukna samdrætti í legi. Þar að auki telst ekki eðlilegt að fá samdrætti sem eru reglulegir með verkjum fyrir 37. viku meðgöngunnar því það gæti bent til yfirvofandi fyrirburafæðingu. 

Birta Hildardóttir, hjúkrunarfræðingur og nemi í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands

Unnið í samstarfi við ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur


Previous
Previous

Fósturhreyfingar

Next
Next

Heimkoma með nýfætt barn