Upplýst val kvenna í barneignarferlinu

Þú átt rétt á að taka upplýstar ákvarðanir í barneignarferlinu, ákvarðanir sem henta þér og þínum persónulegu þörfum og gildum. Þetta kemur fram í 5. grein í lögum um réttindi sjúklinga (1997, nr. 74) sem eiga einnig við um barnshafandi konur sem nýta sér heilbrigðisþjónustu.

Til þess að þú getir tekið upplýstar ákvarðanir er mikilvægt að þú fáir góðar, nákvæmar upplýsingar um þá valkosti sem þér bjóðast og að upplýsingarnar séu hlutlausar og byggðar á góðum rannsóknum um efnið. En það er eðlilegt að þú skiljir ekki allar upplýsingarnar sem þú færð og það er mikilvægt að hafa það í huga að það að biðja um útskýringar og aðstoð sýnir hugrekki og er sjálfsagt að við útskýrum betur og eftir þörfum hverrar og einnar konu. Þá geta oft einfaldar spurningar eins og „hvað áttu við með því?“ og „hvað er það?“ verið mjög gagnlegar.

Það að þú fáir góðar upplýsingar og sért þannig vel upplýst til að geta tekið ákvarðanir í þinni umönnun getur haft áhrif á upplifun þína af barneignarferlinu og líðan. Við leggjum mikla áherslu á þennan þátt í allri okkar umönnun til að stuðla að aukinni vellíðan og ánægju með upplifun þína. En þú getur líka óskað eftir faglegri ráðgjöf frá ljósmóður eða lækni í kjölfar fræðslu og þá ætti sú ráðgjöf að vera byggð á faglegu mati á aðstæðum en líka þínum þörfum og gildum.

Það getur verið gagnlegt að fá þessa fræðslu hjá þinni ljósmóður í meðgönguvernd eða lækni jafn óðum t.d. þegar þér er boðin ákveðin rannsókn eða meðferð eða ákveðnir valkostir eins og val um fæðingarstað, en þegar kemur að fæðingunni sjálfri, getur verið gagnlegt að vera vel undirbúin og vera búin að fá helstu upplýsingar varðandi þá þætti sem standa þér til boða í fæðingu þar sem það getur reynst erfitt að fá ítarlegar upplýsingar á meðan á fæðingu stendur. Það er þó hægt ef þörf er á.

Hér eru 6 gagnlegar spurningar sem þú getur stuðst við og notað við ákvarðanatöku í þínu barneignarferli:

  1. Hverjir eru kostirnir/hver er ávinningurinn?

  2. Hverjir eru ókostirnir/hver er áhættan?

  3. Ef ég ákveð ______, hvaða aðrar meðferðir/inngrip gætum við þurft að nota?

  4. Hvað annað getum við prófað fyrst eða í staðinn?

  5. Hvað gæti gerst ef við bíðum t.d. í 1-2 klst? 

  6. Hvað gæti gerst ef við sleppum þessu alveg?

Previous
Previous

Næring á meðgöngu