Anda - slaka - treysta

Settur dagur var 21. júní en yfir meðgönguna sagðist ég ætla að eiga 16. júní því þá væri alltaf frídagur daginn eftir afmæli, fullkominn partýdagur. Litla barnið okkar kom svo í heiminn morguninn 15. júní, 8 dögum fyrir settan dag.

Kvöldið áður var ekkert sem benti til þess að eitthvað væri að fara gerast í bráð, bróðir minn kom í mat til okkar og við Samuel fórum óvenju seint að sofa því ég varð að klára lokaþáttinn af the Ultimatum á Netflix. Kl. 3.30 vaknaði ég til að pissa og fann fyrir smá túrverkjum, fór aftur uppí og reyndi að sofna. Missti vatnið stuttu seinna og jukust túrverkirnir gríðarlega, á þessum tímapunkti gerði ég mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég væri með samdrætti á sama tíma því ég fann svo mikið fyrir "túrverkjunum". Kl. 4.08 hringdum við uppá fæðingarheimili og Halla ljósa ráðlagði mér að hvílast eins og ég gæti og taka lauslega tímann á milli hríða.  

Fór aftur uppí rúm og þóttist ætla að hvíla mig, gat alveg gleymt þeirri hugmynd strax, svo kröftugar voru hríðarnar. Fyrst voru 14 mín á milli, svo 10, 7, 4-5 og hver og ein hríð varði í 1-2 mín. Þarna hugsaði ég með mér að ég væri ekki að fara lifa þetta af ef þetta yrði svona næsta 1,5 sólahring og ef þessi sársauki væri svo kannski bara 3 af 10. Samuel fór og fyllti í baðið okkar, ég fór fljótlega ofaní og hjálpaði það mikið við verkina. Kl. 5.45 hringjum við aftur uppá fæðingarheimili og var ákveðið að ég kæmi uppeftir og við tækjum stöðuna. Eftir símtalið vildi Samuel hringja í mömmu sem ætlaði að vera viðstödd, ég hélt nú ekki, fannst það algjör óþarfi að hún skyldi þurfa vakna svona snemma og þurfa vera vakandi líka í 1,5 sólahring. Var ennþá alveg föst á því að þetta væri bara rétt að byrja þó að á þessum tímapunkti voru 3-5 mín á milli hríða. Eftir smá rökræður gaf ég leyfi á að hringja eftir hálftíma í hana, 10 mín seinna hringdi Samuel í hana því hann sá í hvað stemmdi. Kl.6.15 leggjum við af stað uppá fæðingarheimili og á þessum 15 mín fæ ég amk 10 hríðar.

Þegar ég stíg útúr bílnum hellist yfir mig ógleði og ælutilfinning, Halla tók á móti okkur og mældi útvíkkun. Þegar hún segir mér að það séu komnir 8cm í útvíkkun fer ég eiginlega að hlæja því svartsýnisspáin mín var að giska á 5-6cm og var það ekki fyrr en þarna sem ég átta mig á að þetta sé alveg að fara gerast.

Mamma mætir hálftíma á eftir okkur, en ég man bara eftir að hafa heyrt í henni og fundið fyrir henni því ég var með höfuðið á grúfu í rúminu nánast allan tímann. Pirraði mig aðeins á því hvað hún var heit á höndunum því ég var að kafna úr hita, þá hjálpaði að vera með kaldan þvottapoka og kæla. Á fæðingaróskalistanum mínum var ég búin að skrifa að ég vildi fæða í baði ef það væri hægt. En þegar mér var boðið það vildi ég það ekki, mér var svo heitt. Hríðarnar voru orðnar mjög kröftugar og stutt á milli en einhverntímann þarna á milli hríða tókst mér að tannbursta mig, man ég hugsaði með mér að ég gæti nú ekki verið andfúl að góla hérna á alla. Síðan fóru hríðarnar að breytast og ég fór að finna fyrir rembingsþörf, Halla sagði mér að hlusta á líkamann og gera það sem hann vildi. Þá skreið ég uppí rúm og lá á hliðinni, þegar komið var að rembingnum var lengri tími inná milli hríða og ég náði betur að slaka á inná milli.

35 mín seinna kom litla barnið okkar í heiminn kl.8:15, 3215g og 49cm. Fór strax á bringuna á mér og við Samuel og mamma dáðumst öll að þessari litlu mannveru með tárin í augunum. Um hálftíma seinna kom Halla aftur inn til okkar og spyr hvort við værum búin að komast að kyninu, þá höfðum við ekki einu sinni fattað að kíkja. Kom í ljós að þetta var lítill fullkominn drengur.

Þetta er það klikkaðasta sem ég hef upplifað. Ég trúi því fastlega að þetta hefði aldrei gengið svona vel ef ég hefði ekki verið í meðgöngujóga hjá Jógasetrinu yfir alla meðgönguna. Þar var manni kennt að anda niður, slaka á hálsi og kjálka og anda sig í gegnum sársaukann, ég var svo meðvituð um þetta allt í fæðingunni. Mantran ÁST (anda - slaka - treysta) var líka stöðugt í hausnum á mér. Ef ég á að gefa konum á meðgöngu eitt ráð þá er það meðgöngujóga! Einnig er ég svo ánægð með þá ákvörðun að eiga á fæðingarheimilinu, mér leið vel allan tímann og fannst ég alltaf vera við stjórn.

Takk Halla fyrir að fylgja okkur í gegnum þetta og að taka á móti stráknum okkar, takk Embla fyrir að taka á móti stráknum okkar og dýrmætu myndirnar af fæðingunni og takk Emma fyrir alla aðstoðina í heimaþjónustunni.

Next
Next

Eins og korktappi á kampavínsflösku