Eins og korktappi á kampavínsflösku

Ég sit hér heima í stofu og horfi til hliðar og mér við hlið er dóttir mín, tveggja vikna gömul. Ég fæ gæsahúð, trúi ekki að ég sé orðin móðir og eigi heilbrigt og yndislegt barn. Það orð sem stendur mér efst í huga er þakklæti og því vil ég deila minni reynslusögu með ykkur þar sem mér finnst þið hafa átt stóran þátt í hversu vel fæðingin og aðlögunin heimavið gekk.

Þann 9. febrúar 2022 fer ég í keiluskurð og eftir keiluskurðinn var mælt með að ég og kærasti minn myndum bíða í að minnsta kosti þrjá mánuði með að reyna eignast barn. Þann 1.maí, sama ár, komumst við svo að því að ég er ólétt og því örlítið fyrr en mælt var með samkvæmt læknum eftir keiluskurð. Meðgangan gekk vel með engum áhrifum frá keiluskurði en fyrstu 8 vikurnar voru þó erfiðar þar sem mikil ógleði var til staðar, mikil uppköst og af og til uppköst með blóði. Þegar ég er gengin 18 vikur + 3 daga þá segir vinkona mín mér frá meðgöngujóga sem hún er í og talar um hvað það byggir upp sjálfstraust hjá konum fyrir fæðingu og mælir með að ég prófi með henni. Ég byrja viku seinna og fer um það bil þrisvar í viku fram að fæðingardegi.

Þann 12. desember tók ég minn fyrsta dag í veikindaleyfi frá vinnu og fer um kvöldið í bæði meðgöngujóga og meðgöngusund. Ég finn fyrir þrýsting í leginu í meðgöngusundinu og líka þegar ég kem heim en kippi mér ekki mikið upp við verkina. Ég fer að sofa og vakna þennan þriðjudagsmorgun, gengin 37+2, kl: 7 til að fara í vinnuna þar sem ég átti að halda fund í vinnunni þann dag. Daginn eftir ætlaði ég mér að halda áfram í veikindaleyfi. Ég hélt ég þyrfti að fara pissa eins og ég geri alla morgna en ég náði ekki að setjast á klósettið heldur stend ég fyrir framan klósettið og, að ég held, pissa ég á mig kl: 07:17. Vek kærasta minn í kjölfarið og segi við hann að ég haldi að ég hafi misst vatnið. Við hringdum í ykkur og lýstum aðstæðum og þið staðfestuð að ég hafi misst vatnið og tilkynnið okkur að stelpan okkar sé að koma í heiminn á næstu 24 tímunum og ég eigi að vera heima í rólegheitunum og reyna hafa það kósý. Ég hringi þar næst í vinnuna mína og byrja símtalið á „ég held ég komi ekki inn í dag“ en breytti því um leið og orðin komu út úr mér í „ég kem ekki inn í dag“. Ég og kærasti minn förum beint í það að klára að pakka ofaní fæðingartöskuna og ég sem var nýbúin að ná að þvo ¼ af fötunum hennar deginum áður. Klukkan 08:59 fékk ég fyrsta samdráttinn og byrjaði að taka tímann á milli samdrátta. Samdrættir voru 40-50 sekúndur með 3-5 mínútum á milli. Kærasti minn leggur sig og ég reyndi en gekk illa þar sem mér var svo flökurt. Ældi kl: 9:36 og aftur 10:07 galli. Við hringjum aftur í ykkur og lýsum verkjum og samdráttum og þið tilkynnið okkur um að koma þegar verkir fara verða þyngri. Fékk pabba minn til að skutla teppinu sem stjúpmamma mín prjónaði fyrir litlu dömuna og fékk vinkonu mína í heimsókn til að koma með stimpilinn fyrir fótinn. Þegar þau voru farin, kl 10:41, þá voru samdrættir farnir að vera rúm mínúta með 3-5 mínútum á milli, þarna byrjaði ég að anda vel í gegnum verkina og hallaði mér fram að borðinu með höfuðið niður og ruggaði mjöðmum til hægri og vinstri. Ældi aftur kl: 11:32 galli og síðan klukkan 11:42 fer ég í sturtu og þá eru samdrættir farnir að vera ein og hálf mínúta. Á þeim tímapunkti er kærasti minn búin að spyrja mig 10 sinnum hvort við ættum ekki að fara koma okkur af stað og appið í símanum búið að segja okkur fimm sinnum að fara leggja af stað uppá spítala. Mér leið vel í sturtunni og var komin á fjórar fætur með vatnið rennandi á bakið á mér. Þvæ síðan á mér hárið og á sama tíma spyr kærasti minn „er þetta raunveralega tíminn sem þú ætlar að þvo á þér hárið?“. Ég hlæ játandi og í framhaldi þurrka ég mér og klæði mig og samdrættir orðnir tæpir tvær mínúta.

Klukkan rétt fyrir 13 segi ég við kærasta minn að við séum að fara út úr húsi NÚNA. Við leggjum af stað, himininn er heiðskýr og blár og sólin er lágt á lofti. Við gatnamót Miklabrautar / Grensásvegs er gult ljós að verða rautt og kærasti minn stoppar og ég segi „ertu að grínast?“ og horfi á hann og ranghvolfi augunum. Kærasti minn upplifði þetta rauða ljós taka heila eilífð en um leið og það varð grænt þá sagði hann „fyrirgefðu elskan“ og ég sagði í kjölfarið þung í brún: „nú brunar þú restina“. Við erum mætt til ykkar á Fæðingarheimili Reykjavíkur um kl. 13:20 og var þá komin með ca. 8-9 í útvíkkun og fer strax á jógadýnu á fjórar fætur með höfuðið niður meðan Emma lætur renna í bað fyrir mig og anda mig í gegnum hríðarnar og var dugleg að hreyfa mig. Kærasti minn, með aðstoð Emmu, kveikja á fæðingarplaylistanum með lögum frá meðgöngujóganu, kveikja á kertaljósum, dimma ljósin, færa mér hárteygju og vatn í brúsa. Ég fer ofaní baðið um leið og það var tilbúið, klukkan var þá 13:48, og finn strax fyrir smá rembingstilfinningu og Emma segir ég sé komin með fulla í útvíkkun og stelpan okkar sé á leiðinni. Klukkan 14:58 er ég að byrja rembast á fjórum fótum í baðinu og náði að slaka vel á í baðinu þar sem tónlistin, kyrrðin, kertaljósin og stuðningur kærasta míns aðstoði hvað mest. Á milli rembinga notaði ég haföndunina til að slaka á og hvíla mig og á meðan færði kærasti minn mér vatn, spreyjaði lavender sprayi yfir andlitið á mér, nuddaði á mér kjálkann og gagnaugað til skiptis og setti kaldan bakstur á ennið mitt (fannst það virkilega gott). Ég man ekki á hvaða tímapunkti það var í fæðingunni en þá leiðbeinti Emma mér hvernig ég ætti að nýta öndunina til að aðstoða stelpuna okkar að koma út og á þeim tímapunkti þá breyttust hlutir verulega hratt þar sem ég fann loksins, þökk sé Emmu, hvernig ég ætti að vinna með rembingsþörfinni. Emma sagði mér líka að ég gæti komið við höfuðið á stelpunni okkar þegar hluti af höfðinu var komið út. Mér fannst það virkilega áhugavert og gaman að prófa, en í hreinskilni sagt, ekkert verulega geðslegt. Aftur á móti þá fannst mér það vera ákveðin hvatning til að koma dömunni minni út í heiminn. Ég man líka að þegar leið að því að það styttist í stelpuna okkar kom Edythe inn í herbergið til að aðstoða Emmu með fæðinguna. Edythe kom að mér og kraup niður í augnhæð og sagði mér hvað hún héti og að hún ætlaði að aðstoða með fæðinguna. Á þeim tímapunkti var ég komin í verulega einbeitingu og man bara eftir að hafa svarað „ég heyri ekkert það sem þú ert að segja“ og hreyti því frá mér að henni, daginn í dag hlæ ég verulega að þessu augnabliki og hugsa með mér að innst inni hefur Edythe hlegið líka á þessum tímapunkti. Klukkan 16:17 fæddi ég dóttur mína sem skaust út eins og korktappi á kampavínsflösku – deyfingarlaust í baði og fæ hana beint í fangið. Þessi kröftuga og myndarlega stelpa var 3025gr og 54cm.

Þar á eftir sest ég í Malasana, yogi's squat, til að reyna fæða fylgjuna og Emma segir „það sést að þú hafir verið í jóga“. Ég reyni að pissa í baðið til að leyfa fylgjunni að koma út en næ því ekki. Emma reynir því að tosa í naflastrenginn til að ná fylgjunni, sem mér fannst sársaukafyllsti hlutinn af fæðingunni. Það virkar ekki svo ég fer úr baðinu, geng inná bað með aðstoð Edythe, ætla reyna pissa í klósettið og ég réttnæ að setjast í sekúndu og stend svo aftur upp og þá dettur fylgjan niður í hendurnar á Edythe.

Ég mun aldrei gleyma hversu yndislega stund við áttum eftir fæðinguna í rúminu á fæðingarheimilinu með dýrindis veitingum og hvað Emma og Edythe reyndust okkur vel. Edythe aðstoði okkur mikið með brjóstagjöfina þar sem dóttir okkar átti í erfiðleikum með að leita eftir brjósti og aðstoði okkur við að gefa henni broddinn í skeið. Embla tók svo við aðstoð brjóstagjafar í heimaaðstoðinni, þar sem daman okkar var ansi löt við því að taka brjóst, og ég veit ekki hvað ég hefði gert án Emblu. Ég hefði eflaust ekki náð brjóstagjöfinni nema án Emblu. Ég og kærasti minn töluðum um ykkur þrjár, Emmu, Edythe og Emblu, sem engla í mannsmynd eftir fæðingu og heimaaðstoðina. Við erum ævinlega þakklát fyrir ykkur.

Ég upplifði mína draumafæðingu og þetta hefði ekki gengið svona vel án ykkar. Við erum ævinlega þakklát fyrir ykkur. Ég er svo hreykin af okkur öllum og hvað við stóðum okkur vel sem teymi til að þessa dásamlega og fallega stelpa gæti komið í heiminn með prýði. Þetta var magnað ferli sem ég mun aldrei gleyma.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir Fæðingarheimili Reykjavíkur og hversu dásamlegar Emma, Edythe og Embla voru með okkur í gegnum ferlið, ómetanlegt!

Takk fyrir allt.

Previous
Previous

Anda - slaka - treysta

Next
Next

Eitt af fallegustu augnablikum lífs okkar