Eitt af fallegustu augnablikum lífs okkar

Ég er spennt að deila með þér fæðingarsögunni minni því hún er alls ekki eins og ég hafði ímyndað mér hana. Það er þó oft þannig og ég vona að hún gefi þér innblástur til að hlusta á innsæið þitt þegar kemur að þinni fæðingu hvort sem þú ert að eiga þitt fyrsta barn og veist ekkert hvað þú ert búin að koma þér út í eða barn númer þrjú.

Því þó að meðgangan mín hafi verið “hefðbundin” meðganga og allt hafi gengið vel þá getur fæðing verið allskonar. Við áttum von á okkar fyrsta barni og náðum að undirbúa okkur vel, sem ég mæli mikið með. Við lásum bækur um börn og fæðingar ásamt því að taka námskeið eins og Faðir verður til, Fyrstu dagarnir og Hypnobirthing fæðingarnámskeiðið sem er allt í boði hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur og við gætum ekki mælt meira með. Það gaf manni svo góð tól og innsýn inn í fæðinguna, ásamt því sem tæki svo við. 

Það má segja að fæðingin mín hafi byrjað á fimmtudagskvöldi þann 9. nóvember en þá var ég komin 8 daga yfir settan dag. Ég var farin að fá nokkra samdrætti um kvöldið sem virtust svo bara hætta smám saman er ég fór að sofa. Svo á föstudeginum ákváðum við að taka góðan göngutúr til að koma blóðinu í gang og ég fór í bað til að slappa af og vonast til að eitthvað fari að gerast sem það svo vissulega gerði um 17:00 leytið.

Samdrættir voru ekkert sérstaklega kröftugir fyrst um sinn og voru með óreglulegu millibili. Smám saman fóru þeir að vera reglulegri með um tíu mínútna millibili og þá hringdum við í fæðingarheimilið til að láta vita að það væri kannski eitthvað að fara að gerast. Við fengum þær ráðleggingar að reyna að hvíla okkur og fara að sofa til að eiga orku seinna í fæðingunni. Samdrættirnir entust út alla nóttina og ég nýtti öll öndunarráðin sem ég hafði lært í Hypnobirthing námskeiðinu þá nótt og reyndi að gefa manninum mínum smá svefn. Hann tók þó vel eftir því næsta dag að ég væri illa sofin svo ég ákvað að fara í bað og hlusta á Hypnobirthing slökun til að ná að fá smá hvíld. Það var ótrúlega gott að fara í bað og hjálpaði það mikið við að takast á við verkina. 

Við vorum búin að vera dugleg að telja tímann á milli hríðanna og enn voru hríðarnar bara með um 10 mínútna millibili en þó alltaf að verða kröftugri. Mér fannst best að labba um frekar enn að liggja eða sitja svo eftir að hafa verið heima frekar lengi ákváðum við að taka rölt út í búð að kaupa okkur eitthvað að borða, þar sem við höfðum heyrt að það að skipta um umhverfi og labba gæti oft komið hlutunum meira í gang og vonuðumst við til að bilið á milli hríðanna færi að minnka.

Eftir að ekkert breyttist í 24 tíma frá föstudeginum hringdum við aftur upp á fæðingarheimili og fengum það ráð að kannski væri gott að fara uppá spítala að fá verkjalyf og sprautu til að pása hríðarnar svo ég gæti fengið smá hvíld. Þær bókuðu tíma fyrir okkur á Landspítalanum og eftir alveg góða 3ja tíma bið, með mjög slæmar hríðar, þá fékk ég sprautu og verkjalyf. Við fórum aftur heim og ég náði aðeins að sofa þá nótt eða í um 4 til 5 tíma. Þá byrjuðu hríðarnar aftur og nú ennþá kröftugri enn áður. Ég reyndi mitt besta að anda mig í gegnum þær og fá manninn minn til að ýta á móti við mjóbakið mitt er hver hríð kom, en þá allt í einu fékk ég hríð sem lét mig ýta líka. Þá vissi ég að eitthvað væri að gerast, ég fór á klósettið og fékk þá þessa svakalegu hríð sem fékk mig til að öskra enda var ég alveg pínu að streitast á móti rembingsþörfinni sem ég var að fá á þeim tímapunkti, því ég vissi ekki hvað væri í gangi.

Mamma mín hafði nefnilega sagt mér frá því að fæðingarnar hennar væru alltaf langar og ekkert gerðist í langan tima og var ég farin að vera hrædd um að það sama myndi gerast hjá mér, að ég myndi mæta upp á Fæðingarheimilið og væri bara ekki komin neitt á leið með útvíkunina en svo koma annað í ljós. Eftir þennan svaka verk hringjum við á Fæðingarheimilið og ég bið um að vera skoðuð til að meta hvað ég er komin langt með fæðinguna. Maðurinn minn var með eitthvað geggjað innsæi þann dag og ákveður að taka allt fæðingardótið með sér, matinn, bílstólinn og töskuna.


Er við komum á staðinn eru hríðarnar mjög sterkar en samt bara um 8 til 10 min á milli. Hún Halla skoðar mig og segir þá við mig mjög undrandi að ég sé komin með 10 í útvíkkun og þess vegna sé ég að fá þessa rembingsþörf, því ég er í raun tilbúin til að fæða. Það kemur okkur öllum svakalega á óvart þar sem hríðarnar voru aldrei með það stuttu millibili. Þá er látið renna í baðið og kallað á fleiri ljósmæður, en það tekur alveg um 40 mín að renna í þetta stóra bað. Maðurinn minn sækir dótið okkar og setur upp miðana sem við vorum búin að handmála með fallegum skilaboðum til mín ásamt playlista sem ég hefði búið til og verið að hlusta á síðustu daga. Ég fer úr fötunum og hríðarnar halda áfram af fullum krafti, en ég þurfti alltaf að fá einhvern til að þrýsta aftan á mjóbakið þegar hríðarnar komu.

Eftir nokkrar hríðar missi ég vatnið og ljósmæðurnar hafa smá áhyggjur þar sem legvatnið var grænt. Það er víst algengt þegar maður er komin framyfir settan dag en getur líka þýtt að barnið er undir álagi. Innst inni veit ég þó að allt sé í lagi en þetta er stundum ástæða til að senda konur á spítalann til að geta fylgst betur með barninu út fæðinguna. Ég stari á baðið og vona að ég fái að vera þarna áfram og fæða barnið mitt í baðinu þeirra eins og mig hefði dreymt um. Þær segja að þær munu leyfa mér að vera áfram og fylgjast vel með en ég verði þó að fæða fljótlega. Þetta olli mér alveg smá stressi þar sem mig langaði alls ekki að fara, baðið var ekki tilbúið og ég vissi ekkert hvað ég myndi vera lengi að fæða.

Ég byrja að ýta með hríðunum fyrir framan baðið og á klósettinu meðan það er að renna í baðið en innst inni langaði mig ekki að ýta of mikið því mig langaði ekki að fæða barnið mitt á klósettinu eða rétt fyrir framan baðið. Það var aftur smá óvissa rétt áður en ég ætti að fara í baðið en ég fékk að fara ofan í, sem ég er svo þakklát fyrir. Þá fyrst tók ég þessu alvarlega og var full af eldmóð því ég vildi alls ekki að þetta tæki of langan tíma og að ég þyrfti að fara á spítalann. Þannig að ég nýtti hverja hríð til að ýta með og koma þessu barni út, einhvern veginn fannst mér hríðarnar skárri í baðinu og maðurinn minn kom ofan í með mér og gat ég spyrnt við hendurnar hans er ég var að ýta og hafði hann hjá mér til að gefa mér styrk.

Ég prófaði nokkrar stellingar í baðinu en fannst best að snúa baki í manninn minn og halda í hendur hans en endaði svo á að fæða stelpuna okkar snúandi að manninum mínum og ljósmæðurnar hjálpuðu mér að taka sjálf á móti henni milli okkar og það var eitt af fallegustu augnablikum lífs okkar. Það kom mér svo á óvart hversu vakandi ég var og hríðarnar voru aldrei það þétt saman hjá mér. Einnig kom stelpan okkar rólega í heiminn og grét fyrst ekkert en tók stuttan grát til að láta vita að allt væri í lagi en svo varð allt hljótt aftur og hún var svo mikið með mér í augnablikinu. Ég fann alveg vel fyrir henni er hausinn var að koma út og þreifaði nokkrum sinnum til að taka stöðuna, hann kom nokkrum sinnum út og inn, þrýstingurinn var mikill en alls ekki sársaukafullt.

Tveimur tímum eftir að við komum á fæðingarheimilið kom stelpan okkar í heiminn klukkan 7:15 þann 12. nóvember, sem vildi svo fallega til að var líka feðradagurinn. Það kom alveg soldið af blóði þegar ég fæddi þar sem ég hafði rifið barmana aðeins, svo ég fór fljótt úr baðinu til að vera skoðuð og fæða fylgjuna.

Við fórum öll upp í rúm meðan við biðum eftir fylgjunni og stelpan okkar var súper þreytt eftir fæðinguna. Ég lét sauma mig strax meðan maðurinn minn fékk nokkrar mínútur með barninu okkar og eftir saumaskapinn fór hún strax að leita að brjóstinu. Ég reif aðeins barmana en ekki spöngina eða neitt annað og var saumuð í sama herbergi og nýja fjölskyldan mín sem var mjög næs. Einnig vissi ég ekki að fylgjan er skoðuð eftir að hún kemur út, sem var mjög áhugavert. Síðan fengum við að taka lítinn lúr með stelpunni okkar ásamt fallegum bakka af morgunmat. Stelpan okkar var svo vigtuð og klædd og við fórum heim um hádegið til að halda áfram að lúra og Embla frá Fæðingarheimilinu kíkti svo til okkar seinna um kvöldið sem var ótrúlega gott, því þá leið manni ekki eins og maður væri einn í þessu. Það sem tók við voru svo fallegar heimsóknir og fullt af lærdóm.

Previous
Previous

Eins og korktappi á kampavínsflösku

Next
Next

Algjör draumafæðing