Algjör draumafæðing

Þegar við Sölvi komumst að því að von væri á okkar öðru barni urðum við mjög spennt. Í einum af fyrstu mæðraverndartímunum spurði ljósmóðirin á heilsugæslunni okkur hvort við hefðum íhugað aðra fæðingarstaði en Landspítalann. Einar, sonur okkar, fæddist þar árið 2019 og sú fæðing gekk vel. Ljósmóðirin nefndi nýstofnað Fæðingarheimili Reykjavíkur (sem þá var ekki búið að opna). Okkur fannst það spennandi valkostur og samfellda þjónustan heillaði okkur mest. Við vorum þó óviss, af hverju að breyta um stað þar sem fyrri fæðingin gekk vel. Við ákváðum á endanum að bóka viðtal til að skoða Fæðingarheimilið og spjalla við ljósmóður þar. Ég átti að baki frekar strembna brjóstagjöf með Einar og var vongóð um að það gengi betur í þetta sinn, með stuðningi frá ljósmóður sem við hefðum kynnst betur.

Þann 11. október (þegar ég var gengin 28 vikur) fórum við í viðtal til að skoða Fæðingarheimilið. Okkur leist strax mjög vel á staðinn og hlýlegt andrúmsloftið. Mér leist sérstaklega vel á að verið væri að vinna í að fá glaðloft á staðinn - eitthvað sem ég nýtti mér mikið í fyrri fæðingu. Mér leist líka vel á stóru baðkörin en ég var dágóða stund í baði í fyrri fæðingu og átti mér draum um að fæða dóttur mína í baðinu. Við áttum erfitt með að ákveða okkur en eftir langan umhugsunarfrest ákváðum við að slá til.


Við 34 vikur fluttist mæðraverndin alfarið yfir á Fæðingarheimilið og ljósmæðurnar þar tóku við.  Í skoðuninni þegar ég var gengin 38 vikur fékk ég þær fréttir að glaðloftið yrði ekki komið í hús fyrir væntanlega fæðingu hjá mér. Það sló mig aðeins útaf laginu en svo hugsaði ég - „æ, þá fer ég bara niður á spítala ef allt fer á versta veg - það er allavega ekki langt að fara. En kannski get ég þetta alveg.“

Síðustu vikurnar fyrir settan dag var nóg að gera. Ég var sett 3. janúar og jól, áramót og allt tilheyrandi með 3 ára gutta gerði það að verkum að afslöppun var af skornum skammti og talsverðir samdrættir voru daglegt brauð. Títtnefndur sonur, Einar, fæddist einmitt á settum degi svo ég var smá stressuð hvenær ófædd systir hans myndi láta sjá sig. Ég var ekki mjög spennt fyrir því að eignast jóla-/áramótabarn og sjálf á ég afmæli 4. janúar og var til í að sú ófædda fengi sinn eigin dag.

Þann 3. janúar bólaði ekkert á barni svo við Sölvi mættum (í fyrsta sinn) í 40 vikna mæðravernd. Þar hittum við hana Edythe ljósmóður í fyrsta sinn og okkur leist afar vel á hana. Hún fór yfir hvað tæki við eftir 40 vikurnar og sagði að þær byðu upp á að hreyfa við belgnum við 41 viku ef ekkert væri farið að gerast. Hún kvaddi okkur með orðunum „það væri nú gaman að lenda með ykkur í fæðingu!“ og vá, sömuleiðis, hugsuðum við Sölvi.

Dagarnir liðu, ég fékk að eiga afmælisdaginn minn í friði og var áfram ólétt. Ég var jafnframt áfram með mikla samdrætti sama hversu lítið ég gerði. Að kvöldi laugardagsins 7.janúar horfðum við Sövi á næstsíðustu Harry Potter myndina (tókum maraþon yfir jól og áramót). Ég byrjaði að fá mikla samdrætti sem voru mjög reglulegir og ekki nema 3-4 mínútur á milli. Þarna varð ég fyrst spennt um að eitthvað færi nú loksins að gerast - en um 2 klukkustudum síðar datt allt í dúnalogn. Svekkt fór ég að sofa, orðin úrkula vonar um að ég færi sjálf af stað. Ég hugsaði með mér að ég myndi mæta í 41 vikna skoðun á mánudeginum 9. janúar og láta hreyfa við belgnum.

Daginn eftir, 8. janúar, áttum við fjölskyldan góðan kósý dag saman. Fórum í sund (þar sem ég synti nokkrar ferðir) og á bókasafn. Um kvöldið kláruðum við Sölvi síðustu Harry Potter myndina og síðan fór hann að sofa. Ég átti erfitt með að sofna á kvöldin undir lok meðgöngunngar svo ég var aðeins lengur frammi í sófa. Ég var að fara að skríða upp í rúm klukkan rúmlega 1 þegar Einar var skyndilega vaknaður. Ég gerði mitt besta til að svæfa hann aftur en það gekk ekki svo ég vakti Sölva sem tók við Einari og ég fór upp í rúm og steinsofnaði.

Klukkan 4.40 um nóttina (aðfaranótt 9. janúar) vaknaði ég við að ég var að missa vatnið. Ég leit til hliðar í rúminu en Sölvi var þá ennþá að reyna að svæfa Einar - sá hefur fundið á sér hvað væri í vændum! Ég kallaði í Sölva og þeir feðgar komu hlaupandi inn, báðir glaðvakandi og spenntir. Ég vildi ekkert vera að flýta mér að hringja í ljósmóður þar sem ég var ekki komin með neina reglulega verki og vissi að það gæti verið langt í fæðingu þó svo að vatnið væri farið. Ég fór í smá sturtu en ákvað svo að hringja í vaktsímann á Fæðingarheimilinu þar sem legvatnið var grænleitt á litinn, sem getur verið merki um að barninu liði ekki vel eða aukin hætta á sýkingu. Mér fannst smá óþægilegt að hringja svona um miðja nótt, og varla komin með verki, en var heldur betur glöð að heyra að Edythe var á vaktinni og svaraði símanum. Ég sagði henni stöðuna og reyndi að senda henni myndir af litnum á legvatninu. Ég hringdi síðan fljótlega í hana aftur þar sem ég var þá komin með nokkuð reglulega samdrætti. Við sammæltumst um að ég skyldi koma í skoðun á Fæðingarheimilinu sem fyrst, en hún hafði ekki áhyggjur af litnum á legvatninu að svo stöddu.

Við Sölvi gerum hlutina stundum svolítið á síðustu stundu og vorum náttúrlega ekki alveg með allt tilbúið frekar en fyrri daginn. Sölvi byrjaði á að koma vakandi og spenntum Einari fyrir í pössun hjá ömmu og afa. Hann kom svo við í búð á bakaleiðinni til að kaupa dömubindi handa mér, eitthvað sem ég hafði ekki gert ráð fyrir að þurfa að nota fyrir fæðingu. Á meðan henti ég nokkrum hlutum í tösku og reyndi að klæða mig, sem var smá erfitt því samdrættirnir voru nokkuð reglulegir þarna og aðeins byrjaðir að harðna. Þeir voru samt enn vel viðráðanlegir og mér leið vel á milli þeirra.

Við mættum upp á Fæðingarheimili rétt fyrir klukkan 6.30. Edythe tók á móti mér með stóru brosi og sagðist vera byrjuð að láta renna í baðið. Mér fannst það heldur brátt, ég var vissulega að fá reglulega samdrætti en ég andaði mig í gegnum þá með heitan bakstur við mjóbakið og þess á milli spjallaði ég og leið vel. En jæja. Hún mældi hjá mér hita og blóðþrýsting og fann góðar hreyfingar og hjartslátt hjá litlu í bumbu. Henni leist vel á allt og ég þurfti ekki að fara upp á spítala eins og ég hafði óttast útaf litnum á legvatninu.  Einnig bauð hún mér að athuga útvíkkun sem ég vildi endilega gera, þar sem ég gerði mér enga grein fyrir stöðunni. Útvíkkunin mædist 4-5 og hún ráðlagði mér að vera á fótum ef ég treysti mér, þar sem enn væri töluvert í kollinn. Ég var sátt við að heyra þetta og gekk um gólf á fæðingarstofunni meðan baðið var að fyllast. Hríðarnar urðu sterkari og ég þurfti að stoppa og virkilega anda mig í gegnum þær á meðan Sölvi kreisti á mér mjóbakið.

Um klukkan 7.30 var baðið loksins tilbúið (já, þetta er risa kar) og ég vildi drífa mig ofan í. „Eins gott að baðið hjálpi, því ég veit ekki hvort ég geti þetta mikið lengur,“ hugsaði ég... „en ég kemst hvort sem er aldrei upp úr þessu kari sjálf svo vonandi næ ég að klára þetta.“  Baðvatnið var heitt og gott, alveg eins og ég vildi hafa það. Það hjálpaði strax, en á þessu stigi fannst mér hríðarnar við það að verða óyfirstíganlegar. Ég vissi líka að þegar manni finnst þetta orðið óbærilega erfitt styttist oft í endann, en mér fannst nú allt of stuttur tími liðinn til að það gæti verið satt.

Eftir nokkrar mínútur í baðinu stundi ég upp „ég held ég þurfi að byrja að rembast“ þegar ég fann skyndilega fyrir mikilli rembingsþörf. Líkaminn tók yfir og ég byrjaði að rembast og Edythe og Embla voru allt í einu komnar inn í herbergið líka. Eftir örfáa rembinga fann ég hausinn koma. Svo kom fljótlega önnur hríð, dóttir mín var fædd og ég tók sjálf á móti henni í baðkarinu klukkan 7.58 á þessum yndislega mánudagsmorgni. Algjör draumafæðing sem ég hélt að ætti sér ekki stað í alvöru. Okkur leið svo vel á Fæðingarheimilinu, allt var svo heimilislegt og notalegt og gaf okkur öryggistilfinningu. Eftir fæðinguna fengum við yndislegan morgunmat og lögðum okkur áður en við héldum heim á leið.

Ekki var síðan verra að fá Emblu í heimaþjónustu fyrstu dagana, hún leiðbeindi okkur svo vel og var akkúrat það sem við þurftum. Brjóstagjöfin gekk lygilega vel (og gengur enn) og hún studdi okkur vel. Við kvöddum hana nánast með tárum þegar heimaþjónustunni lauk.

Við Sölvi erum svo ánægð að hafa ákveðið að þiggja þjónustu frá Fæðingarheimilinu og yndislegu ljósmæðrunum sem þar starfa.

Takk fyrir okkur.

Previous
Previous

Eitt af fallegustu augnablikum lífs okkar

Next
Next

“Eftir því sem ég kynnti mér þetta betur áttaði ég mig á því að konur eru bókstaflega gerðar til að fæða börn”