“Eftir því sem ég kynnti mér þetta betur áttaði ég mig á því að konur eru bókstaflega gerðar til að fæða börn”

Frá því ég man eftir mér hef ég alltaf hlakkað til að verða mamma. Ég kveið þó alltaf fyrir fæðingunni sjálfri, enda það eina sem maður lærði var að þetta væri versti sársauki sem hægt er að upplifa.

Þegar ég komst fyrst að því að ég væri ólétt var ég spennt en áhyggjufull. Ég fór fljótlega að kvíða fyrir fæðingunni, þessu hræðilega ferli sem “þyrfti” að ganga í gegnum til að fá barnið sitt í heiminn”. Ég var ákveðin í því að fæða á spítala þar sem allt væri til staðar, læknar, mænudeyfing og svo framvegis. Ég vildi sem minnst vita og sjá af þessu ferli. Bara “klára þetta af og deyfa sem mest” hugsaði ég.

Það sem kom mér mjög á óvart þegar ég sagði frá að ég væri ólétt er að fleiri en ein kona sagði við mig, þegar þær vissu að ég gengi með mitt fyrsta barn, að þær öfunduðu mig að eiga fæðinguna eftir og sögðu það vera það besta sem til væri. Ég hafði alltaf bara heyrt hryllingssögurnar af fæðingum og var bara viðbúin því versta.

Þegar líða fór á meðgönguna fékk ég meiri áhuga fyrir því að kynna mér meðgönguna og fæðinguna sjálfa betur. Ég hlustaði á mörg hlaðvörp og las heilan helling af greinum ásamt því að fylgja nokkrum aðgöngum á samfélagsmiðlum sem fræddu um þessi mál. Ég fór einnig í meðgöngujóga og stundaði það frá miðri meðgöngu til loka hennar. Upplýsingarnar sem ég aflaði mér ásamt meðgöngujóga opnaði augun mín betur og hjálpaði mér mikið að valdefla mig í gegnum meðgönguna. Því meira sem ég vissi áttaði ég mig betur á því að konur eru bókstaflega gerðar til að fæða börn. Öll erum við hér vegna þess að fæðing fór fram. Það sem ég lærði á meðgöngunni er að hugarfar, umhverfi, líðan og stuðningur ásamt góðum undirbúningi og fræðslu getur gert svo ótrúlega mikið fyrir framgang fæðingarinnar þegar að henni kemur. Ég er mjög fegin að hafa áttað mig á þessu tímalega og hafði því svigrúm til að ákveða hvar og hvernig fæðingu ég óskaði mér að eiga.

Því meira sem ég kynnti mér um fæðingar hreifst ég meira og meira af því að fæða náttúrulega. Án verkjastillandi lyfja og inngripa ef ég fengi kost á því. Ég ræddi þetta við ljósmóður mína og mældi hún með að ég kynnti mér aðra fæðingarstaði en spítalann til að sjá hvort að það myndi henta mér. Þegar ég sagði fjölskyldu og vinum frá þeirri hugmynd minni að fæða annars staðar en á spítalanum og án verkjastillandi lyfja fékk ég að heyra “úfff ertu nú alveg viss um það”, “nú hef ég áhyggjur, þú höndlar það ekki” og “þinn sársaukaþröskull er ekki nógu hár til þess elskan mín”. Auðvitað meina allir vel og vilja manni það besta en ég er rosalega fegin að hafa fylgt mínu eigin innsæi og ekki hlustað á hvað aðrir höfðu að segja.

Ég hafði samband við Fæðingarheimili Reykjavíkur þegar ég var komin um 6 mánuði á leið. Þá hafði heimilið ekki enn verið opnað en það átti að opna í september og ég var sett í lok september. Okkur var því sagt að mögulega gætum við ekki fætt hjá þeim en var okkur boðið að þiggja þjónustu þeirra fyrir og eftir fæðinguna ef svo skyldi verða að ekki myndi nást að opna fyrir fæðinguna.

Ég ákvað að þiggja heimsókn ljósmóður frá Fæðingarheimilinu sem kom heim til okkar. Um leið og Emma steig inn um dyrnar heima hjá okkur “slaknaði alveg á öxlum okkar” eins og maðurinn minn orðaði það. Nærveran var svo góð og fagmannleikinn og vitneskjan skein í gegn. Við urðum strax yfir okkur hrifin af þeirri þjónustu sem Fæðingarheimili Reykjavíkur bauð upp á og var Emma varla farin frá okkur þegar við sendum inn staðfestingu á að þiggja þeirra þjónustu.

Frá 34. viku og restina af meðgöngunni minni var ég í þeirra umsjá. Ljósmæðurnar komu heim til okkar þar sem að Fæðingarheimilið var ekki búið að opna ennþá og það fannst okkur alveg frábært. Þjónustan sem þær veittu mér var frábær í alla staði, þær voru alltaf til taks en yndislegri konur er vart hægt að finna. Þegar leið undir lok meðgöngunnar var Fæðingarheimilið opnað en enn vantaði leyfi um að fæðingar mættu eiga sér stað. Ég fékk því að sjá herbergið sem ég myndi mögulega fæða í fyrirfram og eyddi ágætum tíma þar í skoðunum og nálastungum. Það hjálpaði mér gríðarlega mikið þegar að fæðingunni kom því ég kannaðist við mig og hafði góða tilfinningu fyrir herberginu.

Frá um 37. viku byrjaði ég að fá verki, eins og væga túrverki sem komu og fóru. Ég hélt að ég væri að fara af stað, en allt kom fyrir ekki og voru þessi verkir viðvarandi af og til alveg þar til ég átti á 40 viku + 5 daga. Ég vissi af fyrirvaraverkjum og samdráttum en ekki svona verkjum sem voru í næstum 4 vikur. Ég var mjög þreytt á þessum tíma, svaf illa og var verkjuð dag eftir dag en aldrei fór ferlinu fram. Ljósmæðurnar á Fæðingarheimilinu voru mér yndislegar á þessum tíma, voru mér alltaf til taks, hughreystu mig og buðu mér nálastungur sem hjálpuðu mikið.

Á þessum tíma hafði ég einnig áhyggjur af því að leyfið væri ekki komið og kveið ég fyrir því að geta mögulega ekki fætt hjá þeim. Á miðvikudegi í lok september 2022 fékk ég svo þau frábæru skilaboð að leyfið væri komið. Ég man að ég var svo rosalega fegin og ánægð að heyra það. Það sama kvöld byrjuðu öðruvísi og kröftugri verkir að gera vart við sig. Það var eins og líkaminn væri að “halda í sér” og um leið og leyfið kom byrjuðu hlutirnir að gerast. Dóttir mín fæddist á laugardagsmorguninn 1. október. Frá miðvikudeginum þar áður var ég með mikla verki, þó óreglulega. Þetta gerði það að verkum að ég svaf lítið sem ekkert frá miðvikudegi til laugardags. Ljósmæðurnar buðu mér að koma til þeirra á fimmtudagskvöldið og þær skoðuðu mig og reyndu ýmiss konar brögð til að fá mig af stað, þær héldu að höfuð barnins væri örlítið skakkt sem gerði það að verkum að líkaminn væri tilbúinn en ferlið þróaðist ekki áfram vegna þess að barnið væri skakkt/fast. Næsta dag ákvað ég að reyna að fá tíma hjá kírópraktor af því að ég hafði heyrt að þeir aðilar geti hjálpað að koma ferlinu af stað við þessar aðstæður. Í símtali þangað var mér sagt að það sé laus tími “núna” og hvort ég vilji hann. Þetta fannst mér alveg ótrúleg tilviljun. Ég dreif mig af stað og var mætt um 15 mínútum seinna til kírópraktors sem sagðist finna að ég væri stífari öðru megin í bakinu. Hann reyndi að losa um það og sagði mér að koma aftur eftir helgi ef ekkert myndi gerast. 

Um tveimur klukkutímum eftir að ég kom heim frá kírópraktornum byrjuðu verkirnir að aukast og koma með styttra millibili en áður. Um klukkan 15 hringdi ég í manninn minn og bað hann um að koma heim úr vinnunni. Þennan dag eins og fyrri daga var ég í sambandi við ljósmæður Fæðingarheimilisins og lét þær vita um gang mála. Þær tjáðu mér að núna væri mögulega eitthvað að fara að gerast og var okkur ráðlagt að koma þegar verkirnir væru orðnir reglulegir með stuttu millibili. Föstudagurinn hjá okkur foreldrunum snerist um að taka tímann á milli hríða, anda í gegnum þær og slaka á. Ég eyddi miklum hluta seinnipart dags í sturtunni heima þar sem ég lét heitt vatnið hitta beint á mjóbakið þar sem verkirnir voru verstir. Það hjálpaði mér mjög mikið.

Um klukkan 22:30 um kvöldið voru verkirnir orðnir reglulegir og stutt á milli þeirra. Við ákváðum því að tími væri kominn að fara af stað. Við vorum komin á Fæðingarheimilið um klukkan 23 þetta föstudagskvöld. Þegar við komum á Fæðingarheimilið tók Embla ljósmóðir á móti okkur, en áberandi þótti mér hversu góð ára/andrúmsloft var á heimilinu þetta kvöld. Embla fór með okkur inn í herbergið sem ég þekkti svo vel og leið vel í. Hún var búin að dimma ljósin, kveikja á kertum og það var að renna í baðið. Ég var mjög ánægð að Embla væri á vakt þetta kvöld. Hún hafði verið með mér í gegnum verki fyrri vikna og gefið mér nálastungurnar og þekkti mig vel og vissi hvað ég vildi og vildi ekki. Við fyrstu skoðun var ég aðeins komin 2 í útvíkkun. Ég var fyrirfram búin að ákveða það að horfa jákvætt á ferlið og leyfa því að þróast eins og því var ætlað. Ég var því ekki svekkt yfir þessu og horfði jákvætt áfram. Í herberginu við hliðina á okkur var önnur fæðing í gangi og sú var komin lengra en okkar. Þar að leiðandi var mikið að gera, en það sem mér þykir svo vænt um er að við vorum ekki send heim þó við værum komin svona stutt í ferlinu, heldur fengum að vera í ró og næði í herberginu okkar. 

Eftir smá tíma í baðinu bað ég um nálastungu í mjóbakið. Ásamt því fengum við skál með klökum og vatni og klút sem maðurinn minn hélt við ennið á mér við hverja hríð. Þessir tveir hlutir hjálpuðu mér mjög mikið í gegnum alla fæðinguna. Eftir nokkurn tíma og nokkrar skoðanir fékk ég mikla rembingsþörf. Ég var þá komin 8 í útvíkkun. Embla sagði mér þá að fylgja mínu innsæi og mínum líkama og hófst þá rembingurinn. Um hálftíma seinna við næstu skoðun var ég komin með 10 í útvíkkun. Útvíkkunartímabilið kláraðist um klukkan 6 um morguninn.

Á þessum tímapunkti hafði ég eytt mestum tíma næturinnar í baðinu. Ég rembdist og rembdist en ekkert gerðist. Mér var því ráðlagt að prófa að koma upp úr sem ég gerði. Ég prófaði allar mögulegar stellingar og leyfði líkamanum alveg að stjórna. Ég tók öllum uppástungum en ekkert gerðist. Barnið var enn á sínum stað og hreyfðist varla. Þremur tímum eftir að ég byrjaði að rembast var belgurinn sprengdur og vatnið fór. Á þessum tímapunkti var ég orðin ansi þreytt en á einhvern ótrúlegan hátt náði ég að halda mér jákvæðri. Ég fékk aldrei tilfinningu um uppgjöf eða fannst verkurinn vera óbærilegur. Þar tel ég að undirbúningur, öndun og stuðningur hafi skipt lykilmáli. Á þessum tímapunkti hafði þó maðurinn minn áhyggjur af mér, en Emma ræddi við hann í einrúmi og hughreysti.

Hlutirnir fóru svo að gerast þegar ljósmæðurnar stungu upp á því að ég myndi leggjast í rúmið á bakið og toga í reipi. Þá hélt ein ljósmóðir í einn fótinn á mér, maðurinn minn í hinn og önnur ljósmóðir hélt í reipi fyrir framan mig og þegar hríðin kom togaði hún af öllum krafti í reipið og ég á móti. Þá var mér einnig leiðbeint hvernig ég átti að rembast “rétt“. Ekki vissi ég að það væri svona flókið að rembast, það hafði engin nefnt það áður. Það eina sem ég heyrði var “þung í rassinn og ýta ýta ýta”.

Þegar hausinn byrjaði að koma vissi ég ekki að maður myndi ýta og ýta og á milli hríða færi hausinn aftur inn. Í næstu hríð myndi hann svo alltaf koma aðeins og aðeins lengra út en fara svo aftur inn. Ég man eftir gríðarlegum þrýsting á þessum tímapunkti sem slaknaði svo á þegar hausinn var farinn aftur inn. Þá fékk ég örlítinn tíma til að anda fyrir næstu hríð. Þegar hausinn var svo kominn um hálfa leið út hætti hann að fara inn á milli hríða. Þetta tímabil fannst mér það versta í öllu ferlinu. "The ring of fire" eins og það er kallað. Þá er gríðarlegur þrýstingur og mikill sviði á milli hríða en forðast á að ýta þegar ekki er hríð til að minnka líkur á að rifna. Vá hvað ég var fegin að finna næstu hríð koma á þessum tímapunkti. Þetta tímabil varði sem betur fer stutt eða um tvær hríðar. Eftir það fann ég restina af hausnum koma út en hríðin var búin, þá var ég ekki viss hvað ég ætti að gera og man ég að ég spurði ljósmæðurnar hvort ég ætti að ýta áfram.

Ég man svo sterkt eftir því að Embla ljósmóðir sagði “já ýttu bara, hún er að koma”, þá ýtti ég með öllum mínum kröftum sem ég átti eftir og við það kom hún.

Eftir um fimm klukkutíma rembing fæddist dóttir mín. Að fá hana í fangið var það skrítnasta en magnaðasta sem ég hef upplifað. Hún var heit og blaut og grét og grét. Ég man líka hvað ég var spennt að sjá hana, að þetta væri loksins augnablikið sem ég fengi að sjá hana. Það tók mig smá tíma að átta mig á að hún væri okkar og bara okkar, að ég hafi búið hana til og að hún væri sú sem væri búin að vera með mér í allan þennan tíma.

Þegar hún var komin fann ég rosalegan slaka koma yfir mig og ég man að það var svo gott að losna við þrýstinginn. Þá fyrst varð ég rosalega meyr. Ég hugsaði um allt sem var sagt við mig um að ég gæti þetta ekki án verkjastillandi lyfja og fylltist svo miklu stolti á sjálfri mér. Þetta var svo valdeflandi upplifun sem ég mun lifa á restina af lífinu. Ég man eftir að ég nefndi þetta við ljósmæðurnar, að ég væri svo stolt af mér að hafa klárað þetta. Ég sá að þær voru báðar mjög meyrar að heyra mig segja þetta. Þetta er það sem þær standa fyrir, hafa ástríðu fyrir og vilja fyrir allar konur og þarna hafði þeim tekist að valdefla, hughreysta og koma konu í gegnum náttúrulega og fallega fæðingu. Þessi minning lifir sterkt í mér og sýndi mér hversu yndislegar og magnaðar ljósmæðurnar á Fæðingarheimili Reykjavíkur eru.

Ferlið í kjölfar fæðingar þ.e. heimavitjanirnar frá Hafrósu og brjóstagjafaráðgjöfin frá Edythe var yndisleg í alla staði. Eftir að síðustu heimavitjuninni lauk fann ég fyrir miklum söknuði. Söknuði að þessu tímabili með þeim væri lokið. Ég hef nokkrum sinnum heimsótt Fæðingarheimilið eftir fæðinguna og alltaf fengið yndislegar móttökur frá þeim.

Ég mæli með fyrir allar konur sem hafa kost á að fæða barnið sitt annars staðar en á spítala að kynna sér þjónustu Fæðingarheimilis Reykjavíkur. Ég hef sagt öllum mínum nákomnum frá þjónustu þeirra og gæti ekki dásamað þær meira.

Ef ég verð svo heppin að eignast fleiri börn og ég hef kost á því, hlakka ég svo sannarlega til að fæða aftur hjá þeim.

Previous
Previous

Algjör draumafæðing

Next
Next

“Síðan skein sól”- Fæðing og fyrstu dagarnir okkar með Emilíu Sól