Ég hugsa að ég muni lifa á þessu augnabliki til æviloka!

Árið 2018 varð ég loksins ólétt eftir að hafa komist að því að frjósemi er ekki hluti af mínum styrkleikum. Aðdragandinn að þunguninni var lengri en ég hefði kosið enda ekki þolinmóðasta manneskja jarðríkis. Það þarf helst allt að gerast í gær og af krafti þegar ég er annars vegar. Það er kannski ekki hægt að segja að þetta hafi verið langt ferli en jú, eitt ár án getnaðarvarna og 9 mánuðir á hormónalyfjum og egglosprófum ofan á það. Blessunarlega sluppum við hjónin við að þurfa frekari aðstoð þar sem ég fékk loksins egglos daginn eftir að læknirinn minn benti mér á að nú væri kominn tími til að panta tíma hjá Livio. 

Meðgangan byrjaði brösulega. Það var mikið um blæðingar og erfitt var að staðfesta hvort ég væri að missa fóstur eða hvað raunverulega væri í gangi. Heimsóknir mínar inn á kvennadeild LSH voru afar tíðar. Eftir að fyrstu 12 vikurnar kláruðust fór að ganga ágætlega. Ég fékk fljótlega staðfest að ég ætti von á dreng. Það var lítið um verki, ég gat æft mikið og gert allt sem ég vildi þangað til á ca 30. viku en þá byrjaði að safnast upp mikill bjúgur. Svo mikill að röddin mín breyttist, andlitsfall breyttist og ég var tilfinningalaus frá olnboga og niður í fingurgóma frá 32. viku. 

Þegar líða fór á meðgönguna var ég staðráðin í því að fæða drenginn minn í samfelldri þjónustu og valdi mér fæðingarstað út frá því. Eins og svo margt annað á þessari meðgöngu gekk þessi áætlun ekki eftir. Ört eftirlit og heildstæð þjónusta ljósmæðranna sem fylgdu mér eftir - bæði utan spítalans og innan - björguðu lífi okkar mæðgina. Nú hefst nokkuð dramatísk frásögn sem kann að hafa triggerandi áhrif á lesendur en ég hvet ykkur til að klára alla frásögnina. Því hún endar svo dásamlega vel!

Það var margt skrítið að gerast í líkamanum mínum. Ég hafði ekki reynslu eða samanburð af annarri meðgöngu en maðurinn minn var farinn að hafa verulegar áhyggjur af mér. Ég var nokkuð sannfærð um að bjúgurinn sem ég var að glíma við væri eðlilegur - enda oft talað um að konur fái bjúg á meðgöngu. En svo reyndist ekki vera. Þær sem sinntu mér voru sammála manninum mínum um að ég þyrfti örara eftirlit. Blóðþrýstingur hækkaði lítillega á þessum tíma og örlítið prótínmagn var farið að finnast í þvagi. Ég var því send í frekari rannsóknir á LSH. 

Þetta eftirlit á LSH endaði að lokum með innlögn vegna meðgöngueitrunar og gangsetningu. Drengurinn minn fæddist á þorláksmessu eftir heldur brösulega fæðingu. Ég punktaði hjá mér eftirfarandi pistil aðfaranótt aðfangadags - eftir að ég vakna úr svæfingu:

Allt er gott sem endar vel. Litli maðurinn mætti í heiminn 23. des kl 22:21, hann hefur enn ekki verið lengdar mældur en hann vó 15 merkur við fæðingu. Hann mun dvelja á vökudeild eitthvað áfram og ég verð áfram inn á kvennadeild, fer vonandi heim fyrir áramót en ólíklega á hátíðardögunum.

Eftir innlögn 20. des sl fengum við loksins að hefja gangsetningu laugardaginn 22 des kl 15:00. Gangsetning fer þannig fram að gefin er ein tafla á tveggja tíma fresti, en þó aðeins ákveðið margar töflur á hverjum sólarhring. Planið var að fá lyfin kl 15, 17, 19, 21, 23 og 01 um nóttina og taka þá pásu, ferlið getur tekið langan tíma og gert er ráð fyrir ca sólarhring áður en fæðing fer af stað.

Við kláruðum skammtinn fyrir laugardaginn og áttum að hvílast vel en ég fékk strax mjög miklar, öflugar en stuttar hríðir sem var aðeins 1 mínúta á milli. Svo að ég gæti hvílst yfir nóttina var ákveðið að gefa mér morfín sprautu í lærið (guð minn góður, maðurinn sem fann upp á morfíni er á top 10 lista yfir uppáhalds snillinga).

Hvíldin var þó ekki löng þar sem ég missti vatnið kl 03:00 um nóttina og “eðlilegt” fæðingarferli tók við af þessum inngripum. Hríðarnar ágerðust og urðu strax um morguninn mjög reglulegar og glaðloftið varð besti vinur minn. Blóðþrýstingurinn var samt að stríða mér svo mér var ráðlagt að fá mænurótardeyfingu. Það tók óra tíma að koma henni fyrir þar sem stutt var á milli hríða.

Ég kláraði útvíkkun og ákveðið var að hefja rembing. Kl 19:20 23. des, rembingurinn gekk vel framan af en erfitt var að fylgjast með barninu þar sem mónitorinn náði ekki sambandi við strákinn, svo þá var ákveðið að setja electroðu á höfuðið á barninu.

Orkan mín kláraðist alveg í rembingnum. Ég kastaði mikið upp, hjartslátturinn hjá stráknum fór upp úr öllu valdi svo það var gerð smá pása á átökunum á meðan ég fékk tæpa tvo lítra af vökva í æð. Eftir það var hafist handa aftur, þangað til ekkert var eftir. Strákurinn sat fastur í framhöfuðstöðu (eitthvað sem hafði ekki verið vitað þrátt fyrir ómskoðun á meðan vökvinn var gefinn) og eftir 3 klst af rembing (kl 22:00 23. des) var ákveðið að setja upp sogklukku.

Herbergið gjörsamlega fylltist af fólki, 6 aðrir sérfræðingar við ljósuna bættust í hópinn.

Eftir nokkra kröftuga drætti í klukkuna verður hins vegar panik á stofunni og neyðarbjöllunni hringt og ég heyri bara sérfræðingana segja að það þurfi keisara NÚNA!

Þetta var sjúklega óþægilegt, öllu kastað til á stofunni, og hlaupið með mig (grínlaust eins og í ER) inn á skurðstofu í rúminu og 7 manns að koma mér á milli. Mamma og Hrói vissu ekki neitt og ég heyri þau bara fara í sjokk, ég vissi ekkert hvernig barnið hefði það þar sem það þurfti að taka electroðuna úr höfði þess í klukkudráttunum og reyna að finna samband með öðrum mónitor.

Það er um það bil verið að koma mér fyrir á skurðborðinu þegar að ég heyri að hjartslátturinn hans sé í lagi, ég rétt næ að líta á klukkuna og sé að hún er 22:07, þá er búið að koma á mig hárneti, setja upp þriðja þvaglegginn sl sólarhring, bæta við nokkrum æðaleggjum til viðbótar og súrefnisgríman komin á. Ljósan strýkur á mér höfuðið og segir “þú ert í góðum höndum” ég spyr til baka “hvenær fæ ég að sjá barnið, hvert fer hann? Hvenær fæ ég að vakna?” Hún rétt nær að svara því áður en ég sofna og tjáir mér að hann fari til pabba síns og svo á vökudeild og ég vakni líklega eftir 2 klst.

Strákurinn kom í heiminn kl 22:21 eins og ég sagði hér að ofan, ég var vakin kl 02:00 á gjörgæslunni, grínlaust það var yndislegt að vakna við frænku sína sem var á vakt segja “Gulla mín, til hamingju”, þótt ég væri gjörsamlega út úr heiminum þá vissi ég að það yrði í lagi.

Kl 03:00 í nótt fékk ég LOKSINS molann minn í fangið! Ég get ekki lýst tilfinningunni yfir því að fá hann í hendurnar og finna hann róast niður og sofna. Hann er það fallegasta í heiminum! Það var rosalega erfitt að leggja hann frá sér aftur inn á vökudeild en hann er bjúgaður (eins og mamman) á höfðinu eftir öll klukku átökin og þær vilja fylgjast með því.

Ég verð sjálf eitthvað lengur undir eftirliti en í ljós kom að fylgjan var verulega illa farin þrátt fyrir ekki fulla (39+4 vikna) meðgöngu. Hliðin sem sneri að barninu var í lagi en sú sem sneri að mér var öll í stórum kalkblettum og eins hrjúf og sandpappír. Það kom einnig í ljós í keisaranum að legið var orðið verulega þreytt og er það sennilega enn.

Ég er ennþá á mjög sterkum verkjalyfjum og verð það líklega eitthvað áfram.

Þetta er augljóslega mikið sjokk fyrir okkur öll, en ég get fullyrt það að besta jólagjöfin var að fá molann minn í fangið í nótt.

Ég veit að það er spennandi að hafa samband við okkur en við erum öll mjög þreytt og munum nýta næstu daga í að safna kröftum aftur. Ég bið ykkur að stilla símhringingar í hóf, allavega fram yfir áramót, við ætlum bara að fá okkar allra nánustu til okkar og sinna samskiptum við þau.

Ég veit ekki alveg ennþá hvernig ég náði að skrifa þetta allt niður beint eftir svæfingu. En þegar ég punktaði þetta niður vissi ég að þetta yrði mikilvægur partur af minni úrvinnslu eftir þetta áfall. Það skrítna var samt að sjokkið vegna fæðingarinnar var í raun ekki komið á þessum tímapunkti. Mér hafði liðið vel alla fæðinguna alveg þangað til allt fer í uppnám og ég er svæfð á innan við 10 mínútum frá neyðarhringingu. 

Þótt áfallið hafi verið mikið í tengslum við fæðinguna er það samt staðreynd að allar þær ákvarðanir sem voru teknar í öllu þessu ferli, frá síðustu snertingu við mína ljósmóður í meðgönguvernd og þangað til ég vakna úr svæfingu, voru réttar miðað við þær forsendur sem voru til staðar hverju sinni. Það er því ekki við neinn að sakast þar sem engin raunveruleg mistök voru gerð og fagfólkið augljóslega vel þjálfað í að bregðast við á réttri stundu. 

Atburðarásin frá því að ég vakna úr svæfingu inn á gjörgæslu, því vöknun var lokuð, og þangað til ég fór inn á sængurlegudeild hafði mun meiri áhrif á mig en ég gerði mér grein fyrir. Þegar mér er rúllað inn á Vökudeild í sjúkrarúmi horfi ég á hvern hitakassann á eftir öðrum, þetta varð til þess að ég endaði á að spyrja “hvaða barn á ég?” Eitthvað sem engin móðir ætti að þurfa að gera. Ég fæ strákinn í stutta stund í fangið, hann var tengdur við fullt af snúrum og mælum, helblár á höfði, kominn í bleyju, krumpaður og þurr. Eftir smá tengingu við hann er mér sagt að nú sé kominn tími fyrir mig til að hvílast, strákurinn fer aftur í hitakassa og mér er rúllað í burtu.

Ég var illa á mig komin eftir fæðinguna, samkvæmt aðgerðarskýrslu missti ég um 2000ml af blóði í keisaranum og legið rifnaði frá skurði og niður að leghálsi. Strákurinn þurfti töluverða aðstoð á þessum fyrstu stundum lífsins. Hann var ekki súr miða við naflastrengs blóðprufu en tæpt var það. Hann fæddist með 2 í einkunn á APGAR en þau stig fékk hann fyrir hjartslátt. Hann braggaðist hratt en var í eftirliti á Vökudeild í nokkra daga, mjög slappur og þreyttur eftir öll átökin. Ég hafði sjálf ekki hugmynd um stóran hluta af þessari atburðarás fyrr en nokkrum dögum eftir fæðinguna, þann 27. desember nánar tiltekið en þá vorum við útskrifuð af spítalanum. Líkamlega var ég það illa á mig komin eftir þessa fæðingu að ég gat ekki sest upp, staðið upp, gengið, farið á klósettið, skipt um bindi eða baðað mig án aðstoðar. Hvað þá sótt soninn ofan í nýbura vögguna á spítalanum.

Tilfinningarnar hrúguðust upp í kjölfar útskriftar af spítalanum. Hvað ef ég hefði verið amma mín? Hefði ég þá dáið? Hvaða þjónusta hefði verið í boði fyrir hana? Hversu tæpt var þetta allt saman? Hvað þýðir að fæðast með 2 í einkunn á APGAR skalanum? Var ég með rétt barn í höndunum? Ég hafði jú þurft að spyrja hvaða barn ég ætti þegar mér var rúllað inn á Vökudeild… Var ég raunverulega kona eftir þessa fæðingu?  

Heimaþjónustan frá ljósmæðrum sem ég fékk vegna uppáskrifaðrar undanþágu barnalæknis fór að miklu leyti í sálgæslu og eftirlit með skurðsvæði og höfði barnsins. Hann fékk sýkingu í höfuðið eftir electroðuna sem hafði verið sett í hann í fæðingunni og ég endaði með þvagfærasýkingu. Ofan á þetta voru daglegar athafnir óbærilegar fyrsta mánuðinn og mér þykir enn undravert að maðurinn minn hafi gifst mér eftir þetta allt saman! 

Til að varpa ljósi á andlegt ástand mitt á þessum tíma þá laug maðurinn minn því að mér í 9 mánuði að ég hefði alls ekki kúkað í fæðingunni - einfaldlega vegna þess að hann gat ekki lagt þá staðreynd á mig ofan á allt annað, en ég gjörsamlega skeit á mig. Mamma þurfti á sama tíma að biðja mig vinsamlegast um að vera í fötum - pabba þætti heldur óþæginlegt að hitta mig alltaf nakta. Sjálfið var bara algjörlega farið. 

Við tóku ótal tímar hjá sálfræðingum, heimsókn til ljáðu mér eyra og önnur úrvinnsla á þessu áfalli. Ég fékk meðal annars fund með starfsfólki spítalans þar sem farið var yfir alla verkferla með mér og útskýrt skref fyrir skref hvernig þau væru handviss um að ég hefði farið heim með rétt barn.

En samt, einhvern veginn, sat þetta ennþá í mér. Eins og maðurinn minn hefur sagt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þá hefðu flestir bókað sér auka tíma hjá sálfræðingi í 1-2 mánuði, jafnvel hálft ár. En ég fór aðra leið og tók U-beygju í meistaranáminu mínu í lýðheilsuvísindum sem ég lagði stund á á þessum tíma. Ég vissi í raun ekki alveg hvað ég var að fara út í, en ég ákvað að slá út af borðinu alla þá vinnu sem ég hafði þegar lagt í rannsóknaráætlanir og umsóknir hjá Vísindasiðanefnd og tala við Emmu Swift, ljósmóður og lektor við Háskóla Íslands. Gæti ég ekki rannsakað heimaþjónustu ljósmæðra frekar? Kynnt mér þessi gríðarlega mikilvægu störf frá A-Ö. Hvað er í gangi hér á landi? Hvernig er þetta annars staðar í heiminum og komist að því hvað er verið að gera?

Og jú, úr þessu varð rúmlega árs vinna í rannsókn á heimaþjónustu ljósmæðra á Íslandi!
Sem var í raun minn stærsti hluti af úrvinnslu eftir þetta áfall. Ritrýnd grein birtist í Ljósmæðrablaðinu í desember 2021 úr þessari rannsókn. 

Áramótin koma og við hefjum árið 2022 á einangrun vegna covid - eins og svo margir aðrir. Janúar klárast og mér var farið að líða eitthvað skringilega í byrjun febrúar. Merkilegt nokk þá var ég orðin ólétt! Eitthvað sem ég var sannfærð um að ég þyrfti aðstoð við vegna fyrri reynslu. En nei, aldeilis ekki í þetta skiptið! 

Við tóku nokkrar vikur af fötu- og salernis faðmlögum. Ég ætlaði eins mikið og ég gæti að halda í heilbrigðan lífstíl þessa meðgönguna en aðaluppistaðan í fæðunni reyndist samt vera Ritz kex og svali. Engu öðru kom ég niður. 

Um 14 vikurnar var mér farið að líða bærilega aftur, auðvelt að nærast á ný og allt aðeins auðveldara. Töluvert meiri togverkir en á fyrri meðgöngu, keisara örið aðeins að minna á sig og samgróningarnir sem því fylgja. Ég fékk staðfest að ég ætti von á stúlku í þetta skiptið. Heilt yfir gekk meðgangan bara vel. Ég var reyndar rétt yfir einhverjum viðmiðum með blóðsykurinn og fékk því klíníska greiningu á meðgöngusykursýki. Henni var vel stjórnað með mataræði.

Í þetta sinn vissi ég að ég myndi fæða barnið á LSH þar sem ég hafði farið í keisara á síðustu meðgöngu. Ég var því frekar róleg yfir meðgöngusykursýkinni sjálfri, en þótti aðallega erfitt að greiningin sem slík getur haft áhrif á möguleikana til að fara sjálf af stað í fæðingu gangi maður langt fram yfir settan dag. Ég fékk aðeins verki í grindina þegar líða fór á meðgönguna og fékk aðstoð sjúkraþjálfara við að vinna á því. Grindarverkirnir voru samt algjör hátíð við hliðina á bjúgnum sem ég hafði upplifað áður. Ég upplifði mig því mjög heilbrigða á þessari meðgöngu! 

Ég hafði bæði hitt fæðingarlækni á heilsugæslunni tvisvar á meðgöngunni og rætt við mínar ljósmæður á heilsugæslunni að mig langaði að reyna leggangafæðingu í þetta skiptið. Það var þó undirliggjandi hræðsla til staðar. Hræðsla sem snéri að því að upplifa fyrri fæðingu aftur eða verri. Þótt verri fæðing hefði í raun verið með þá niðurstöðu að annað okkar hefði ekki haft fæðinguna af. Ég ræddi þessa hræðslu opinskátt við alla þá sem komu að meðgöngunni. Að endingu var merkt inn í Sögukerfið mína helstu ósk - að móðir fengi barnið fyrst í fangið óháð fæðingaraðferð. 

Upp úr 36. viku fór ég að finna fyrir reglulegum samdráttum á kvöldin. Mér fannst það alveg magnað fyrirbæri. Ég hafði að einhverju leyti efast um að líkaminn minn vissi hvernig hann ætti að framkalla fæðingu svona miðað við fyrri reynslu. Ég tók hverjum samdrætti fagnandi og æfði mig að taka tímann á milli þeirra. Þetta kann kannski að hljóma fáránlega en ég var svo ánægð að fá að upplifa einhverja verki - þeir höfðu ekki verið til staðar á fyrri meðgöngu.

Þessar loka vikur gengu vel, ég náði að fylla 40 vikurnar. En þegar þrír dagar voru liðnir frá settum degi var mér farið að líða illa - ég kannaðist við tilfinninguna og það helltist yfir mig hræðslan, mér leið eins og ég væri komin með meðgöngueitrun. Og jú, það reyndist rétt. Aftur greindist prótín í þvagi og hækkuð gildi í blóði. Stúlkan stóð sig þó vel í gegnum allt saman. Ég fékk svigrúm til að fara heim en mæta í daglegt eftirlit. Mögulega ætti ég að fara í gangsetningu á næstunni en það færi eftir stöðu deildarinnar. Daginn eftir hitti ég fæðingalækni á LSH sem skoðaði mig, ég sló á létta strengi og sagðist sjá smá eftir því að hafa ekki valið að fara í keisara fæðingu í þetta skiptið - vitandi að það var keisara dagur á spítalanum. Hún brosti til mín og sagði að staðan væri samt þannig að álag deildarinnar hefði verið svo mikið að öllum val keisurum hefði verið aflýst í dag. Mér fannst á þessum tímapunkti ég hafa unnið smá í lottói. Læknirinn hreyfði að lokum við belgjum og sagði mér að fara heim og hvílast, borða vel og hossa mér á bolta - ég myndi þá kannski fara af stað fyrir gangsetningu sem ég ætti tíma í morguninn eftir. Dagurinn leið, ég fer í góða sturtu og fer að sofa um kvöldið. Þegar ég vakna morguninn eftir fer ég á fætur og hugsa “andskotinn, ég er gengin 40+6 og ég er enn ólétt!”...

Ég fer fram úr og fer að pissa… Og þá verð ég vör við samdrætti… Aaaaaaðeins meiri samdrætti en ég hafði upplifað öll kvöldin á undan. Ég segi við manninn minn að ég verð illa svikin ef þetta eru ekki hríðarverkir. Við erum heima í ca 2 tíma þegar við ákveðum að hafa samband við kvennadeildina. Samdrættirnir voru reglulegir, ca 4 mínútur á milli og nokkuð öflugir. Við stoppuðum samt í bakaríi á leiðinni niður á deild - góð ostaslaufa gerir allt betra.

Þegar við komum niður á deild var ég skoðuð, ég var komin með 5 í útvíkkun. Ég fékk strax stofu með baði og var tengd við sírita um leið og ég var komin inn. Ég nýtti mér glaðloftið og baðið næstu 4 tímana. Það var að vísu lítill framgangur á þessum tíma, ég hafði farið upp í 6 í útvíkkun sem mér fannst heldur lítið. Hríðarnar voru um það bil 8 á hverjum 10 mínútum sem gerði það að verkum að ansi lítil hvíld var á milli og ég upplifði að ég gat ekki slakað lengur á grindarbotninum. Eftir samtal við ljósmóður vorum við sammála um að mænurótardeyfing gæti hjálpað mér á þessari stundu. Það tók enga stund að leggja hana og ég náði aðeins að hvílast. Mér þótti eiginlega erfiðast hversu erfitt var að ná tengingu við stelpuna mína með síritanum nema þegar ég lá á bakinu. Mér fannst best að standa, halla mér fram eða hanga á rúminu - en því miður náðist ekki samband við barnið þá svo ég var beðin um að koma mér aftur fyrir á bakinu. Svona gekk þetta áfram alveg fram í rembing. Þegar rembingurinn hefst var kollurinn ansi hátt uppi, hann gekk hægt niður bæði vegna þess hversu stuttar hríðarnar voru og hve erfitt var að finna stöðu sem hentaði mér og síritinu. Ég fékk á endanum dreypi til að lengja hríðarnar. Eftir um það bil 2 tíma og 40 mínútur í rembing var ég farin að óttast að enda aftur í keisaraskurði - mér leið samt ekki illa, ég hafði í raun ekki haft hugmynd um hvað tímanum leið nema af þeim sökum að verið var að ræða hvað væri fram undan.

Læknirinn hafði þó litlar áhyggjur þar sem stór hluti af þessum tíma var ekki skilgreindur sem aktívur rembingur og samband við barnið var gott. Mjög stuttu eftir þetta samtal fer ég á klósettið að pissa og þá finn ég eitthvað gerast. Ég fer með höndina niður í klof og finn höfuðið á barninu, ca 3ja fingra breidd af kollinum var komin niður. Ég læt ljósmóðurina vita og geng aftur að rúminu. Ég finn rembingsþörfina koma yfir mig og segi “ég þarf að rembast, núna!”. Þær koma hlaupandi með handklæði og setja bæði á gólfið og á rúmið meðan ég styð mig við stoðirnar á rúminu. Maðurinn minn grípur í mig. Kollurinn er kominn út, höfuðið er fætt. Ljósurnar fá mig til að mása eina hríð og segja mér að koma niður með hendurnar. Þriðja hríðin kemur frá því að ég kem af klósettinu og ég remist og tek á móti barninu sjálf með aðstoð ljósmæðra. Þetta er það magnaðasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað! Ég get ekki lýst þessu, að finna allt sem er að gerast inn í mjaðmagrindinni á sama tíma og maður fer inn í einhverja aðra vídd í huganum og verður ekki var við nokkurn skapaðan hlut í kringum sig. Þessi yfirnáttúrulega orka og dýrslega eðli. Ég hafði ekki hugmynd um að líkaminn minn gæti þetta - að ég gæti þetta eða að þetta væri bara hægt! Þessi tilfinning er ólýsanleg. Ég fór á endanum upp í rúmið með barnið í fanginu og lá með hana á bringunni í klukkutíma á meðan fylgjan var að fæðast. 

Ég hugsa að ég muni lifa á þessu augnabliki til æviloka!

Líkaminn er magnað fyrirbæri og hann er hannaður fyrir ótrúlegustu hluti! Fyrri reynslan var vissulega algjör martröð á meðan sú seinni er meira í líkingu við alsælu í himnaríki. Það er ómetanlegt að ganga sjálfur með vögguna með barninu sínu inn á sængurkvennadeild, án aðstoðar, í sæluvímu með öll þessi fallegu góðu hormón skrúfuð í botn í líkamanum!

Í öllu þessu ferli er margt sem ég hef lært, bæði á sjálfa mig og heilbrigðisþjónustu. Opið samtal við alla fagaðila hjálpaði mér gríðarlega við að taka ákvörðun um þá stefnu sem ég tók varðandi mína seinni fæðingu. Ég legg það ekki í efa að valkeisari sé að sama skapi ofboðslega falleg og góð upplifun sem takmarki kvíða hjá mörgum konum sem hafa sambærileg reynslu og ég. Ég upplifði hins vegar mikið traust og stuðning við mínar ákvarðanir, boðleiðir og mikið öryggi varðandi ákvarðanir sem höfðu verið teknar um lága þröskulda fyrir inngrip. 

Mín upplifun er sú að fyrri reynsla þarf ekki að endurspegla það sem gerist í næstu fæðingu. Það er til frábært fagfólk í öllum heilbrigðisstéttum sem er reiðubúið að aðstoða á öllum stigum.

Að lokum fékk ég elsku Emmu til mín sem heimaþjónustuljósmóður. Það var dásamlegt að geta rætt báðar þessar upplifanir við hana sem og aðra þjónustu. 

Ég hvet fólk með slæma fæðingarreynslu eindregið til að ræða sína upplifun við fagfólk sem það treystir og á gott meðferðarsamband við. Að taka upplýsta ákvörðun á eigin forsendum um næstu fæðingu er sennilega það dýrmætasta sem þú gefur þér.

Löng saga stutt - ég hélt að barneignum mínum væri lokið þegar barn númer tvö væri komið… fjöldi áætlaðra barna er nú í endurskoðun, vonandi verða þau fleiri en tvö! 

Previous
Previous

“Síðan skein sól”- Fæðing og fyrstu dagarnir okkar með Emilíu Sól

Next
Next

Tvö (ekki svo) lítil kríli