Tvö (ekki svo) lítil kríli

Við áttum von á barni nú síðsumars í ár. Emma hafði, fyrir þremur árum, tekið á móti stráknum okkar og engin önnur kom til greina í þetta verkefni. Tengingarnar, virðingin og traustið sem maður myndar við ljósmæður sínar í samfelldri þjónustu í gegnum þetta ferli er algjörlega ómetanlegt og ég get ekki ímyndað mér að nokkur velji að fara aðra leið eftir að hafa fundið þess konar samband. 

Á fyrri meðgöngu hafði ég gengið 13 daga fram yfir settan dag og fengið drenginn í fangið um 10 klst fyrir áætlaða gangsetningu. Nú í sumar var Emma á leið í frí litlum 10 dögum eftir settan dag og því töluverð pressa komin á litla barnið að koma sér ekki of vel fyrir í bumbunni.

Sem betur fer voru meðgöngurnar báðar frábærar, lausar við ógleði og verki, og ég gat sinnt námi á þeirri fyrri og smíðavinnu á þeirri seinni, alveg fram að sumarfríi. Brjóstin stækkuðu töluvert, ég varð oft ofsasvöng, stundum þreytt og virtist elska lyktina af óelduðum fisk.. en að öðru leyti fann ég ekki breytingar á sjálfri mér.

Gengin fjóra daga fram yfir fékk ég Emblu til mín að kvöldlagi að láta reyna á nálastungu. Á fyrri meðgöngu hafði ég látið reyna á allar mýtur til að ná barninu út, án árangurs. Ég hafði því litla von en hafði í það minnsta gaman af heimsókninni. Strax við fyrstu stungu fann ég fyrir auknum, þó algjörlega verkjalausum, samdráttum sem héldu áfram fram að háttatíma. Það breytti engu um það að ég hélt áfram að sofa vel alla nóttina, eins og ég hafði gert á báðum meðgöngum, en vaknaði með sömu kröftugu, verkjalausu samdrættina. Vongóð lofaði ég að verða helsti talsmaður nálastungunnar ef að þetta væri raunverulega byrjun fæðingarinnar og hvet því hér með alla ráðalausa, sem hafa tök á, að fá Emblu í heimsókn til sín að nálastinga því það svínvirkar! 

Við áttum notalegan dag heima og fengum mömmu til að sækja tilvonandi stóra bróður á leikskólann. Við áttum síðan boð í mat til þeirra pabba um kvöldið eins og aðra miðvikudaga. Á leiðinni til þeirra fannst fyrsti seyðingurinn með einum samdrættinum og ég efaðist ekki um það í eitt augnablik að von væri á barninu fljótlega, fyrirvaraverkirnir engir, alveg eins og á fyrri meðgöngu. Við borðuðum vel af soðinni ýsu, kartöflum og grænmeti, já það var matur sem ég hafði óskað eftir, og kvöddum svo strákinn okkar sem fékk að gista hjá ömmu og afa þessa síðustu nótt sem einkabarn. 

Fyrri fæðing hafði tekið um 10 klukkustundir frá fyrsta verk en um 15 klukkustundir frá fyrsta seyðingi. Hann hafði ég fundið eldsnemma morguns, fengið mér grjónagrautsafganga til að búa mig undir átökin og svo náð að sofa til hádegis. Jább grjónagrautur og soðin ýsa, skrítið en ókei. Það er auðvitað engin leið að vita á hverju maður á von en sögurnar segja að oft styttist fæðingartíminn í fæðingu annars barns miðað við fyrstu fæðingu og við vorum viðbúin því að mögulega gæti verið ansi stutt í gorminn. 

Við komum við í búð á leiðinni til baka og keyptum okkur “fæðingarmöns”, keyrðum heim, drógum fyrir, kveiktum á kertum og að sjálfsögðu á fæðingarplaylistanum. Ég lagðist upp í rúm og reyndi að hvíla mig en hafði enga eirð í það og valdi frekar að fara fram á yogaboltann í spjall. Ég sendi skilaboð á Emmu og sagði henni að líklega væri von á barninu þessa nóttina en að ég gerði mér enga grein fyrir framgangi ferlisins. Á þessum tíma í fyrri fæðingu hafði ég verið komin með 4 í útvíkkun og búin að kasta grjónagrautnum upp út um stofugluggann heima hjá mér. Í þetta skiptið virtist þetta taka minna á líkamann þó ekki væru nema um 3 mínútur á milli samdrátta. 

Um 2 leytið var ég orðin spennt fyrir lauginni og kom Emma þá til okkar, blés hana upp og fyllti af vatni og ég var komin ofan í um kl 3. “Ó, hvað ég hef saknað þín” hugsaði ég þegar ég lét mig síga ofan í laugina, þó að verkirnir væru enn þá langt frá því að vera óbærilegir. Ég sætti mig við að líklega væri bara ansi langt verkefni fyrir höndum. 

Í fyrri fæðingu hafði ég valið að fæða á fæðingarheimili. Þar lá ég í baðinu í um 5 klst, haf-andaði mig í gegnum verkina, kastaði nokkrum sinnum upp, dottaði á milli hríða og gerði mér enga grein fyrir því hvað væri að gerast í kringum mig. Ég var algjörlega ein með sjálfri mér og þorði ekki að hreyfa svo mikið sem litla fingur ef að ég skyldi detta úr “sóninu”. Þar sem mér hafði þótt bílferðin leiðinlegasti hluti ferlisins ákvað ég nú að eiga heima og haf-anda mig í gegnum hríðarnar í laug á stofugólfinu, 7 hægir andardrætti inn og 7 enn hægari andardrættir út. Auk þess bý ég á fjórðu hæð í lyftulausu húsi og gat ekki ímyndað mér ferðalagið niður stigana.

Í þetta skiptið var ég öruggari og treysti mér betur til þess að taka þátt í umræðum á milli hríða og forvitnast um ýmislegt sem ég var að finna fyrir í líkamanum, þó næstum hreyfingarlaus í nákvæmlega sömu stöðu og hafði virkað svo vel fyrir mig síðast. Eftir um 2 klukkustundir í baðinu hafði ég svo orð á því hvort að ég ætti ekki að vera farin að svitna, öskra eða æla á þessum tímapunkti en andrúmsloftið var svo rólegt að maðurinn minn var farinn að hita kanelsnúða og hella upp á te. 

Eins og í fyrri fæðingu hafði legvatnið ekki enn þá farið og aftur fékk ég enga rembingsþörf. Síðast hafði ég átt upp í rúmi á fæðingarheimilinu til þess að hægt væri að leiðbeina mér í rembingnum en nú langaði mig að fá að reyna að eiga í baðinu.

Mér fannst hríðarverkirnir bara verða vægari ef eitthvað var en fann þá nú meira aftur í bak en framan á kúluna. Þetta gefur til kynna að líklega sé útvíkkun lokið en Emma leiðbeindi mér að prófa að rembast og sjá hvort að líkaminn færi nokkuð í lás við það. Ég hafði ekkert verið trufluð fram að þessu nema rétt til að athuga hjartslátt barnsins, útvíkkunin hafði aldrei verið mæld.  

Ég einbeitti mér að því að “reyna að kúka í baðið” en eins og áður gerði ég mér enga grein fyrir framgangi fæðingarinnar. Embla var þó komin og því líklega ekki of langt í land. Eftir nokkra rembinga kom loksins þessi óbærilega tilfinning, ég bað um ælupoka en piparmyntudropar slógu á ógleðina. Ein eða tvær sambærilegar hríðar fylgdu í kjölfarið og loksins fannst mér ég finna barnið færast neðar. Ég sagði Emmu frá því, hún setti á sig hanska en ég ranghvolfdi augunum í huganum yfir því að hún héldi að stutt væri í barnið þegar fæðingin hafði ekki verið óbærileg í nema 2-3 mínútur. Það kom svo í ljós að Emma var alveg meðvituð um stöðuna enda hafði hún fundið hjartsláttinn færast neðar og neðar í grindina.

Næsta hríð sló mig algjörlega út af laginu, verkurinn varð margfaldur, vatnið fór og ég kastaði upp. Hléið á milli hríða var ekkert og ég var enn þá að kasta upp þegar sú næsta tók við. Mér fannst ég missa algjöra stjórn á önduninni og kallaði “shiiiit” en fékk þá ansi rólegt viðmót frá Emmu sem svaraði mjúklega: “neineinei”. Ég náði stjórn á önduninni og greip um kollinn á barninu sem hafði hug á að skjótast út í þessari hríð. Ég ýtti því aftur inn og stýrði því svo hægt og rólega án þess að rembast með þar til kollurinn stóð hálfur út og hríðin kláraðist. Í fyrri fæðingu hafði ég ætlað mér heldur stóra hluti og rembst af öllum lífs og sálar kröftum þegar óvænt 20 marka barnið kom út, sem að varð til þess að ég rifnaði heldur illa. Í þetta skiptið hafði Emma leiðbeint mér vel sem varð til þess að tæplega 18 marka stelpan mín skildi ekki eftir sig skrámu. 

Ég fékk hana í fangið eftir næstu hríð, öskurgargandi og þakta fósturfitu. Við lögðumst upp í rúm, pabbi, mamma og glænýja stelpan okkar á meðan ljósmæðurnar gengu frá pappírsvinnu og síðan íbúðinni eins og nóttin hefði ekki verið neitt annað en venjuleg. Ekkert sem að við þyrftum að gera nema hvílast, þefa og njóta.

Ég hef verið hvött til að segja mína sögu vegna hræðslunnar sem margir hafa við að fæða stór börn. Ég sjálf er sannfærð um að stærð barna stjórni ekki framgangi eða niðurstöðu fæðingar heldur spili þar miklu stærri þátt hugarástand, traust og góðar leiðbeiningar og get ég umhugsunarlaust þakkað Emmu, Emblu, Auði í Jógasetrinu og manninum mínum fyrir tvær dásamlegar fæðingar. 

Það verður alltaf fólk sem finnur sig knúið til þess að véfengja ákvarðanir þínar í og fyrir fæðingu og jafnvel upplifun þína á fæðingunni í kjölfar hennar en þetta er ekki þeirra móment þetta er ykkar. Við heyrum alls konar sögur sem geta bæði dregið úr okkur og styrkt en með trú á okkur sjálf og öryggi í ferlinu getur þetta orðið ein mest töfrandi stund í ykkar lífi, draumkennd og valdeflandi, sama hvernig barnið kemur í heiminn. Það er vonandi líka gaman að lesa um það þegar vel gengur, það er í það minnsta mikilvægt. 

Previous
Previous

Ég hugsa að ég muni lifa á þessu augnabliki til æviloka!

Next
Next

Ég get þetta!