Ég get þetta!

Ég sit hérna í sólinni úti á svölum að skrifa fæðingarsöguna mína. Sonur minn er 12 daga gamall og liggur í vöggunni sinni inn í svefnherbergi. Lífið er mjög ljúft, rólegt og stillt. Ég fæddi þann 15. maí kl. 14.56 á sunnudegi en aðdragandi fæðingarinnar er nokkuð skemmtilegur. Til að byrja með var ég í upphafi meðgöngunnar búin að ákveða að ég ætlaði að fæða við 37 vikur og ekki deginum lengra og að það myndi gerast heima. Ég var svo harðákveðin að allar mínar ljósmæður vissu þetta, vinkonur og fjölskylda.

Við Stefán sóttum saman Hypnobirthing námskeið til þess að undirbúa okkur andlega fyrir fæðinguna og vorum dugleg að gera öndunar- og slökunaræfingar. Í einum hypnobirthing tíma bað Edythe ljósmóðir okkur um að sjá fyrir okkur fæðinguna. Ég hafði oft leitt hugann að því hvernig ég myndi fæða barnið mitt og var nánast viss um að ég myndi klára útvíkkun í baði en vilja fara upp úr baðinu þegar rembingur hæfist því mér myndi líklegast verða svo heitt og ómótt, jafnvel smá pirruð. Í þessum hypnobirthing tíma, þar sem ég var í fullkominni slökun, kom til mín sú sýn að ég myndi fæða barnið í vatni með Stefán fyrir aftan mig. Ég vissi að Stefán væri ekkert alltof spenntur fyrir því að fara ofan í laugina með mér þannig að mér þótti þessi sýn ansi ólíkleg til að verða að veruleika en hún kom seinna meir skemmtilega á óvart.

Ég fann það strax að ég uni mér ekkert svo vel að vera barnshafandi þrátt fyrir mjög góða meðgöngu líkamlega og svo seinna meir andlega. Meðgangan kom okkur Stefáni mjög á óvart þannig ég var svolítið lengi að jafna mig á þessum óvæntu fréttum. Ég hugsaði mjög vel um mig á meðgöngunni, borðaði vel og mikið, svaf vel og hreyfði mig mikið. Við Stefán gerðum öndunaræfingar saman og sofnuðum oft við að hlusta á leidda slökun.

Jæja, hér stoppaði þessi sólardagur og lífið tók við, ég náði ekki lengra en þetta.

… Fjórum mánuðum seinna heldur sagan áfram

Núna er strákurinn minn 4 mánaða og ég hef fengið að melta fæðinguna mína aðeins betur. Föstudaginn 13. maí, þá gengin 36 vikur og 5 daga, var ég að fara upplifa ótrúlega skemmtilega helgi og mér óafvitandi, merkilegustu helgi lífs míns. Saumaklúbburinn minn úr Grindavík, sem kallar sig Stellurnar í höfuðið á jólabjórnum góða, leigði íbúð niður í bæ þessa helgi og var ég því í fullu fjöri langt fram á nótt á föstudeginum og laugardeginum. Á laugardeginum hugsaði ég með sjálfri mér: “Eftir þennan sólarhring er ég búin að ná 37 vikum og þá get ég fætt heima”. Svo hugsaði ég: “Vá, ég vona að Úkraína vinni í Eurovision í kvöld”. Stefanía mamo mamo Stefaaanííía. Skemmtilega vill svo til að það er verið að segja Stefanía mamma mamma Stefanía. Lagið átti því einstaklega vel við þennan dag - daginn sem ég, Stefanía, varð mamma.

Fyrirburafæðingar eru algengar í minni fjölskyldu og því var ég fegin að hafa ekki fætt fyrir tímann en á sama tíma var ég ekki heldur spennt fyrir því að bíða mikið lengur en 37 vikur. Mín ósk var að ganga akkúrat 37 vikur.

Um miðnætti fagnaði ég þessu afreki að vera gengin 37 vikur með því að hella vatni á gráu kósíbuxurnar mínar og þykjast missa vatnið með óskorðaðan koll. Grínið stoppaði þegar læknirinn í hópnum ætlaði að hringja í 112. Frábær viðbrögð!

Við þetta þurfti ég að fara í nýjar nærbuxur og gráu kósíbuxur nr. 2, sem eru nauðsynlegar þegar manni líður eins og maður sé farinn að líkjast bangsímon á seinni hluta meðgöngu. Við nærbuxnaskiptin tók ég eftir því að það var einn brúnn lítill blettur á stærð við 10 krónur í brókunum og hugsaði: “Jæja þetta gerist kannski bara fljótlega”. Svo fóru konur að þreytast, Úkraína vann, partíið var búið og allar sjö komnar upp í rúm klukkan sirka tvö að nóttu.

Ég var svo heppin að deila herbergi með vinkonu sem er mér mjög kær en hef því miður lítið náð að hitta. Og það var spjallað, og það var spjallað meira um djúpt og djúsí trúnó og eftir því sem við spjölluðum meira byrjuðu verkirnir að ágerast. Klukkan 5 dró ég línuna því allt í einu fór að þyrma yfir mig sú tilhugsun að vera mjög þreytt ef ég skildi vera í alvörunni að fara af stað. Þarna var ég líka lúmskt farin að einbeita mér að því að reyna hlusta á vinkonu mína um leið og ég var að upplifa samdrætti. Eftir klukkutíma svefn vaknaði ég við það að einhver var að jafna sig eftir drykkju gærkvöldsins þannig ég fór fram og kannaði málið. Ég náði að redda mér tveimur paracetamol töflum og svo fór ég að hugsa hvort ég ætti ekki bara að fara heim, nú væru komnir ágætlega harðir verkir sem ég þurfti að einbeita mér að. En ætti ég bara að taka taxa heim? Þetta voru mjög fyndnar og skrítnar aðstæður fannst mér, ein og ólétt að taka taxa frá miðbænum klukkan 6 á sunnudagsmorgni.  Sem betur fer sá systir mín sér fært að skutla mér. Ég kvaddi saumaklúbbinn minn og þakkaði fyrir helgina. Þær héldu kannski að ég væri að plata þær aftur. Í bílferðinni heim spjallaði ég á milli hríða. Það var gott að faðma systur mína bless.

Og svo fór vatnið í alvöru …

Þegar ég kom heim lagðist ég upp í rúm. Stefán, þá orðinn veikur, spurði mig af hverju ég væri komin svona snemma heim. Ég sagði honum lauslega að ég héldi að ég væri að fara af stað en hvatti hann til þess að halda áfram að sofa og safna kröftum, því ég ætlaði líka að reyna gera það. Ég sendi ljósmóðurinni minni, Emmu, eftirfarandi skilaboð orðrétt kl. 06:47: “Jæja, gæti verið að eg se að fara af stað, ég ætla samt bara að leggjast upp í rúm og reyna sofna, var að taka inn panodil, smá létt brúnblæðing og stuttir samdrættir”. Ég lá upp í rúmi með vaxandi verki að framan á kúlunni og umlaði og óaði verkina af mér á meðan ég reyndi mitt allra besta við að sofna. Neibb, gekk ekki að sofna. Jæja klukkutíma svefn er allt sem ég fæ, enn spennandi. Ég rölti fram og sótti TENS tækið mitt og skellti því á bakið en ég er ekki viss um að þetta hafi virkað. Inn á milli hugsaði ég að ég kæmist nú líklegast ekki í vorþrif húsfélagsins sem áttu að vera kl. 12-16 þennan dag, formaður húsfélagsins sjálfur.

Svo gerðist það að það kom svo sterkur samdráttur að ég stóð upp úr rúminu og við það missti ég vatnið. Hmm.. “snyrtilegt” hugsaði ég “en mjög vont”. Klukkan var þarna orðin 11:10 að morgni. Ég fór á klósettið og skipaði Stefáni að heyra í Emmu. NÚNA. Fæðingin er BYRJUÐ, með stæl. Emma kom 17 mínútum síðar. Ég fann að ég var mjög fegin að sjá hana og svo kom Hafrós stuttu síðar. Þar sem ég hafði asnast til að hafna því í 36 vikna mæðraverndar skoðuninni að hafa fæðingarlaugina uppblásna, þrátt fyrir að Emma  mælti með því, tók töluverðan tíma að gera laugina klára. Í þokkabót vorum við ekki búin að kanna hvaða millistykki þyrfti á kranann fyrir vatnsslönguna og því voru Emma og Hafrós að ferja heitt vatn í skálum ofan í laugina. Ég man eftir að hafa horft á Hafrós, með þungu bláu salatskálina mína fulla af heitu vatni, labba hratt á milli eldhússins og stofunnar. Konan er í góðu formi.

Á meðan lá ég í litla sófanum mínum sem ég þoli ekki, að reyna koma mér fyrir í þessum rosalegum hríðum. Ég upplifði svo sterka samdrætti að ég gat ekki staðið í fæturna en gat með engum hætti legið kjurr. Áður en ég vissi af var ein hríð að klárast þegar næsta var byrjuð. Ég fékk eitt andartak á milli hríða, bókstaflega. Hypnoöndun, haföndun, allt var notað, bara einhver öndun. Það kom sér ofboðslega vel fyrir að hafa farið í Hypnobirth fyrir Stefán. Honum tókst að anda með mér, telja niður og róa mig með sinni rólegu nærveru. Það eina sem ég hafði þarna var öndunin til að koma mér í gegnum þennan storm. Svo kom að því að ég var orðin mjög þreytt og uppgefin og ég bað Emmu um að skoða mig. Klukkan var þarna 13:30. Hún skoðaði mig með 4 cm í útvíkkun. Þarna viðurkenni ég fúslega að einhver vonarneisti slokknaði innra með mér. Emma hvatti mig til að vera á bolta sem ég treysti mér ómögulega til að gera en kinkaði kolli með sorgaraugum. Hvernig ætti ég eiginlega að fara að þessu, svona þreytt með ótrúlega sára verki hugsaði ég. Í smá stund stóð ég í hjartanu á íbúðinni minni, ein mjög ráðalaus og hugsi. Ég hugsaði um mænurótardeyfingu en var fljót að bægja þeirri hugsun frá mér. Svo hugsaði ég um glaðloftið, hvað það myndi bjarga mér í þessari neyð sem ég var að upplifa. Ég skammaði sjálfa mig fyrir að vera illa sofin en skildi mig svo vel á sama tíma því þetta var svo gott trúnó. Ég hugsaði svo innilega og oft um hvað ég gæti ekki meir og í hvert einasta skipti sem ég hugsaði það svaraði ég þeirri hugsun með því að segja upphátt: “Ég get þetta!”. 

Með fjóra í útvíkkun

Svo kom ég inn í stofu mjög angistafull: “Er vatnið að verða tilbúið?”. “Já alveg að verða tilbúið” fékk ég svarað tilbaka. Ég horfði ofan í laugina og það var ekkert að verða tilbúið í mínum huga. “Eigiði parkódín? Eða panodíl? Eða bara eitthvað?” og ég vissi svo upp á hár að þetta var ekki að fara gera neitt fyrir mig. Í hvatvísi minni klæddi ég mig úr gráu kósíbuxunum nr. 2 og fór ofan í fæðingarlaugina. Og nánast allir líkamshlutar stóðu uppúr í þessu litla vatni sem var komið en ég náði að kjarna mig. Ég náði að anda og slaka á. Í nokkur augnablik fékk ég ró og hvíld. Jafnvel þó svo að þetta voru líklegast minna en 30 sekúndur náði ég tökum á andardrættinum og vonbrigðinni sem fylgdu skoðuninni og svefnleysinu. Án þess að hugsa skoðaði ég mig sjálf og fann koll en fann að útvíkkunin var ekki búin. Frá mér komu vonlaus búkhljóð en jæja áfram gakk. Af því mér leið best alveg kylliflöt var erfitt að koma sér fyrir í fæðingarlauginni. Ég horfði á Stefán og bað hann um að koma ofan í til að hjálpa mér að líða betur. Sorry babe, ég veit að þig langaði ekkert til þess að fara ofan í fæðingarlaugina.

Það var ótrúlegt hvað það munaði miklu. Hann þrýsti köldum þvottapoka að enninu, hjálpaði mér að anda og hvatti mig áfram. “Ég get þetta” hélt áfram að koma frá mér þegar ég fékk uppgjafartilfinningu, sérstaklega þegar ég vorkenndi mér yfir því hvað ég var þreytt. Í eitt skipti sagði Stefán mér að það væri lítið eftir og ég svaraði hálf grátandi, hálf reið: “nei nefnilega ekki”. Svo gerðist það að ég fann einkennilega þörf fyrir að pissa en náði samt ekki að pissa. Þeirri tilfinningu svaraði ég með því að ýta og á einhvern hátt létti það á þessum þvagblöðruverk. Ég horfði á Emmu, vonlaus og hrædd um að ég væri að rembast á ókláraða útvíkkun. Í hausnum mínum var heill skógur af spurningum sem spruttu hratt upp eins og illgresi: “Snýr kollurinn vitlaust? er útvíkkunin búin? Þarf ég að flytjast? Þarf ég að fá mænurótardeyfingu? Verður þetta algjört bras? Þetta voru sirka 40 mínútum frá því að hún skoðaði mig. Þarna missti ég kúlið og bað Emmu um að skoða mig aftur. Ég horfði á andlitið hennar lifna við en rólega sagði hún mér að útvíkkunin væri búin. Hún var eflaust hissa líka. Ég gaf skýrt til kynna að ég vildi að hún væri alveg viss, nei sko ALVEG viss. Jú, útvíkkun var búin og já, þetta gat ég!

Svo hugsaði ég, vá þetta var bara rétt hjá Stefáni, það er lítið eftir, þvílík ljósmóðir.

Þarna fór ég að undirbúa mig andlega fyrir að fá strákinn minn í fangið. Ég beindi öllum mínum kröftum að því að rembast. Hljóðin í mér voru hávær og ég blótaði og öskraði en það var góð og valdeflandi tilfinning sem hélt mér einbeittri, vakandi og skarpri. Í fyrsta skipti fékk ég líka almennilega hvíld á milli samdrátta. Þetta var fæðingin sem ég var búin að ímynda mér, að ég fengi hvíld til að ná áttum, slökun, kyrrð og allar þessar góðar tilfinningar, á milli hríða. Ég heyrði í íbúum byggingarinnar fyrir utan líklegast vera að grilla saman í garðinum okkar eftir vorþrif dagsins að hlusta á mig öskra. Svo mundi ég eftir rembings önduninni sem ég lærði hjá Edythe í Hypnobirthing og notaði hana.

Emma staðfesti reglulega framganginn og sagðist sjá mikið hár. Í rembingnum spurði ég hana hvort það væri dökkt því mér hefði þótt verulega skrítið hefði ég átt von á ljóshærðu barni.

Ég fann strákinn minn hreyfast og var því viss um að hann myndi fæðast sprækur. Hann er að fara koma sagði ég endurtekið við Stefán. Svo fæddist kollurinn og þá varð allt algjörlega stillt. Í rólegheitunum ræddi ég við fæðingargengið mitt um hvað þetta væri skrítið augnablik, á meðan ég horfði á dökka kollinn á stráknum mínum.

Síðan fann ég síðustu hríðina byggjast upp og ég varð mjög hrædd. Hrædd við að sleppa tökum á gamla lífinu mínu, hrædd við nýja lífið mitt, hrædd við verkinn og stressuð að fá hann í fangið vitandi að allt líf mitt myndi breytast frá þessari stundu. Eins dramatískt og það hljómar, þá voru þetta hugsanir sem þutu í gegnum huga minn á þessum örfáu sekúndum sem það tók síðustu hríðina að byggjast upp.

Og allt í einu urðum við þrjú. Barnið okkar fæddist kl. 14:56, með dökkt og mikið hár, vel smurður fósturfitu, svo mikilli að augun hans voru límd saman. Hann grét strax með hendurnar sínar útréttar og ég tók hann í fangið með Stefán fyrir aftan mig. Ég fylltist stolti yfir barninu mínu strax. Hrausta litla, litla barnið mitt sem fæddist á 37 viku + 0 dagar, í vatni heima hjá sér með báðum foreldrum sínum.

Previous
Previous

Tvö (ekki svo) lítil kríli

Next
Next

Jólabarn í janúar