Jólabarn í janúar

Við höfðum samband við Fæðingarheimili Reykjavíkur þegar meðgangan var hálfnuð til að athuga með að eignast fyrsta barnið okkar þar. Okkur langaði mikið að eiga eins náttúrulega fæðingu og hægt væri og leist strax mjög vel á Fæðingarheimilið. Það kom fljótlega í ljós að húsnæði Fæðingarheimilisins yrði ekki tilbúið í tæka tíð fyrir settan dag en þá buðu ljósmæðurnar sem þar starfa okkur upp á möguleikann að fæða heima. Við fórum á fæðingarnámskeið hjá Fæðingarheimilinu sem nýttist mjög vel í undirbúningi fæðingarinnar og ákváðum í kjölfarið að stefna að heimafæðingu með Emblu og Emmu.

Við 34. viku tók Embla við meðgönguverndinni sem fór fram í miklum rólegheitum heima hjá okkur. Okkur hafði liðið vel í meðgönguverndinni hjá heilsugæslunni okkar en fannst mjög spennandi að fá þá samfelldu þjónustu sem Fæðingarheimilið bauð upp á: skoðanir frá 34. viku, fæðingarþjónustu og svo heimaþjónustu fyrstu tíu dagana eftir barnsburð. Þannig náðum við að kynnast mjög vel. Auk þess bauð Embla okkur upp á auka þjónustu til dæmis nálastungur sem við þáðum, enda mjög til í að prófa alla náttúrulega möguleika til að bæta fæðingarupplifunina.

Meðgangan dróst á langinn þrátt fyrir að ýmsum aðferðum hefði verið beitt til að reyna að koma fæðingu af stað og þegar Sæunn var gengin 11 daga fram yfir var komin bókun í gangsetningu mánudaginn 10. janúar. Við vissum að ef þörf væri á gangsetningu myndum við ekki geta átt heima en vorum samt sem áður þakklát fyrir að hafa geta notað þjónustu Fæðingarheimilisins fram að því og að við gætum fengið heimaþjónustuna þaðan. Laugardaginn 8. janúar, komin 41 viku og fjóra daga, hófust samdrættir klukkan sjö um morguninn og vorum við mjög spennt fyrir því að nú væri barnið að koma og gæti fæðst heima. Við létum Emblu vita, Egill blés upp sundlaugina og við byrjuðum að setja okkur í stellingar fyrir daginn. Eftir rúma fjóra tíma duttu svo samdrættirnir niður, eitthvað sem við vissum eiginlega ekki að gæti gerst. Við nýttum tímann til að hvíla okkur og fórum í göngutúr og borðuðum vel, óviss um framhaldið. Verkir hófust að nýju um hálf níu leytið um kvöldið og héldu þá ótrauðir áfram, þó með mislöngu millibili. Á tímabili var bara 10-15 mínútur á milli en svo gat liðið allt að klukkutími. Við fórum því að sofa þá nótt óviss um hvað myndi taka við og Sæunn vaknaði reglulega við verki um nóttina.

Á sunnudagsmorgni kom svo Embla að taka út ástandið, en þá voru um 30 mínútur milli verkja. Hún gaf Sæunni nálastungur og notaði rebozo sjal til að hrista mjaðmirnar. Við hlógum öll yfir þessu og töldum að með þessu væri ekki búið að útiloka neinar aðferðir til að koma barninu náttúrulega út. Hún hvatti svo Sæunni til að halda áfram að hrista mjaðmirnar milli samdrátta. Embla fór í kringum hádegið og eftir það héldust samdrættir stöðugir á tíu til fimmtán mínútna fresti. Sæunn reyndi um klukkan fimm að leggja sig ef ske kynni að fæðingin væri ekkert að hefjast en eftir nokkra mínútna blund vaknaði hún við að missa vatnið. Við létum Emblu vita og mældum tímann á milli samdrátta í klukkutíma, það voru alltaf fimm mínútur eða minna og því ljóst að virk fæðing væri farin af stað. Stelpan ætlaði sér greinilega að fæðast heima og fæðingarlaugin sem hafði verið mikið vesen að tengja við baðið okkar yrði þá nýtt! Embla kom til okkar um klukkan sex og um leið og hún kom varð styttra á milli verkja, eða bara um 1-3 mínútur.

Það var orðið dimmt úti enda mesta skammdegið og við kveiktum á fæðingarplaylista, kertum og ljósaseríum (jólatréð var líka ennþá uppi - enda áttum við von á jólabarni). Við létum renna í baðið klukkan sjö og fór Sæunn ofan í það klukkan átta og fannst það frábært. Við notuðum kalda bakstra mikið í fæðingunni og Sæunn þáði nálastungur á meðan hún var í baðinu sem nýttust líka vel til slökunar. Svo andaði hún sig í gegnum næsta klukkutímann. Þá var athugað með útvíkkun sem var orðin 5-6 cm og ljóst að ekki yrði langt eftir. Um tíuleytið kom Emma og þá langaði Sæunni upp úr baðinu og fór á sófann þar sem útvíkkunin kláraðist um hálf tólf leytið. Þá tók rembingur við sem tók rétt um klukkutíma. Sæunn var orðin ansi þreytt í lok útvíkkunar en fann fyrir mikilli orku á ný þegar kom að rembingnum. Þegar kollurinn kom út heyrðist grátur og þá spurðu ljósmæðurnar hvort Sæunn gæti tekið annan rembing í þessari hríð sem hún gat og þá kom barnið allt út í einni bunu sem kom okkur verulega á óvart.

Snæfríður fæddist klukkan 00:41 aðfaranótt 10. janúar, átta tímum fyrir tímann okkar í gangsetningu, á sínum eigin forsendum og tíma. Hún kom strax á bringuna og vildi taka brjóst og var alveg eins og hún átti að vera, 49 cm og 2990 gr. Næstu tíu daga kom Embla til okkar í vitjanir auk þess að vera alltaf til taks í gegnum síma ef einhverjar spurningar vöknuðu. Við gætum ekki verið þakklátari fyrir reynsluna okkar hjá Fæðingarheimilinu. Meðgangan hafði gengið mjög vel og það hvað fæðingin gekk vel í góðu umhverfi heima setti tóninn fyrir fyrstu dagana sem einkenndust af mikilli gleði og rólegheitum á meðan við vorum öll að kynnast.

Takk kærlega fyrir okkur Embla og Emma!

Previous
Previous

Ég get þetta!

Next
Next

Ég er sterk eins og fjallið en líka sveigjanleg