Ég er sterk eins og fjallið en líka sveigjanleg

Mig langaði að deila með ykkur fæðingasögunni okkar, eins og við minntumst á eftir námskeiðið! Námskeiðin voru frábær undirbúningur og það var gott að vita hvaða val við hefðum um ýmis konar verkjastillingar og hvernig best væri fyrir Will að styðja mig í fæðingunni.


Við vorum búin að vera á Ísafirði í tvær vikur, orðin mjög spennt að eiga fyrir vestan í faðmi fjölskyldunnar, en það vildi svo óheppilega til að á föstudeginum fyrir fæðinguna, þá vakna ég og sé að legvatnið er byrjað að fara og það er dökkt á lit. Ég fer uppá sjúkrahús á Ísafirði og þar er tekin ákvörðun um að senda mig suður með sjúkraflugi, þar sem að ég var rétt svo byrjuð að fá væga verki og þeim fannst of mikil áhætta að láta mig eiga á Ísafirði, ef eitthvað skyldi koma uppá í fæðingunni eða eftir fæðinguna. Þetta var visst svekkelsi fyrir mig, því ég var orðin svo spennt að eiga á Ísafirði, en ég vissi að ég yrði að vera sveigjanleg. Í sjúkrafluginu á leiðinni suður hugsa ég til þess sem við sögðum í meðgöngujóganu: Ég er sterk eins og fjallið, en ég er líka sveigjanleg! Það er mikilvægast að litla stelpan mín komi örugg í heiminn.


Við komum suður seinnipart föstudags og ég er sett af stað með töflum, en næ frekar lítilli hvíld um nóttina þar sem stöðugt var komið inn til mín til að athuga síritann sem ég var í eða gefa mér næsta skammt af töflum. Snemma morguns þann 25. september erum við svo færð inn á fæðingarstofu. Ég hafði vonast eftir að geta farið í bað, en við fengum ekki stofu með baði, og mér bara datt ekki í hug að spyrja, þar sem að ég þurfti að vera tengd síritanum allan tímann. Útvíkkunin gekk hægt, þó að hríðarnar fóru að verða örlítið sterkari, og á hádegi er ákveðið að setja mig í drip til að koma mér frekar af stað, þar sem það var kominn sólarhringur síðan legvatnið byrjaði að fara!


Með dripinu koma sterkari hríðar og ég nota haföndunina til að hjálpa mér í gegnum þær, og svo þegar þær verða sterkari, þá byrja ég að humma líka. Það hjálpaði mér mikið þarna framan af og síðar fæ ég að notast við glaðloftið með önduninni. Mér var samt farið að verða pínu flökurt þarna á tíma og eftir ákveðinn tíma með glaðloftið endaði ég á að æla og fannst ég þá orðin ansi máttlaus og þrekin, eftir frekar litla hvíld og kannski lítið af mat síðasta sólarhringinn. Ég og maðurinn minn ákváðum að biðja um mænudeyfingu, þar sem ég varð að fá smá hvíld og útvíkkunin gekk enn mjög hægt.


Ég náði að hvílast með mænudeyfingunni og vann upp þrekið til að klára síðasta kaflann af fæðingunni, að koma litlu dömunni í heiminn! Ég reyndi að hugsa eins og ég gat að þrýsta niður þegar hríðarnar komu og halda andlitinu slöku, til að opna grindarbotninn upp á gátt! Á milli hríða, þegar kollurinn var farinn að láta sjá sig, þá fékk ég að þreifa á henni og fann að það var hárprúð stúlka að mæta í heiminn. Kl 18.50 er hún svo mætt í fangið mitt, heil og sæl, og við foreldrarnir erum alveg dolfallnir yfir henni!

Það var gaman að Edythe skyldi hafa verið á vakt þegar við vorum á sængurlegudeildinni! Það hjálpaði mikið við brjóstagjöfina eftir að tunguhaftið var tekið og við fengum meiri svefn eftir þetta. Litla stelpan okkar, hún Lára, braggast vel og erum við ótrúlega þakklát námskeiðunum sem við sóttum hjá ykkur á Fæðingarheimili Reykjavíkur! Mikið vona ég að þið verðið komnar með húsnæði áður en ég eignast næsta barn, svo ég geti vonandi verið hjá ykkur þá.

Previous
Previous

Jólabarn í janúar