Fæðingarheimili Reykjavíkur

Fréttabréf nr. 2

For english click here. A kliknij tutaj, aby zobaczyć polskie tłumaczenie.

 

Eitt ár liðið frá opnun Fæðingarheimilis Reykjavíkur

Með miklu þakklæti þökkum við fyrir frábærar móttökur á liðnu ári og hlökkum til komandi ára með ykkur. Við fengum Jóhönnu Helgu Þorkelsdóttur til að taka myndir af fjölskyldunum sem komu til okkar í heimsókn í tilefni dagsins. Takk allir fyrir komuna og samveruna á liðnu ári.

Fyrsta árið fæddust 61 barn á Fæðingarheimili Reykjavíkur

Fyrsta barnið fæddist 30. september 2022 og næsta sólarhringinn fæddust tvö börn til viðbótar. Þessi börn fagna nú sínum fyrsta afmælisdegi og óskum við þeim og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Frá þessum fjöruga sólarhring hafa svo 58 börn bæst í hópinn og eru börnin því orðin 61. Kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en fjöldi stúlkubarna eru 33 og drengirnir 28. Flestar mæðurnar voru íslenskar að uppruna en þó voru 18% þeirra sem fæddu hjá okkur með erlendan bakgrunn sem endurspeglar samfélagið okkar á Íslandi vel.

Margar af þeim fjölskyldum sem hafa leitað til okkar eiga von á sínu fyrsta barni og er helmingur þeirra barna sem fæddust á þessu fyrsta ári fyrsta barn foreldra sinna. Þau fæddust líka oftar í vatni en á landi (>60%) og í nærri öllum tilfellum var móðirin í uppréttri stöðu. Um 9 af hverjum 10 konum nýtti sér vatnið eitthvað til verkjastillingar og um helmingur kvenna nýtti sér nudd, ilmolíur, nálastungu og tónlist. Allar fengu þær samfellda þjónustu á meðgöngu og í fæðingu.

Ef þið viljið kynna ykkur þjónustuna á Fæðingarheimili Reykjavíkur betur, þá getið þið smellt hér eða skráð ykkur á opið hús þann 24. október þar sem ljósmæðurnar verða með kynningu á þjónustunni og verðandi foreldrar geta skoðað aðstöðuna.

Tvær splúnkunýjar og dásamlegar fæðingarsögur komnar á vefinn

Fæðingarsögur eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og það getur verið mjög góður undirbúningur fyrir fæðingu að lesa jákvæða en raunsæja sögu af upplifun nýrra foreldra. Við höfum fengið nokkrar frábærar sögur sendar sem eru á heimasíðunni okkar og nú höfum við bætt tveimur splúnkunýjum fæðingarsögum í safnið. Þessar tvær sögur eru fyrstu sögurnar sem hafa verið skrifaðar um fæðingar á Fæðingarheimili Reykjavíkur og þær eiga það líka sameiginlegt að báðar konurnar voru að eignast sín fyrstu börn.

“Síðan skein sól" - Fæðing og fyrstu dagarnir okkar með Emilíu Sól

“Eftir að ég kynnti mér þetta betur áttaði ég mig á því að konur eru bókstaflega gerðar til að fæða börn”

Aukin þjónusta við pólskumælandi fjölskyldur

Það er okkur mikilvægt að jafna aðgengi allra á Íslandi að upplýsingum og þjónustu og til að ná því markmiði höfum við fengið til liðs við okkur þær Paulinu og Alicju, sem eru pólskar að uppruna en búa nú hér á landi með fjölskyldum sínum.

Paulina er doula og kennir frábær fæðingarfræðslunámskeið hjá okkur á pólsku. Alicja er ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi. Hún kennir tvö námskeið hjá okkur. Annars vegar klassískt brjóstagjafanámskeið þar sem hún fer vel yfir mikilvægi brjóstagjafar og hvernig megi undirbúa brjóstagjöf sem allra best og hins vegar námskeið um umönnun nýburans. Hún sinnir einnig brjóstaráðgjöf á fæðingarheimilinu og heimaþjónustu eftir fæðingu - og sinnir helst fjölskyldum sem tala ensku eða pólsku.

Paulina og Alicja verða með opið hús fyrir pólskumælandi fjölskyldur þann 12. nóvember þar sem þær munu veita upplýsingar og fræðslu um barneignarþjónustu á Íslandi. Allar fjölskyldur eru velkomnar.

Lesa meira!

Nýtt námskeið fyrir konur eftir fæðingu

Markmiðið með námskeiðinu er að styrkja og styðja við mæður eftir fæðingu á fjölbreyttan hátt, á þeirra forsendum. Myndaður er hópur með 6-10 konum sem allar hafa nýlega átt barn. Hópurinn hittist vikulega yfir fimm vikna tímabil og fær fræðslu og stuðning frá fjórum fagaðilum - ljósmóður, sjúkraþjálfara, kynfræðing og heimspeking/jógakennara.

Námskeiðið Endurheimt hefur fengið frábær viðbrögð þeirra sem hafa tekið þátt eins og sjá má á umsögnum sem við höfum fengið:

Námskeiðið var akkúrat það sem ég þurfti á að halda, bæði líkamlega og andlega eftir erfiða meðgöngu og fæðingu. Ég tel að það hafi líka hjálpað mér að finna innri ró og hefur gert móðurhlutverkið í kjölfarið einfaldari

Lesa meira!

Fjölbreytt starfsemi - fyrir alla !

Á Fæðingarheimili Reykjavíkur er ýmis þjónusta í boði fyrir allar konur og fjölskyldur óháð því hvort þær nýta sér barneignarþjónustuna hjá okkur. Þjónustan er fjölbreytt og má þá nefna ýmiskonar undirbúningsnámskeið fyrir fæðingu, brjóstagjöf og fyrstu dagana, á íslensku, ensku og pólsku. Einnig er í boði meðgöngu- og mömmujóga á íslensku og ensku, nálastungur, nudd og brjóstagjafaráðgjöf.

Einnig hafa verið vikulegir fjölskylduhittingar á þriðjudögum sem hafa slegið rækilega í gegn. Þeir eru í boði fyrir alla foreldra með ung börn óháð því hvar þau fæddust. Þar er hægt að hittast og spjalla um reynslu og líðan og er stundum sérstök fræðsla í boði sem er þá auglýst sérstaklega.

Hægt er að sjá hvað er á dagskrá hverju sinni á viðburðardagatalinu okkar.

Gjafakort komin í sölu

Við erum byrjaðar að selja gjafakort fyrir þjónustu hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur. Tilvalin gjöf í tilefni afmælis, jóla, nafnaveislu eða einfaldlega til að gleðja stækkandi fjölskyldu. Gjafakortið getur verið fyrir námskeið, nudd og nálastungur. Gjöf sem gleður.

Framtíðin er björt

Við þessi tímamót erum við fyrst og fremst að springa af þakklæti. Þakklæti fyrir að geta sinnt því starfi sem við trúum að sé mikilvægt að sé í boði og þakklátar fyrir samskiptin og samstarfið við aðrar stéttir og stofnanir og fjölskyldurnar sem við sjáum verða til og stækka.

Starfsemin hefur farið fram úr okkar björtustu vonum og höfum við nú á fyrsta árinu okkar fjölgað ljósmæðrum í starfshópnum okkar og erum við nú fimm og verðum fleiri á komandi ári. Við erum lánsamar að fá til okkar einstakar ljósmæður sem sinna starfinu af hugsjón, umhyggju og metnaði.

Framtíðin er björt og er ýmislegt nýtt í spilunum. Til að mynda vinnum við nú hörðum höndum að fræðsluefni fyrir Heilbrigðisráðuneytið til að auka aðgengi fjölskyldna af erlendum uppruna að barneignarþjónustunni á Íslandi og vinnum að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu með því að búa til og þróa þjónustukerfi sem verður kynnt fljótlega. Endilega fylgist með á instagram og facebook!

Takk fyrir samfylgdina á þessu fyrsta ári!

Með kveðju frá ljósmæðrum á Fæðingarheimili Reykjavíkur.