Bætiefni á meðgöngu

Við ráðleggjum öllum konum að taka inn fólínsýru (400 míkrógrömm) og D–vítamín á meðgöngu (15 míkrógrömm eða 600 alþjóðlegar einingar). Fólat er sérstaklega mikilvægt í upphafi meðgöngu og því gott að taka það sem bætiefni fyrir meðgöngu ef þú ert að áforma barneignir en talið er að konur á Íslandi ná um 70% af ráðlögðum dagskammti af fólati úr fæðunni. Þú getur hætt að taka fólinsýru eftir fyrstu 12 vikurnar en þá er mikilvægt að neyta fólatríks mataræðis (grænmeti, ávextir, hnetur og baunir).

Ef þú borðar mjög fjölbreytta fæðu og næringaríka, þá er oftast ekki þörf á að taka inn fleiri bætiefni á meðgöngu.

Hins vegar fer það mjög svo eftir fæðusamsetningu hvort það gæti verið gagnlegt að neyta aukinna bætiefna á meðgöngu:

  1. Ef þú telur þig ekki neyta fisks þrisvar í viku getur verið gagnlegt að taka lýsi sem eru góðir DHA (omega-3 fitusýra) gjafar.

  2. Ef mataræði þitt er ekki fjölbreytt og næringaríkt þá gæti verið gagnlegt að taka fjölvítamín. Þér er þó ráðlagt að taka ekki meira en ráðlagðan dagsskammt og ef þú ákveður að taka lýsi að taka þá fjölvítamín án A- vítamíns til að þú farir ekki yfir ráðlagðan dagskammt af A- vítamíni sem getur haft slæm áhrif á þroska barns í móðurkviði. Mundu líka að í lifrarkæfu og lifrarpylsu er mikið magn af A vítamíni og neysla þess ekki ráðlögð á meðgöngu.

  3. Ef þú neytir ekki mjólkurvara þá gæti verið gagnlegt að taka kalktöflur. Kalk er sjaldan í fjölvítamíni en við ráðleggjum þér að ganga úr skugga um það. Ráðlagður dagskammtur er 900 mg á dag á meðgöngu.

  4. Konum á meðgöngu er almennt ekki ráðlagt að neyta náttúru- og fæðubótarefna þar sem einfaldlega við vitum ekki nógu mikið um áhrif þeirra á meðgöngu og barn í móðurkviði. Við ráðleggjum þér að ræða þetta betur við lækni, næringafræðing eða ljósmóður ef þú veltir fyrir þér að nota þau á meðgöngu.

Previous
Previous

Hreyfing á meðgöngu

Next
Next

Næring á meðgöngu