Undirbúningur fyrir fæðingu

Undirbúningur fyrir fæðingu getur verið ýmiskonar og er hvort tveggja líkamlegur og andlegur. Við hvetjum þig til að byrja strax í dag með undirbúning sem hentar þér. Þú getur byrjað á að hugsa fallega til þín og til barnsins þíns og svo látið þig dreyma um yndislega ferð þar sem þú upplifir alla þá töfra og dýrmætu stundir sem bíða þín.

Líkamlegur undirbúningur fyrir fæðinguna hefst á síðustu vikum meðgöngunnar. Líkaminn byrjar þá að losa hormón sem mýkja, þynna og byrja að opna leghálsinn. Á meðgöngunni hefur líkaminn einnig losað hormónið relaxín sem slakar á liðböndum mjaðmagrindarinnar til að hún gefi nægjanlega eftir. Kollur barnsins færist neðar í mjaðmagrindina á síðustu vikum meðgöngunnar og þegar lungu barnsins eru fullþroska, losar barnið prótein sem ræsir ákveðið ferli í líkama móður og fæðing hefst. Andlegur undirbúningur fyrir fæðingu er ekki síður mikilvægur á meðgöngunni og eitthvað sem þú getur ef til vill unnið í sjálf og haft áhrif á.  

Þá viljum við fyrst nefna sjálfstraust og traust þitt á líkamann, að hann viti hvað hann er að gera og að það sé allt eins og það á að vera. Legvöðvinn þinn sem er umhverfis barnið þitt á meðgöngunni hefur t.d. það eina hlutverk að dragast saman í fæðingu og fæða barnið þitt og það gerir hann svo vel rétt eins og hjartavöðvinn þinn sér um að dæla blóði um líkamann þinn. Hann æfir sig jafnvel á meðgöngunni með samdráttum sem eru þó flestir verkjalausir og vægir. Það er líka eðlilegt að hafa blendnar tilfinningar til fæðingarinnar og jafnvel kvíða óvissunni sem henni fylgir. En þá getur verið gagnlegt að leyfa þessum tilfinningum að vera til staðar og ekki skammast þín fyrir líðan þína. Það getur verið eðlilegt að upplifa kvíða fyrir fæðingunni og það getur verið falleg tilfinning í þeim skilningi að þú vilt að að það verði allt í lagi með þig og barn þitt og að allt gangi vel. En þessi kvíði getur þó orðið of mikill og magnast upp og valdið þér vanlíðan og þá er mikilvægt að þú ræðir þínar áhyggjur við ljósmóður þína í meðgönguvernd sem getur gefið þér góð ráð og jafnvel vísað þér áfram til annarra fagaðila ef þörf er á.

Góð þekking á fæðingarferlinu og raunhæfar væntingar efla sjálfsöryggi kvenna í fæðingu. Ef þú öðlast góða þekkingu á fæðingarferlinu á meðgöngunni og ert búin að fá upplýsingar sem styðja við upplýsta ákvarðanatöku, þá áttu líka auðveldara með að upplifa stjórn í fæðingunni þinni sem hefur bein áhrif á fæðingarupplifun þína.

Fæðingin er ferðalag

Væntingar til fæðingarinnar er einnig mikilvægur þáttur sem hefur áhrif á líðan þína og fæðingarupplifun. Markmiðið hér er að hafa raunhæfar væntingar um fæðinguna. Við höfum svo gaman af dæmisögu um væntingar þar sem lærdómurinn er kannski mikilvægi þess að upplifa augnablikið þar sem það er og það sem þú færð gefið. Þú kannski ætlar þér að fara í ferðalag til Ítalíu, þú undirbýrð þig, lærir ítölsku, lærir allt um ítalska byggingarlist og getur ekki beðið eftir því að skoða Róm og liggja á ströndinni og fá þér gelato. En svo lendir flugvélin í Hollandi og þú ætlaðir ekki að fara þangað og varst ekki undirbúin fyrir þá ferð. Þú getur syrgt Ítalíuferðina þína allt þitt líf, hlustað á alla sem fóru til Ítalíu og elskuðu landið, eða þú getur upplifað töfra Hollands, reynt að læra hollensku og upplifa safarík hollensk jarðaber og fegurð túlípana engja og list Van Gogh. Sérðu hvað við eigum við? Þú getur fundið töfra og góð augnablik og upplifað dýrmætar stundir ef þú bara syrgir ekki það sem ekki var. Þetta er hægt að yfirfæra á svo margt og var fyrst skrifað af Emily Perl Kinglsey þegar hún lýsti hvernig henni leið þegar hún fæddi dóttur sína sem reyndist vera með Downs heilkenni. Þetta getum við líka séð þegar eitthvað er öðruvísi en við vorum búnar að sjá fyrir okkur í fæðingu. Þú ef til vill misstir legvatnið fyrir tímann og endaðir í keisara. Þótt andlegur undirbúningur fyrir fæðingu felist óneitanlega í því að stefna að einhverju ákveðnu -  þá getum við líka einblínt á að eiga góðar og fallegar minningar og upplifa sig í góðu umhverfi með góðan stuðning. Þannig eigum við möguleika á því að upplifa vellíðan hvert svo sem fæðingarferlið fer með þig, til Ítalíu eða Hollands. Báðar ferðirnar geta verið dásamlegar.

Verkir í fæðingu

Ef við skoðum hríðarnar sem eru þegar samdrættir legsins eru orðnir kröftugir og oftast reglulegir, þá er mikilvægt að vita það að þær eru ekki sársaukafullar allan tímann alla fæðinguna. Þetta eru ekki margar klukkustundir af stanslausum verkjum. Hríðarnar styrkjast smám saman, þú finnur að hríðin er að byggjast upp kannski í um 10-15 sek og svo þegar hún er að ná hápunktinum, þá getur þú upplifað verki sem kannski vara í um 15-20 sek, en svo líður úr hríðinni, í kannski um 25 sek en þá upplifa konur oftast enga verki og þá slaknar legið aftur þar til næsta hríð hefst. Á milli hríða finnur þú engar breytingar í sjálfu sér, þú getur gert það sem þú ert vön að gera, spjallað, hlegið og bara hvað sem er. Þetta er auðvitað mjög misjafnt á milli kvenna en þetta er dæmigert ferli sem endurtekur sig á um 2-5 mín fresti í fæðingunni og er þeim oft lýst eins og öldum. Verkir sem fylgja hríðum eru mjög misjafnir og missterkir. Sumar konur finna lítið sem ekkert á meðan aðrar finna meira. Þetta er eitthvað sem við höfum séð svo oft í okkar starfi og við vitum það að verkir og verkjaupplifun er svo mismunandi milli einstaklinga. En þarna er raunhæft að horfa á það þannig að verkirnir sem fylgja fæðingu eru alls ekki stöðugir, þeir koma og fara og þegar þú finnur að hríðin er að byrja þá er tilvalið að koma sér fyrir í þeirri stellingu sem þú kýst og nýta þau bjargráð sem þú þarft á að halda til að takast á við hríðarnar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að hver hríð færir þig nær barninu þínu og eftir því sem hríðarnar krefjast meiri einbeitingar og þú þarft aukinn stuðning, þá einmitt ertu að taka stærri skref í átt að fæðingu barns þíns. 

Það er líka mikilvægt að vita það að verkir í fæðingu eru ekki eins og verkir þegar þú fótbrýtur þig, færð gallsteinakast eða ert með tannpínu. Fæðingarverkir eru ekki boð líkamans um að það sé eitthvað óeðlilegt að gerast í líkamanum sem þarfnast viðgerðar heldur einmitt boð um að það sé allt eins og það á að vera. Fæðingarverkir hafa tilgang. Þeir losa hormón sem kallast endorfín sem er náttúrulega verkjastillandi og í kjölfar fæðingarverkja fæðist barn. Þú getur unnið með þessu náttúrulega ferli og fundið leiðir til að auka vellíðan og þú getur fókuserað á tímabilið sem þú færð á milli hríða þegar legið slaknar. En við mælum fyrst og fremst með því að þú hlustir á líkamann og þínar þarfir, og ef þér líður þannig að þú þarft aukna aðstoð við hríðarverkjum þá er það það sem er rétt fyrir þig. Við gerum allt til að hjálpa þér, til að þú upplifir þig og þína fæðingu vel og við munum styðja við þínar þarfir í fæðingunni.

Fæðingarplan og óskir

Sumum finnst gagnlegt að gera ákveðna fæðingaráætlun í undirbúningi fyrir fæðinguna. Það getur verið mjög sniðugt og verður til þess að þú og þinn stuðningsaðili hugsið út í þá þætti sem skipta ykkur máli í fæðingunni, ræðið þá - og það eitt og sér getur nýst vel. Það getur einnig verið góður grunnur að fræðslu til undirbúnings fyrir fæðinguna, þar sem þú leitar til ljósmóður í meðgönguvernd til að fræðast um ákveðin atriði sem eru þér hugleikin. 

Það er sérstaklega mikilvægt að skrifa niður fæðingaróskir þegar þú þekkir ekki þá ljósmóður sem verður með þér í fæðingu. Það getur haft jákvæð áhrif á samskipti ykkar í fæðingunni og stuðlað að betri fæðingarupplifun. Þegar þú fæðir með ljósmóður sem þú þekkir, þá getið þið nýtt vel tímann í meðgönguverndinni til að fara yfir þessar óskir ykkar og það er einmitt einn af aðalkostum samfelldrar þjónustu eins og við bjóðum upp á á Fæðingarheimilinu. 

Fæðingarplön geta innihaldið mismunandi upplýsingar allt frá hvaða bjargráð þú vilt nota í fæðingu til áforma þinna um brjóstagjöf en okkur finnst mjög gagnlegt þegar konur velta fyrir sér þáttum eins og stuðningi, hvað þú tengir tilfinningu um vellíðan við og hvað þú vilt gera til að finna fyrir öryggi og auka sjálfstraust þitt og hverjar þarfir þínar eru gagnvart stuðningsaðila þínum í fæðingunni.

Upplýsingar um fæðingarferlið

Þú getur öðlast góða þekkingu á fæðingarferlinu með ýmsum hætti, með því að lesa góðar bækur, leita þér upplýsinga á netinu, eiga í góðum samræðum við góða vini og þína ljósmóður á meðgöngunni eða sækja þér námskeið. Við mælum með þessu öllu og þú getur lesið um námskeiðin okkar hér. Þarfir kvenna eru nefnilega svo mismunandi og það er misjafnt hvað hentar hverri og einni þegar kemur að fræðslu. Lesa í einrúmi eða spjalla við vini í hópi.

Í mæðravernd hefur þú tækifæri til að spyrja fagaðila sem þú þekkir, þína ljósmóður og á námskeiðunum okkar leggjum við okkur fram um að veita þér gagnlega fræðslu byggða á nýjustu upplýsingum um efnið. Við leggjum líka áherslu á að hafa ólíka valkosti í boði þegar kemur að undirbúningi fyrir fæðingu sem ættu þannig að henta öllum.

Við hvetjum þig til að byrja strax í dag. Hugsa fallega til þín og barnsins þíns og byrja á að láta þig dreyma um yndislega ferð þar sem þú upplifir alla þá töfra og dýrmætu stundir sem bíða þín.

Previous
Previous

Heimkoma með nýfætt barn

Next
Next

Hreyfing á meðgöngu